Biskupar um málefni flóttamanna

12. mars 2020

Biskupar um málefni flóttamanna

Flóttamannabúðir í Grikklandi

Málefni flóttamanna fara ekki fram hjá neinum. Fjölmiðlar fjalla um flóttamenn nánast á hverjum degi og lýsa aðbúnaði þeirra og kjörum.

Lútherskir og kaþólskir biskupar á Norðurlöndum sendu frá sér tímamótayfirlýsingu um málefni flóttamanna fyrir nokkrum dögum.

Yfirlýsingin markar tímamót hvað það snertir að þetta er í fyrsta sinn sem lútherskir og kaþólskir biskupar á Norðurlöndum skrifa undir sameiginlega yfirlýsingu. Það eitt og sér sýnir að málið er grafalvarlegt og lausn þess þolir enga bið.

Kirkjan.is snaraði yfirlýsingunni yfir á íslensku því að sjálfsagt er að íslenskir lesendur geti fylgst með starfi kirkjunnar á öllum sviðum og því sem hún hefur að segja um þau mál sem brenna á fólki í samtímanum og henni sjálfri.

Yfirlýsinguna má líka lesa hér að neðan á ensku, sænsku og norsku.

Yfirlýsing  Núverandi ástand krefst þess að við öxlum ábyrgð

Nú stendur yfir föstutími kristinnar kirkju. Á þeim tíma gefst okkur stund til að íhuga og fara yfir líf okkar sem þátttakenda í samfélaginu. Við erum hvött til að virða þau mörk sem dregin eru upp gagnvart því sem við megum gera sem og því sem við ættum að sigrast á. Orð spámanna Gamla testamentisins vísa okkur leið. Við megum ekki: „traðka höfuð hins umkomulausa niður í moldina og hrekja hina varnarlausu út af veginum“ (Amos 2.7). Þarna er markalína sem okkur er sett og við megum ekki ganga yfir. En á hinn bóginn verðum við að brjóta niður hindranir sem blasa við því að: „Réttvísi skal streyma fram sem vatn og réttlæti sem sírennandi lækur.“ (Amos 5.24).
Nú um stundir eru líkamleg og andleg mörk okkar reynd vegna kórónuveirunnar og þróunar í málefnum flóttamanna við ytri landamæri Evrópu. Hvort tveggja kallar á ábyrgð einstaklings og samfélags sem nær yfir öll landamæri og án tillits til stjórnmálalegrar sannfæringar. Það er kallað á okkur sem einstaklinga og sem fólk sem tilheyrir mannkyninu. Byrðunum skal dreift og þær axlaðaðar sameiginlega. Ef við bregðumst þá glötum við mennsku okkar.
En hér lýkur því sem svipar saman.
Við þurfum að berjast gegn veiru. En það á ekki við fólk sem er í leit að tryggu skjóli.
Fólk sem leggur á flótta undan óbærilegum lífsskilyrðum getur glatað öllu – en aldrei mannréttindum sínum.
Núverandi ástand við landamæri Tyrklands og Grikklands reynir á mennsku okkar. Flókin pólitísk, menningar-, fjárhags- og lýðræðisleg vandamál vekja réttmætar áhyggjur og ótta. Slíkan ótta verður að taka alvarlega; hann má ekki halda okkur föngnum og hindra okkur í því að axla ábyrgð.
Ef við ætlum að standa við það að vera manneskjur megum við aldrei samþykkja að fólk sem er á flótta frá skelfilegum aðstæðum sé svipt mennsku sinni né heldur megum við gera það sjálft að ógn. Við verðum að koma fram við það af virðingu, veita því virkan rétt sem hælisleitendur og sýna sameiginlega ábyrgð en þannig göngum við fram í anda þess lýðræðis sem við búum við í löndum okkar, og sem manneskjur.
Rétturinn til að leita hælis er mannréttindi. Lönd Evrópusambandsins hafa gengist undir það að senda fólk ekki aftur í aðstæður þar sem kúgun og ofsóknir viðgangast; þetta er hvort tveggja lagaleg skuldbinding og siðferðileg skylda.
Það er ekki í samræmi við þau siðferðilegu gildi sem eru hornsteinn þeirrar Evrópu sem við búum í að slá skjaldborg um öryggi og velferð í Evrópu á kostnað öngþveitis við ytri landamæri hennar. Það er óviðunandi, og vanvirðir hinn kristna vitnisburð í heiminum, og gerir þjóðleg landamæri að hjáguðum, að halda því fram að kristin gildi eða samfélag, sé varið með því að loka af fólk sem leitar skjóls undan ofbeldi og þjáningu.
Evrópusambandið er niðurstaða friðarferlis og friður verður að vera áfram aðalsmerki sambandsins. Okkur mun aldrei takast að tryggja öryggi og festu landa okkar ef við bregðumst á ögurstundu og réttum ekki fram hjálparhönd við að leysa mál sem snúast um átök og kúgun, loftslagsvá og fátækt, sem reka fólk á flótta.
Flóttamannavandinn árið 2015 í Evrópu var nátengdur ástandinu í Sýrlandi og Afganistan sem og á mörgum öðrum stöðum þar sem stríðsátök og ofsóknir leggja líf fólks í rúst. Það sem nú blasir við er að lífi fólks er teflt í tvísýnu. Mesta hörmungin hvað snertir Idlib í Sýrlandi, í Tyrklandi og Grikklandi, er að hún skuli enn standa yfir en hún er ekki sú að fleira fólk leitar yfir landamærin til Evrópu.
Okkur er ljóst að landamæri verða ekki einfaldlega opnuð, og við erum ekki að tala fyrir slíkri lausn eða einhverri áþekkri um eftirlitslausa fólksflutninga.
Þetta dregur enn frekar fram mikilvægi þess að lönd okkar gangast undir lagalega, fjárhagslega og pólitíska ábyrgð. Við berum sameiginlega ábyrgð á því að unnt sé að tryggja mannsæmandi líf í þessum löndum sem eru nú þjökuð af stríðsátökum og fátækt.
Mesta hættan sem Evrópa stendur frammi fyrir birtist ekki í þeim þúsundum karla, kvenna og barna, sem eru á flótta við meginland álfunnar. Hættan er hins vegar sú sem kemur fram í skorti á trú á framtíðina sem og því að alþjóðleg gildi og mannleg virðing fara forgörðum, og skammsýn pólitík gerir vart við sig í öllum hornum samfélagsins. Hættan er sú að tilfinningar okkar slævist svo mjög að við glötum okkar sameiginlegu mennsku.
En þrátt fyrir allt er ekki öll von úti. Reynsla norrænna þjóða sýnir að samkennd og samstaða með fólki á flótta er sterk. Þetta staðfestir og nýleg skoðanakönnun sem Rauði krossinn, Barnaheill og Sænska kirkjan, gerðu. „Þetta er gullnáma mannúðar,“ sagði Kerstin Ekman, rithöfundur, þegar hún frétti niðurstöðuna. Og þessi skoðun verður að heyrast – og skjóta rótum.
Þau sem taka sér stöðu með hinum veiku og hjálparlausu, hinum þjáðu, til að koma í veg fyrir að þau verði troðin niður í svaðið og vikið til hliðar, þau greiða götu réttvísinnar og réttlætisins og þau ganga veg mennskunnar, eru manneskjur. Við erum - þegar öllu er á botninn hvolft - eitt mannkyn, merkt Guði, og lifum saman undir einum og sama himninum.
Antje Jackelén, erkibiskup evangelísk lúthersku kirkjunnar í Svíþjóð
Tapio Luoma, erkibiskup evangelísk lúthersku kirkjunnar í Finnlandi
Bernd Eidsvig, biskup kaþólskra, Óslóarbiskupsdæmi
Atle Sommerfeldt, settur biskup, norska kirkjan
Anders Arborelius, kardináli og biskup kaþólskra, Stokkhólmsbiskupsdæmi
Czeslaw Kozon, biskup kaþólskra, Kaupmannahafnarbiskupsdæmi
Peter Skov-Jakobsen, biskup, Kaupmannahöfn
Dávid Tencer, biskup kaþólskra, Reykjavíkurbiskupsdæmi
Marco Pasinato, postullegur stjórnandi, Helsinkibiskupsdæmi
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, Reykjavík

 

(Ísl. þýð. hsh).

Yfirlýsing biskupanna á ensku.

Yfirlýsing biskupanna á sænsku. 

Yfirlýsing biskupanna á norsku.

hsh

  • Alþjóðastarf

  • Biskup

  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Biskup

  • Menning

  • Samfélag

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra