Kyrrðarbæn í ókyrrð

16. mars 2020

Kyrrðarbæn í ókyrrð

Útsaumur á altarisbrík í kapellu Sterlingkastala á Skotlandi

Samkomubann setur vissulega strik í reikninginn í nær öllu kirkjustarfi – og menn spyrja hvernig hægt sé að vinna út frá því.

Enda þótt hefðbundnar guðsþjónustur leggist tímabundið af þá getur fólk iðkað trú sína með ýmsu móti – eins og það gerir svo sem jafnan með einum eða öðrum hætti.

Ljóst er að bann við samveru 100 einstaklinga og fleiri nær ekki að skjóta loku fyrir starf smærri hópa í kirkjustarfi. En þar verður vitaskuld að gæta að tveggja metra fjarlægð fólks.

Svokölluð kyrrðarbæn (á ensku: Centering prayer) hefur rutt sér til rúms í nokkrum söfnuðum. Um er að ræða aldagamla bæna- og íhugunaraðferð sem felur í sér bæn án orða og innra samþykki iðkandans til að þiggja nærveru Guðs og starf hans hið innra,“ eins og þau segja í Laugarneskirkju. Hér mætti jafnvel kalla séra Jón Prímus til vitnis um takmörkun orða í samskiptum manns og Guðs:

Til hvers eru orð? „Orð eru villandi. Ég er einlægt að bera mig að gleyma orðum.“ (Kristnihald undir Jökli, eftir Halldór Laxness, R. 1968, bls. 106). 

Kyrrðarbænin hefur opnað mörgum leið til kristinnar trúar og reynst mörgum dýrmæt aðferð til að auðga trúarlíf sitt.

Kirkjan.is hafði samband við þrjá presta og formann Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi sem hafa öll góða reynslu af svokallaðri kyrrðarbæn, bæði í einkalífi og kirkjurstarfi. 

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir á Mosfelli hefur iðkað kyrrðarbænina í mörg ár.

„Hver og einn getur iðkað kyrrðarbænina heima hjá sér,“ segir sr. Ragnheiður, „gjarnan tvisvar á dag og stundarþriðjung í senn.“

Hún segir að í þessum sérstöku aðstæðum í samfélaginu nú um stundir sé upplagt að taka kyrrðardag heima, heilan dag eða hálfan.

Sr. Ragnheiður gefur uppskriftina:

„Þú sest í stól og hefur bænaformið um hönd í tuttugu mínútur. Síðan gengur biðjandi mjög hægum skrefum í hljóði einn hring í stofunni eða herberginu. Hefur bænina aftur í tuttugu mínútur. Situr svo hljóður í tvær mínútur. Að því búnu fer biðjandi út í göngutúr og gengur hægum skrefum – eða hann les í bók, skrifar jafnvel dagbók í eina klukkustund. Síðan er sest niður tvisvar sinnum og biðjandi hefur bænina um hönd í stundarþriðjung í hvort sinn.“

Bylgja Dís Gunnarsdóttir er söngkona, fræðslu- og æskulýðsfulltrúi Hafnarfjarðarkirkju. Hún er jafnframt með kyrrðarbænahóp í Vídalínskirkju og segir að kyrrðarbænina sé hægt að stunda í einrúmi. Hún minnir á orð Jesú í

Matteusarguðspjalli 6.6: „En þegar þú biðst fyrir skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.“

„Kyrrðarbænahópar munu starfa í ýmsum kirkjum,“ segir sr. Bylgja Dís. „Fólk dreifir sér bara um kirkjuna og gætir þess að hafa nóg pláss á milli.“ Bænin fer svo fram í þögn. 

Bylgja Dís er er formaður Kyrrðarbænasamtakanna hér á landi.

Sr. Hjalti Jón Sverrisson í Laugarneskirkju sagði að þau í Laugarnesinu hefðu iðkað saman kyrrðarbænina síðastliðið ár. „Fastan er tímið iðkunar og íhugunar,“ sagði sr. Hjalti Jón, „það á ekki síst við nú þegar fasta og samkomubann munu haldast hönd í hönd.“ 

Sr. Hjalti Jón segir að þau í Laugarnesi séu að athuga möguleika á því að bjóða áfram upp á samverur á þriðjudagskvöldum þar sem kyrrðarbænin er iðkuð. Öllum fyrirmælum verði að sjálfsögðu fylgt.

„En við viljum líka hvetja fólk til að iðka kyrrðarbænarformð heima hjá sér,“ segir sr. Hjalti Jón. Hann segir að einhverjir „gefi jafnvel í“ og iðki bænina daglega og það tvisvar á dag í stundarþriðjung í senn.

Sr. Dagur Fannar Magnússon í Heydölum hefur kynni af kyrrðarbæninni. Hann hefur skrifað um hana og verið með námskeið sem ætlað var að leiða fólk með auðveldum hætti inn í kyrrðarbænina.

„Það getur veri erfitt,“ segir sr. Dagur, „að skella sér beint inn í kyrrðarbænina en það er þó mögulegt og margir sem hafa gert það.“ Hann segir kyrrðarbænina þess eðlis að hún falli vel til að stunda hana með sjálfum sér eða sjálfri sér.

En á öllu eru tvær hliðar – og jafnvel fleiri. „Ég hef heyrt hjá fólki sem stundar bænina,“ segir sr. Dagur Fannar, „að bænaeinbeitingin sé meiri í hóp.“ Í þessu samband vitnar hann til þessara orða: 

Matteusarguðspjall 18.19-20: „Enn segi ég yður: Ef tveir yðar verða einhuga hér á jörð í bæn sinni mun faðir minn á himnum veita þeim allt sem þeir biðja um. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.““

Sr. Dagur Fannar bætir því við að þetta sé kannski þversagnakennt og segir: „En í því felst fegurð mystískrar iðkunar.“

Bænin kyrrir hugann og öll stormviðri sem geisa innra með manneskjunni, dregur úr áhyggjum, kvíða, streitu og veitir nýja sýn á lífið

Þess má geta að Nína Leósdóttir, guðfræðingur, hefur þýtt bók um kyrrðarbænina, og heitir hún: Vakandi hugur ,vökult hjarta.

Sjá nánar þessar heimasíður: 

Lágafellskirkja - kristin íhugun

Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi - Facebókarsíða

Garðasókn - Vídalínskirkja - bæna- og kyrrðarstundir

Laugarneskirkja - kyrrðarbæn

Sr. Dagur Fannar Magnússon: Kyrrðarbæn og núvitund

Sr. Dagur Fannar Magnússon: Stormviðri hugans ...

hsh

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Safnaðarstarf

  • Starf

  • Trúin

  • Fræðsla

Sr. Guðmundur og sr. Guðrún.jpg - mynd

Fyrri umferð biskupskosninga lokið

16. apr. 2024
...kosið verður á milli sr. Guðmundar Karls og sr. Guðrúnar
Frá Presta- og djáknastefnunni 2023 í Grensáskirkju

Presta- og djáknastefnan 2024 sett á morgun

15. apr. 2024
...í Stykkishólmi