Kirkjustarfið eftir rýmkun

7. maí 2020

Kirkjustarfið eftir rýmkun

Fyllsta öryggis gætt á veirutíð

Það hefur ekki farið framhjá neinum að samkomubannið var rýmkað 4. maí. Nú mega 50 manns koma saman en halda verður tveggja metra fjarlægðinni sem áður. Sem fyrr er það mikilvægt að hver og einn virði þessi tilmæli og verði bæði sjálfum sér og öðrum góð fyrirmynd. Hér er gildandi reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og gildir hún út maímánuð. Þá verður hún endurskoðuð - sjá nánar hér.

Tveggja metra fjarlægðarreglan verður áfram efst á blaði. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, skilgreinir hana sem hluta af einstaklingsbundnum smit- og sýkingarvörnum. Hvetur hann til þess að fólk reyni eftir því sem kostur er að halda þessa reglu og þá sérstaklega þau sem viðkvæm eru. Reglan er í raun og veru persónuleg veiruvörn einstaklingsins í samfélaginu.

Fermingar En kirkjurnar verða ekki með opið helgihald fyrr en frá og með 17. maí og þá án altarisgöngu en biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, greindi samstarfsfólki sínu frá þeirri ákvörðun í bréfi 17. apríl s.l. Fermingar þær sem yrðu um hvítasunnu færu þá fram í samræmi við fjölda, nálægðarmörk og án altarisgöngu. Þó væri ekki um að ræða fermingu fermingarbarnahópa (eins og fólk er vant í hinum stærri söfnuðum) heldur aðeins væri eitt til tvö börn fermd í hverri athöfn.

Þetta er vissulega mikil breyting víðast hvar - enda þótt í fámennum sveitasóknum kunni að vera eitt til tvö fermingarbörn en það er nú önnur saga og ekki ný.

Söfnuðurinn Starf kirkjunnar er safnaðarstarf. Í orðinu felst hópur fólks. Söfnuðurinn safnast saman til guðsþjónustu og við mörg önnur tilefni. Sálgæsla er hins vegar á einstaklingsgrunni alla jafna enda þótt hún fari líka stundum fram í minni hópum. Nú er söfnuðinum sannarlega skorður settar. Ekki fleiri en hálft hundrað við guðsþjónustur. Augljóst er málið er auðveldara viðfangs í hinum stærri kirkjum á stórhöfuðborgarsvæðinu og í bæjum úti á landi. Allt verður örðugra þar sem hinar minni kirkjur eru og verður í einhverjum tilvikum messuhald fært inn í félagsheimili þar sem er rýmra.

Þessar nýju aðstæður krefjast viðbragða, nýs skipulags og varfærni. Þær breyta um stund yfirbragði starfsins og kirknanna – t.d. ef annar hver kirkjubekkur er aflokaður.

Kirkjan.is leitaði til nokkurra presta vítt og breitt um landið, í öllum prófastsdæmum, og spurði þá hvernig málum yrði háttað hjá þeim í ljósi þessara takmarkana.

Í svörum þeirra kom fram mikil eftirvænting fyrir því að hefja kirkustarfið enda þótt með þessum takmörkunum væri. Fram kom að hjól safnaðarstarfsins færu að snúast af eins miklum krafti sem tilmæli biskups og yfirvalda leyfðu.

Ljóst er að tveggja metra reglan (nálægðartakmörkunin) er þegar kemur að kirkjustarfi dálítið snúin enda þótt tilgangur hennar sé góður og beri að virða.

Hvað sögðu prestarnir? Hér koma svör þeirra og fleiri eiga eftir að berast og verður fréttin uppfærð með tilliti til þess hverju sinni.

Þetta sögðu þau og voru bjartsýn
Sr. Magnús Björn Björnsson, Breiðholtsprestakalli: „Í Breiðholtskirkju verða guðsþjónustur 17. og 24. maí. Þann 21. maí, sem er uppstigningardagur, verður útvarpsguðsþjónusta, en hún hefði átt að vera á Hjúkrunarheimilinu Grund, en færist til okkar vegna Covid 19. Aðalsafnaðarfundur verður haldinn 24. maí eftir guðsþjónustu. Í júnímánuði verða göngumessur í Breiðholtinu. Fyrirbænaguðsþjónustur eru alla miðvikudaga kl. 12.00 og falla aldrei niður. Við vonum að í júní til október verði kirkjuskipinu lokað vegna viðgerða. Þá færist allt helgihald og safnaðarstarf á jarðhæðina.“

Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, Lindaprestakalli: „Í Lindakirkju ætlum við að fara þá leið frá og með 17. maí að opna sunnudagaskólann aftur og verður hann á sunnudagsmorgnum kl. 11.00 í sumar. Börn eru undanþegin tveggja metra reglunni en það eru fullorðnir ekki og munum við því óska eftir að hverju barni verði fylgt af einum fullorðnum að hámarki. Á sunnudagskvöldum kl. 20.00 að verður Lofgjörðar-, sálma- og bænaflæði. Það mun standa yfir í klukkutíma, kannski einn og hálfan eftir atvikum, og þá hleypt inn í hollum ef þörf verður á.“ 

Sr. Arnór Bjarki Blomsterberg, Tjarnaprestakalli: „Við spilum þetta bara í takti við aðrar kirkjur. Ætlum að bjóða uppá helgistundir frá 17.maí og út mánuðinn en svo tekur við spennandi samstarfsverkefni kirknanna í Hafnarfirði og Garðabæ: Sumarkirkjan 2020. Það er sameiginlegt helgihald allra kirknanna sem verður haldið í Garðakirkju alla sunnudaga í júní, júlí og ágúst. Virkilega spennandi og er vonandi komið til að vera.“ 

Sr. Ninna Sif Svavarsdóttir, Hveragerðisprestakalli: „Fyrsta guðsþjónusta vorsins í Hveragerðisprestakalli verður í Hveragerðiskirkju 17.maí og þá verður ein stúlka fermd. Þá verður messað bæði í Hveragerðiskirkju og Kotstrandarkirkju á hvítasunnudag 31.maí og börn fermd. Í júní verða svo göngu - og/eða hjólaguðsþjónustur og helgistund á 17.júní utandyra ef veður leyfir.“ 

Sr. Þór Hauksson, Árbæjarprestakalli: „Við í Árbæjarkirkju verðum m. a. með útvarpsguðsþjónustu 17.maí og eftir það verðum við með helgistundir. Undanfarin ár frá byrjun júní höfum við við verið með svokallaðar sumarhelgistundir þar sem við leggjum upp með léttleikann í helgihald fram í ágúst. Við verðum með göngu og útimessur. Þannig ma segja að við förum í þann gír eftir 17. maí.“

Sr. Alfreð Örn Finnsson, Austfjarðaprestakalli: „Við á Djúpavogi erum í raun að skoða framhaldið. Kórinn hittist aftur á næstunni. Ég reikna með að netið verði áfram nýtt út maí og útiguðsþjónusta verði á sjómannadaginn. Það hefur gengið vel að hefta útbreiðslu veirunnar fyrir austan og fólk vill almennt fara varlega og ekki flýta sér. Stefnt er að því að ljúka fermingarfræðslu og barna/æskulýðsstarfi í maí.“ 

Sr. Guðbjörg Arnardóttir, Selfossprestakalli: „Við á Selfossi byrjum aftur með auglýst helgihald 17. maí og þann sunnudag mun Unglingakórinn syngja og jafnframt taka við krossi að gjöf frá kirkjunni sem þakklætisvott fyrir starfið en þau hætta í Unglingakórnum eftir 10. bekk. Krossinn er sérsmíðaður og er eftirmynd altaristöflunnar í Selfosskirkju. Sunnudaginn á eftir verður hefðbundin guðsþjónusta en á hvítasunnudag ætlum við að vera í Hellisskógi með útimessu. Bænastundir sem við erum með þrisvar sinnum í viku byrja aftur 19. maí kl. 9.15.“ 

Sr. Þráinn Haraldsson, Garða- og Saurbæjarprestakalli: „Við ætlum að byrja 17. maí og þá með kyrrðarstundum með nokkuð einföldu sniði. Stundirnar verða í Akraneskirkju og það verður einfaldlega að telja inn og við munum merkja þá bekki sem má sitja í (um það bil annar hver). Hér búum við svo vel að geta sent út hljóð og mynd í safnaðarheimimilið fari fjöldinn yfir 50 manns og munu gestir geta setið þar úti og tekið þátt í stundinni. Við þetta má bæta að Akraneskirkja er opin til íhugunar og kyrrðar fyrir einstaklinga, alla mánudaga kl 17.00-18.00 og þar er prestur tilbúinn til að ræða einslega við fólk sé þess óskað.“ 

Sr. Svavar Alfreð Jónsson, Akureyrarprestakalli: „Við byrjum með opið og almennt helgihald í Akureyrarkirkju þann 17. maí. 50 manns rúmast í kirkjunni með presti, organista, söngfólki og meðhjálpara en auk þess höfum við pláss fyrir allt að fimmtán manns í kapellu kirkjunnar þangað sem helgihaldinu verður streymt. Við gerum ráð fyrir að hafa þennan hátt á 17. og 24. maí en verði frekari tilslakanir á samkomubanni orðnar að veruleika fyrir hvítasunnuna verðum við undir það búin. Fyrstu fermingarnar verða á sjómannadag – en þá gerum við ráð fyrir því að búið verði að rýmka fjöldatakmarkanir umfram 50 – þá fermum við fimm börn sem hvert fær að taka með sér ákveðinn fjölda gesta. Bókaðar hafa verið fermingar í ellefu sunnudagsguðsþjónustum sumarsins en auk þess erum við með sérstakar fermingarguðsþjónustur síðustu helgina í ágúst og þá fyrstu í september.“ 

Sr. Magnús Erlingsson, prófastur, Ísafjarðarprestakalli: „Við vorum að fara úr fimm manna samkomubanni og upp í 20 manns í gær. Við erum svona hálfum mánuði á eftir öðrum hér á norðanverðum Vestfjörðum. Hér á Ísafirði hefur öllum fermingum verið frestað fram í ágúst og september. Við verðum með helgihald utandyra á sjómannadaginn. Það verður minnst látinna sjómanna.“ 

Sr. Jóhanna Gísladóttir, Laugalandsprestakalli: „Enn sem komið er höfum ég og mitt fólk hér í sveit ekki fundið endanlega lausn á því hvernig við eigum að fara að því að standa fyrir helgihaldi á meðan tveggja metra reglan er enn við lýði. Við mældum rýmið í Grundarkirkju, sem er stærst að þeim sex kirkjum sem ég þjóna í hér í sveit, og fundum það út að 20 kirkjugestir komast þar fyrir, kannski 26-28 ef einhverjir fjölskyldumeðlimir sitja saman. - Upp hefur komið sú hugmynd að messa utandyra í sumar og þá með stuttum fyrirvara svo veður leyfi, þannig gæti hluti kórsins tekið þátt en ekkert hefur endalega verið ákveðið í þeim efnum nema að gera tilraun með eina útimessu fyrstu vikuna í júní. Önnur hugmynd var að færa helgihald prestakallsins inn í Akureyrarkirkju þar til tveggja metra reglan verður afturkölluð, þar sem plássið er meira og kórinn okkar gæti tekið fullan þátt. Þriðja hugmyndin var að vera með stuttar bæna- og kyrrðarstundir í kirkjum sveitarinnar þar til banninu lýkur en leggja niður guðsþjónstur. Það kemur vel til greina að mínu mati næstu mánuðina en verður erfiðara ef bannið dregst á langinn. Þá er ég að horfa til allra heilagra messu og aðventukvöldsins þar sem kirkjugestir hafa hingað til fyllt kirkjurnar í sveitinni. En eitt skref í einu. Fermingarbörnin tuttugu fermast í fimm athöfnum í lok ágúst og annað skipulag gengur vonandi upp í góðu samstarfi við sóknarbörn.“ 

Sr. Jarþrúður Árnadóttir, Langanes- og Skinnastaðaprestakalli: „Ein stúlka verður fermd 24. maí og tveir drengir 31. maí. Tveggja metra regla verður að sjálfsögðu virt og fjöldatakmörkun, fimmtíu manns. Annað helgihald hefur ekki verið ákveðið að svo stöddu. Svo verðum við sr. Þuríður Wiium Árnadóttir á Vopnafirði með sameiginlega rafræna helgistund á uppstigningardag.“ 

Sr. Sveinn Valgeirsson, Dómkirkjuprestakalli: „Starfið fer að miklu leyti í sama horf og var fyrir samkomubann nema þær samverustundir þar sem ljóst er að erfitt verður að fylgja tveggja metra reglunni verða ekki. Sunnudaginn 17. maí verður guðþjónusta kl. 11.00 en engin altarisganga og um kvöldið verður æðruleysismessa. Bænastundir á þriðjudögum í hádeginu verða, eins örpílagrímagöngur á miðvikudögum kl. 18.00, tíðasöngur á fimmtudögum kl. 18.00. Sunnudagaguðsþjónustur verða hafðar um hönd en engin altarisganga. Starf eldri borgara, svokallað „Opið hús“, mun liggja niðri. Þá verður fermt á hvítasunnu en altarisgangan látin bíða. Nú, kóræfingar verða með takmörkunum, Kári Þormar, organisti, mun æfa bara eina rödd í einu og dreifir söngkröftum um kirkjuna. Hefðbundnar hátíðarmessur á sjómannadag og 17. júní verða en þó með fjöldatakmörkunum og tveggja metra reglunni.“ 

Sr. Bryndís Svavarsdóttir, Patreksfjarðarprestakalli: „Samkvæmt messuplani á að vera guðsþjónusta hjá mér 17. maí í Tálknafjarðarkirkju og ferming 31.maí (eitt barn) á Bíldudal. Farið verður að sjálfsögðu eftir öllum tilmælum um fjarlægð og fjölda fólks. Þá er ráðningartíma mínum lokið og ég fer heim í Hafnarfjörð.“ 

Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur, Egilsstaðaprestakalli: „Í Egilsstaðaprestakalli bíðum við spennt eftir að byrja með opið helgihald í kirkjunum okkar aftur og við erum nýbúin að funda og ræða með hvaða hætti við gerum það. Næstu tvær helgar verður streymt frá helgistundunum á netinu. Fyrsta guðsþjónustan verður í Egilsstaðakirkju á uppstigningardag, 21. maí. Við höldum ekki að það reyni á fjöldatakmörkin í þeirri messu en ætlum samt að telja inn og vera viðbúin ef til þess kemur. 24. maí verður göngumessa í Vallanesi sem endar með helgistund í kirkjunni og á hvítasunnu er göngumessa á Seyðisfirði í samstarfi við gönguklúbb Seyðisfjarðar og Heilsueflandi samfélag þann dag er einnig hátíðarguðsþjónusta í Egilsstaðakirkju kl. 14.00. - Okkur finnst erfitt að skipuleggja helgihaldið núna með þessum takmörkunum og getum ekki hugsað okkur að þurfa að vísa fólki frá. Við skipuleggjum ekki langt fram í tímann nema fermingarnar. Við höfum fest dagsetningar fyrir sumarmessurnar en ætlum að skoða með hvaða hætti þær verða þegar nær dregur. Þau í Austfjarðarprestakalli eru að skoða framhaldið hjá sér líka. Við erum öll spennt að byrja en margt mun verða öðruvísi en áður var. Við eigum auðvitað eftir að finna lausnir en í augnablikinu erum við að þreifa okkur áfram og finna það sem hentar fyrir hverja kirkju/sókn fyrir sig. Og öll erum við lausnarmiðuð.“ 

Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, Garðaprestakalli: „Við verðum með guðsþjónustu kl.11.00 í Vídalínskirkju 17. maí og sunnudagaskóla en hann verður hafður sér í safnaðarheimilinu og almenna guðsþjónustu i kirkjunni að vanda. Messukaffi verður á tveimur stöðum. Fyrir utan kirkjuna og líka fyrir utan safnaðarheimilið ef veður leyfir og það er hugmynd að setja þar upp hoppukastala svo börnin geri hoppað og skoppað með Svala í hönd svo foreldrar eða ömmur og afar geti sötrað kaffi í tveggja metra fjarlægð. Við verðum ekki með altarisgöngu heldur litríkt bænalíf en við höfum lagt mikla rækt við það á þessum vikum með fyrirbænum og klukknahringingum klukkan tólf á hádegi í Garðakirkju og Vídalínskirkju og einnig Bessastaðakirkju í tvo mánuði. Enda vildum við leggja okkar af mörkum að biðja veiruna í burtu. Streymi og myndbandsupptökur komu inn í kirkjustarfið með öflugum hætti. Segja má að aldrei hafi orðið messufall þó að söfnuðurinn mætti ekki til að setjast í kirkjubekkina. Þrettán helgistundir voru teknar upp til að senda út og meðal annars sunnudagaskólinn í þrígang í samstarfi við Biskupsstofu. Nú hefjum við barna- og unglingastarfið og stendur það út allan maí. Við erum búin að fylla heilt sumarnámskeið í júní fyrir sex til tólf ára börn. Þá má nefna skemmtilegt verkefni Garðabæjar og Hafnarfjarðar sem heitir Sumarkirkjan á Garðaholti og messukaffi í hlöðunni við bæinn Krók og helgihald í Garðakirkju með ýmsum uppákomum á Holtinu. Í heimsfaraldrinum höfðum við Vídalínskirkju alltaf opna alla daga milli kl. 10.00-14.00, þar sem hægt var að setjast inn og kveikja á bæna kerti.“ 

Sr. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir, Hofsprestakalli: „Við látum veðrið ráða för hér í Hofsprestakalli og munum hafa helgistundir úti þegar viðrar og eins í gegnum streymi eða upptökur eins og við höfum verið að gera. Á uppstigningardag verður upptaka frá sameiginlegri messu Hofsprestakalls og Langanesprestakalls. Sjómannadagsmessan verður úti eins og oft hefur verið og í sumar stefnum við á veiðimessur við árnar okkar í góðu veðri. Tveggja metra reglan gerir okkur erfitt fyrir í minni kirkjum og þess vegna verður lítið sem ekkert messað inni fyrr en í haust.“ 

Sr. Skúli Sigurður Ólafsson, Nesprestakalli: „Við verðum auglýstar messur frá og með 17. maí. Hluti kórfélaga drefir sér um kirkjuskip og kaffi verður á boðstólnum á eftir. Við gætum þess að fjöldinn fari ekki upp fyrir 50.“ 

Sr. María Guðrúnardóttir Ágústsdóttir, Fossvogsprestakalli: „Við höldum guðsþjónustur frá og með 17. maí kl. 11.00 í Grensáskirkju án altarisgöngu og með tilliti til 2ja metra reglunnar. Í Bústaðakirkju verða fjölskylduguðsþjónustur kl. 11.00 sunnudagana 17. og 24. maí og hátíðarguðsþjónusta á hvítasunnudag. Síðan færast guðsþjónustur í Bústaðakirkju til kl. 20.00 í sumar en verða í Grensáskirkju kl. 11.00. Kyrrðarstundir í hádegi á þriðjudegi og núvitundarstundir í hádegi á fimmtudegi verða út maí í Grensáskirkju og þeim verður líka streymt á Facebók.“ 

Sr. Gunnar Stígur Reynisson, Bjarnarnesprestakallii: „Við stefnum að því að vera með helgihald í einhverri mynd, hvort sem það yrði sent út beint eða tekið upp og sent út seinna. Við höfum fundið fyrir áhuga áhuga á sunnudagaskólanum og það væri óskandi að geta farið af stað með hann mjög fljótlega.“ 

Sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir, Langholtsprestakalli: „Hefðbundið helgihald hefst 17. maí þó með þeim fyrirvörum sem almannavarnir hafa gefið leiðbeiningar um. Við búum einnig svo vel hér í Langholtskirkju að geta hólfað kirkjuna niður í tvö svæði svo kirkjugestir geta gengið inn um ólíka innganga sem hafa hvor um sig sér salernisaðstöðu. Samtals getum við því haft 100 manns viðstadda athafnir og helgihald. Fyrst verður aðeins opið inn í safnaðarheimili og þaðan vísað til sætis í kirkjuskipi og vísað á salernisaðstöðu í safnaðarheimili. Þegar og ef tölunni 50 er náð að þjónum meðtöldum er inngangi safnaðarheimilisins lokað og vísað á kirkjuinngang og þaðan til sætis á efri hæð kirkjunnar og salernisaðstöðu í anddyri kirkjunnar. Um hefðbundnar messur er að ræða en þó verður eitt barn fermt í messunni 31. maí og svo annað 7. júní. Ekki verður altarisganga við messurnar en við höfum lagað formið að því með annars konar þátttöku og virkni. Sem dæmi þá munu viðstödd geta með vel sprittaðar hendur ritað framtíðaróskir til fermingarbarnanna sem hengd verða á greinar sem börnin taka með sér heim. Í hefðbundinni messu tendrar fólk svo ljós fyrir friði í heimi og hjarta í stað friðarkveðju. Fleira mætti telja svo sem að í stað altarisgöngunnar verður með orðum minnt á samfélag máltíðanna sem við deilum í öllu samfélagi fólks og þeirrar samábyrgðar sem við erum send með út í lífið á ný.“

hsh

 


 • Barnastarf

 • Frétt

 • Kærleiksþjónusta

 • Öldrunarþjónusta

 • Prestar og djáknar

 • Safnaðarstarf

 • Sálgæsla

 • Samfélag

 • Samstarf

 • Skipulag

 • Tónlist

 • Trúin

 • Æskulýðsmál

Lágafellskirkja - á morgun verða þar þrjár fermingarguðsþjónustur
30
maí

Helgihald tekur kipp

Allt er að koma til baka
Biskupsstofa 1807-1823 - hér bjó sr. Geir Vídalín, biskup hinn góði
30
maí
Gunnuhver á Reykjanesi - þar er margt að skoða
29
maí

Sumarfrí er ekki sjálfgefið

Hjálparhönd til efnalítilla