Syngjandi sumarkveðja

26. apríl 2020

Syngjandi sumarkveðja

Skírnarfontur á milli bænaljóss og kross. Árbæjarkirkja

Þá kemur fjórða sumarmyndbandið af ellefu sem sent er í gegnum vef kirkjunnar og nú er það skírnarsálmur.

Danski skírnarsálmurinn, Med favnen fuld af kærlighed, er samvinna sóknarprestsins við Lindevang Kirke í Frederiksberg, sr. Christiane Gammeltoft-Hansen, og organista kirkjunnar, Mads Granum.

Organistinn er bæði menntaður jazz-píanóleikari og kirkjutónlistarmaður. Hann hefur samið og gefið út jazz-sálma og ýmis kirkjuleg verk í þeim stíl.

Árið 2014 sýndi sr. Christiane organistanum sálmatextann en hann hafði þá nýverið eignast sitt annað barn, dótturina Albertu. Sálmurinn er tileinkaður henni.

Í skemmtilegu myndbandi á Youtube, sem sjá má hér, segir hann frá æsku sinni sem prestssonur, námi sínu og svo tilurð lagsins. Hann gekk úti með barnavagninn og hugsaði um textann, sérstaklega vatnið og mátt þess og þegar hann tók dótturina upp, fann að hann var með fangið fullt af ást og kærleika. Þannig kom lagið bara til hans að eigin sögn.

Á vegum þjóðkirkjunnar er nefnd að störfum sem vinnur að nýju helgihaldi fyrir skírnina. Oft hefur verið talað um að gott væri að fá fleiri skírnarsálma og þegar sr. Kristján Valur rakst á þennan sálm á netinu, hreifst hann mjög. Tónlistarfólk í sálmabókarnefndinni hvatti hann eindregið til að snúa sálminum yfir á íslensku enda hann snjall þýðandi.

Sálmarnir ellefu sem hér eru kynntir fram til 4. maí hafa allir verið valdir í sálmabók kirkjunnar sem væntanleg er á þessu ári, og eru þeir meðal nýs efnis bókarinnar.

Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, og sálmabókarnefnd, völdu sálmana ellefu, sem ekki hafa birst áður í sálmabókum; ný íslensk lög og textar, ný lög við eldri sálma, nýjar þýðingar við þekkt erlend sálmalög, sálmar sem hafa fengið ný og söngvænni lög, sumarsálmar, nýr skírnarsálmur, sálmur um ábyrgð okkar á jörð og umhverfi svo nokkuð sé nefnt.

 

Með fangið fullt af ást (skírnarsálmur)
Lag: Mads Granum
Texti: Kristján Valur Ingólfsson

Flytjendur:

Félagar í Barbörukór Hafnarfjarðarkirkju:
Hulda Dögg Proppé
Hugi Jónsson
Þórunn Vala Valdimarsdóttir

Organisti: Guðmundur Sigurðsson

Upptaka í Hafnarfjarðarkirkju. Upptökustjórn: Friðjón Jónsson

hsh/mb

                                                        Með fangið fullt af ást

                                            Með fangið fullt af ást og trú við erum
                                            er okkar litla barn til skírnar berum.
                                            Þar í skírnarbaði blessun Drottinn gefur,
                                            börn sín Kristur örmum vefur.

                                            Við biðjum þig ó, Kristur, kom í anda,
                                            þinn kærleik gef þú leiðsögn okkar handa.
                                            Þetta skírnarvatn úr lífsins lindum streymir,
                                            líkn Guðs náðar barnið geymir.

                                            Þú minnir okkur á hve miklu stærra
                                            er mannlegt líf, það leitar áfram, hærra,
                                            upp til þín ó, Guð, sem nýjum heimi heitir,
                                            hann er gjöf sem náð þín veitir.

                                            Við skulum því til skírnar börnin bera,
                                            í blessun Guðs er öllum sælt að vera,
                                            líkt og vorregn elska Drottins drýpur niður,
                                            dögg á enni líf og friður.

 


Mads Granum, organisti, og sr. Christiane Gammeltoft-Hansen

  • Frétt

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut