Syngjandi sumarkveðja

23. apríl 2020

Syngjandi sumarkveðja

Sumarkveðja til þín!

Á sumardaginn fyrsta og fram til þess að samkomureglur verða rýmkaðar 4. maí, mun kirkjan.is senda daglega gegnum vef kirkjunnar myndband með einum sálmi.

Sálmarnir hafa allir verið valdir í sálmabók kirkjunnar sem væntanleg er á þessu ári, og eru þeir meðal nýs efnis bókarinnar.

Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, og sálmabókarnefnd hafa valið ellefu sálma, sem ekki hafa birst áður í sálmabókum; ný íslensk lög og textar, ný lög við eldri sálma, nýjar þýðingar við þekkt erlend sálmalög, sálmar sem hafa fengið ný og söngvænni lög, sumarsálmar, nýr skírnarsálmur, sálmur um ábyrgð okkar á jörð og umhverfi svo nokkuð sé nefnt.

Í dag, sumardaginn fyrsta, sendir kirkjan.is sumarsálm eins mesta sálmaskálds þjóðarinnar, Valdimars Briem, með lagi eftir danska organistann Thomas Laub. Sálmurinn hafði annað lag í fyrri sálmabók sem ekki hæfði eins vel og þetta lag gerir.

Gleðilegt sumar!

Flytjendur:

Félagar í Barbörukór Hafnarfjarðarkirkju:
Hulda Dögg Proppé,
Hugi Jónsson,
Þórunn Vala Valdimarsdóttir

Organisti: Guðmundur Sigurðsson

Upptaka í Hafnarfjarðarkirkju. Upptökustjórn: Friðjón Jónsson

hsh/mb

Þú unga tíð, þú unaðsvor
Lag: Thomas Laub, texti: Valdimar Briem

Þú unga tíð, þú unaðsvor,
sem ísköld máir dauðans spor
og lætur lífið glæðast,
vorn hjartans kulda' og klaka þíð
og kenn þú öllum Drottins lýð
í anda' að endurfæðast

 Þú glaða tíð, um loft og láð
 er lofar Drottins miklu náð
 með unaðslegum ómi,
 oss minn á gæsku gjafarans,
 svo glaðir þökkum miskunn hans
 með vorum veika rómi.

 Þú fagra tíð, er fjall og dal
 með fagurt þekur blómaval
og skrýðir grænu skrúði,
vor hjörtu fögru skrúði skrýð
og skærum dyggða blómum prýð
þú Drottins dýra brúði.

Þú frjóa tíð, er frækorn smá
svo fóstrar vel, að þroska ná
á dýrum sumardegi,
oss minn þú á, að einnig vér
þann ávöxt skulum bera hér,
er Guði geðjast megi.

Þú hraða tíð, er flýgur fljótt
og fyrr en varir hverfur skjótt,
en kemur eitt sinn aftur,
oss kenn, hve ótt að ævin þver,
en eilíft líf í skauti ber
Guðs sterki kærleikskraftur.

Sb. 1886 - Valdimar Briem
Sálmur nr. 479


  • Frétt

  • List og kirkja

  • Menning

  • Tónlist

  • Trúin

  • Menning

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta