Orð biskups til þjóðarinnar

15. mars 2020

Orð biskups til þjóðarinnar

Biskup flytur ávarp sitt til þjóðarinnar í Reynivallakirkju í Kjós

Í morgun var útvarpsmessa frá Reynivöllum í Kjós. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, flutti í lok hennar ávarp til þjóðarinnar sem lesa má hér fyrir neðan í heild sinni. Þá lýsti hún blessun. 

Hér má hlýða á útvarpsmessuna.

Sóknarpresturinn sr. Arna Grétarsdóttir, prédikaði og þjónaði fyrir altari ásamt biskupi. Við orgelið var Guðmundur Ómar Óskarsson. Kór Reynvallaprestakalls söng. María Qing Sigríðardóttir lék einleik á selló. 

Sr. Agnes sagði Almannavarnir og yfirvöld vinna frábært starf sem og allt heilbrigðisstarfsfólk og fjölda annarra. Þakkaði hún öllum fyrir þetta mikla starf og óeigingjarna. Hún sagðist þess fullviss að sigur myndi nást á þessum vágesti og þar skipti mestu máli samtakamáttur landsmanna, samheldni og ábyrgð – trú, von, bæn og kærleikurinn.

Biskup fór nokkrum orðum um hvernig starf kirkjunnar yrði á næstu vikum. Sálgæsla, helgihald og fyrirbænir verða á sínum stað en með öðrum hætti en venjulega. Prestar landsins og kirkjunnar fólk mun gæta allra varúðarsjónarmiða sem landlæknir hefur gefið út. 

                                                  Ávarp biskups og bæn
Þessi fallegi sálmur sem sunginn sem var að enda hér er með texta úr Davíðssálmum. Þeir sálmar hafa verið samferða mörgum manninum á vegferð hans gegnum lífið. Í gleði og sorg, í hamingju og þraut, í vonleysi og verið til uppörvunar og sennilega er 23. Davíðssálmur þekktastur sálmanna eins og sr. Arna gat um í prédikun sinni hér áðan, sem var sterk og boðandi. „Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér“ segir þar.
Mannkyn allt stendur nú frammi fyrir því að örsmá lífvera, kórónaveiran veður óboðin yfir lönd og höf og sýkir hvern þann er á vegi hennar verður. Sem betur fer búum við í frjálsu landi þar sem upplýsingum er komið til skila af færustu sérfræðingum okkar.
Það hefur verið aðdáunarvert hvernig heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin og yfirvöld þessa lands hafa tekið á málum og eiga þau þakkir skilið fyrir það. Alma landlæknir, Þórólfur sóttvarnarlæknir og Víðir yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra hafa staðið í stafni gagnvart okkur íbúum þessa lands og borið okkur nýjustu fregnir daglega af yfirvegun og þekkingu. Almannavarnir eru að vinna frábært starf. Það gerir einnig starfsfólk í heilbrigðisgeiranum sem vinnur þrotlaust og óeigingjarnt starf og fleiri mætti nefna. Kærar þakkir öll fyrir ykkar framlag.
Framundan er mikil áskorun fyrir íslenskt samfélag að takast á við þennan vágest sem COVID-19 er. Þar mun fullur sigur vinnast með samtakamætti, samheldni og ábyrgð – trú, von, bæn og kærleika.
Næstu dagar munu einkennast af snörum vendingum, nýjum upplýsingum og hröðum skiptingum. Það er því afar mikilvægt að fylgjast vel með og fylgja fyrirmælum stjórnvalda.
Eins og fram hefur komið munu fermingar ekki fara fram meðan samkomubann er í gildi. Ákvörðunin er tekin með almannaheill að leiðarljósi. Ákvörðun um fyrirkomulag ferminga er tekin í hverri sókn fyrir sig. Messuhald verður með öðrum hætti meðan á banninu stendur. Messum verður streymt þann tíma sem samkomubann er í gildi og útfarir fara fram en með skilyrðum samkomubanns.
Prestar landsins halda áfram að gegna mikilvægri sálgæsluþjónustu með öllum þeim varúðarsjónarmiðum sem landlæknir hefur gefið út. Það mikilvæga hlutverk kirkjunnar að sinna sálgæslu, helgihaldi og fyrirbænum fellur ekki niður þó framkvæmdin verði önnur en venjulega.
Kirkjan mun setja í loftið hlaðvarp til að halda uppi umræðu um málefni sem styrkja vonina, eyða óttanum og viðhalda gleðinni sem kemur okkur í gegnum erfiða tíma.
Davíðssálmar hafa gefið kynslóðunum styrk og von á lífsins leið. Postularnir hafa líka gefið ýmis hvatningarorð eins og Páll postuli þegar hann uppörvaði Tímóteus samverkamann sinn og sagði í bréfi sínu til hans:
„Því að ekki gaf Guð okkur anda hugleysis heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.“ (2. Tímóteusarbréf, 1.7).
Hvílum í þeirri trú að Guð muni ekki yfirgefa okkur heldur ganga með okkur veginn fram hér eftir sem hingað til. Honum felum við allt okkar ráð og dáð og biðjum í Jesú nafni:
Drottinn. Þú læknaðir sjúka og annaðist þá sem voru hjálparvana. Nú erum við hjálparvana hér á landi sem um heim allan.
Við biðjum þig gæta smitaðra og sjúkra og gefa þeim heilsu á ný.
Verndaðu þau sem eru með veikbyggt ónæmiskerfi og eru viðkvæm fyrir smiti.
Komdu með frið þinn og styrk til þeirra sem eru hrædd og til þeirra sem óttast efnahagshrun og fjárhagslega framtíð sína og afkomu.
Verndaðu þau sem starfa við hjúkrun og aðhlynningu og þau öll sem lækna og líkna og gef að þau smitist ekki og beri smit í skjólstæðinga sína.
Veittu öllum þeim sem taka ákvarðanir í þessum faraldri visku til að taka réttar og gagnlegar ákvarðanir mannkyni til heilla.
Hjálpaðu okkur að fara eftir öllum leiðbeiningum og verða þannig að liði við við að stjórna útbreiðslu corona vírusins, fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Amen.

hsh

 

  • Biskup

  • Frétt

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Trúin

  • Biskup

  • Samfélag

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut