Sr. Einar G. Jónsson, pastor emeritus, kvaddur

7. apríl 2020

Sr. Einar G. Jónsson, pastor emeritus, kvaddur

Sr. Einar Guðni Jónsson

Sr. Einar Guðni Jónsson, fyrrum sóknarprestur á Kálfafellsstað, lést á Landspítalanum, Landakoti, 4. apríl s.l.

Sr. Einar fæddist á Kálfafellsstað í Borgarhafnarhreppi, Austur-Skaftafellssýslu, 13. apríl 1941. Foreldrar hans voru hjónin sr. Jón Pétursson, sóknarprestur og prófastur á Kálfafellsstað, og Þóra Einarsdóttir, húsfreyja, og síðar formaður og framkvæmdastjóri fangahjálparinnar Verndar í Reykjavík.

Eftirlifandi eiginkona hans er Sigrún Guðbjörg Björnsdóttir, kennari. Börn hennar og stjúpbörn sr. Einars: Bjarki, Brjánn og Kristján.

Fyrri eiginkona sr. Einars var Jórunn Guðrún Oddsdóttir (d. 2018), þau skildu. Kjörsonur þeirra: Sigurkarl.

Sr. Einar var á fjórða ári þegar foreldrar hans fluttust frá Kálfafellsstað og ólst hann upp í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1961 og guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1969. Síðar lauk hann prófi til kennsluréttinda á framhaldsskólastigi, stundaði nám í kirkjusögu við Kaupmannahafnarháskóla 1975-1976 og í sálgæslu við Háskóla Íslands 1998-1999. Þá stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Á háskólaárum sínum starfaði Einar í lögreglunni í Reykjavík á sumrin og lék með ýmsum danshljómsveitum. Hann var starfsmaður Landsbanka Íslands, og var deildarfulltrúi hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar 1970-1972. 

Sr. Einar var vígður 11. júní 1972 til Söðulsholtsprestakalls (áður Miklaholtsprestakall) á Snæfellsnesi. Árið 1982 var hann skipaður sóknarprestur í Árnesprestakalli á Ströndum og fór þaðan árið 1989 á heimaslóðir sínar, Kálfafellsstað, og lauk þar prestsþjónustu sinni árið 2011, sjötugur að aldri - farsæll sveitaprestur hátt í fjóra áratugi.  

Eins og svo margur sveitapresturinn fékkst sr. Einar við kennslu í prestaköllum þeim er hann þjónaði. Jafnframt gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum í prestaköllum sínum. Hann tók virkan þátt í samfélagi sóknarbarna sinna og iðulega kallaður til þar sem tónlistar var þörf enda hann mikill tónlistarmaður, lék á harmóníum, píanó og harmonikku. Sjálfur lék hann oft á harmóníum Rauðamelskirkju þegar hann hafði þar guðsþjónustur um hönd og enginn var organistinn. Myndin sem er hér að ofan er tekin í Rauðamelskirkju fyrir fáeinum árum en sú kirkja var honum jafnan kær.

Sr. Einar var drengur góður, þægilegur í viðkynningu og greiðvikinn. Um margt skemmtilega sérlundaður og sál sveitamannsins var sterkari í honum en borgarbarnsins. Í honum var að finna næma listræna taug sem kom einkar vel fram í tónlistargáfu hans. Hann var skrafhreifinn og glaður í viðkynningu, hafði sig lítt á oddi í fjölmenni en naut sín í litlum hópum, yfirlætislaus maður og spakmenni. Mildur í svörum og orðgætinn. Sr. Einar var fróður um gamla tíð og lét hversdagslegan eril nútímans ekki hreyfa svo mjög við sér. Hann var afar trygglyndur öllum sóknarbörnum sínum sem mátu hann enda mjög mikils.

Sr. Einar Guðni Jónsson er kvaddur með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans.

hsh


    Sr. Stefán Már.jpg - mynd

    Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

    18. apr. 2024
    ...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
    Úlfastundir 5.jpg - mynd

    Úlfastundir í Lágafellssókn

    18. apr. 2024
    ...boðið upp á slátur og graut
    Sr. Þorvaldur Víðisson

    Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

    18. apr. 2024
    ...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra