Syngjandi sumarkveðja

27. apríl 2020

Syngjandi sumarkveðja

Seyðisfjarðarkirkja - Iðunn Steinsdóttir, höfundur textans, fæddist á Seyðisfirði. Mynd: Hákon Hansson

Þá kemur fimmta sumarmyndbandið af ellefu sem sent er í gegnum vef kirkjunnar. Það er þakkarsálmur.

Lag þessa sálms er vel þekkt enskt þjóðlag. Frumgerð sálmsins er ensk, eftir Brian A. Wren sem er kunnugt sálmaskáld, prestur og prófessor emeritus í Bandaríkjunum. Eftir hann liggur einnig fjöldi bóka um guðfræði.

Texti Iðunnar Steinsdóttur styðst við sænskan sálm, Vi tackar för skörden som jorden oss gav, sem hefur fjögur erindi. 

Iðunn Steinsdóttir er þjóðkunnur rithöfundur. Hún fæddist þann 5. janúar 1940 á Seyðisfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1960 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1981. Frá 1987 hefur hún að mestu fengist við ritstörf. Fjöldi bóka hefur komið út eftir hana. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín.

Sálmarnir ellefu sem hér eru kynntir fram til 4. maí hafa allir verið valdir í sálmabók kirkjunnar sem væntanleg er á þessu ári, og eru þeir meðal nýs efnis bókarinnar

Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, og sálmabókarnefnd, völdu sálmana ellefu, sem ekki hafa birst áður í sálmabókum; ný íslensk lög og textar, ný lög við eldri sálma, nýjar þýðingar við þekkt erlend sálmalög, sálmar sem hafa fengið ný og söngvænni lög, sumarsálmar, nýr skírnarsálmur, sálmur um ábyrgð okkar á jörð og umhverfi svo nokkuð sé nefnt.

Flytjendur:

Félagar í Barbörukór Hafnarfjarðarkirkju:
Hulda Dögg Proppé
Hugi Jónsson
Þórunn Vala Valdimarsdóttir

Organisti: Guðmundur Sigurðsson

Upptaka í Hafnarfjarðarkirkju. Upptökustjórn: Friðjón Jónsson

hsh/mb

                                            Ég landinu þakka
                            Ég landinu þakka allt líf sem það ól,
                            ég lék mér að fíflum og smárum á hól.
                            Og draumana alla sem dreymdi mig þá
                            í döggvuðum bjarma ég horfi nú á.

                            Og fjöllunum þakka ég friðsemd og ró
                            með fossum sem niða og lækjum í mó
                            og tunglinu litla sem ljómar svo bjart
                            og lýsir upp skammdegið hrollkalt og svart.

                            Ég þakka þér, Guð, sem að gafst þetta allt,
                            jafnt grósku og birtu og úthafið svalt
                            og kærleika' og von þó að veröld sé hörð,
                            að veginn þú lýsir til friðar á jörð.

 

  • Frétt

  • Menning

  • Tónlist

  • Trúin

  • Menning

Prestar og djáknar 2024

Presta- og djáknastefnan var sett í gær

17. apr. 2024
...í Stykkishólmi
Garðakirkja á Álftanesi - mynd: hsh

Þau sóttu um

17. apr. 2024
...Garðaprestakall
Sr. Guðmundur og sr. Guðrún.jpg - mynd

Fyrri umferð biskupskosninga lokið

16. apr. 2024
...kosið verður á milli sr. Guðmundar Karls og sr. Guðrúnar