Hjól kirkjunnar snúast

16. maí 2020

Hjól kirkjunnar snúast

Laugardælakirkja - loftskreyting eftir Jón og Grétu Björnsson

Á morgun verða guðsþjónustur mjög víða með nokkuð hefðbundnu sniði. Þau mega ekki vera fleiri en fimmtíu sem sækja hverja kirkju fyrir sig og tveggja metra nálægðarreglan skal virt. Ekki verður heimilt að taka fólk til altaris. Fróðlegt verður að sjá og heyra hvernig einstaka söfnuðir munu leysa málið, til dæmis með niðurskipan í kirkjubekki og fjarlægðarmerkingar, og fleira í þeim dúr. Handsprittið góða verður sem fyrr til reiðu.

Og allir geta nú sem aldrei svo sannarlega tekið undir orðin: 

Ég varð glaður er menn sögðu við mig:
„Göngum í hús Drottins.“
        (Sálmur 122.1)

Auglýsingar um guðsþjónustur má lesa í Morgunblaðinu og er það nokkuð gott yfirlit enda þótt ekki auglýsi allir söfnuðir þar. En að sjálfsögðu nota fjölmargir Facebókarsíður og heimasíður kirknanna til að koma auglýsingum til safnaða sinna.

Enda þótt streymiskirkjan hafi verið virk meðan kirkjur voru lokaðar þá kemur hún ekki í stað kirkjunnar sem stendur á fögrum stað í sveitinni, inni í þorpi, bæ eða borg. Það er kirkjuhúsið sjálft með öllum búnaði sínum, sögu sinni og fólksins, sem er hjarta kristnihaldsins. Sál fólksins og kirkjunnar. Lifandi fólk - lifandi kirkja.

Kirkjan.is vekur sérstaka athygli á plokkmessu eða umhverfismessu í Bessastaðasókn. Þar ætlar sóknarfólk að taka til hendinni og að loknu verki setjast út undir kirkjuvegg og fá sér kaffisopa og kleinu. Þar verður eflaust margt spaklegt orðið látið falla – eða eins og skáldið og spekingurinn á Bessastöðum, Grímur Thomsen, kvað eitt sinn í spaklegri kerskni: „Í maganum flestra sálir búa“.

Þetta er tími plokksins. Í sumarbyrjun sést mjög víða að ekki er vanþörf á að tína upp vetrarfok mannfólksins svo umhverfið og náttúran, Guðs góða sköpun, fái að njóta sín enn betur.

Kirkjan.is fagnar þessum tímamótum og hvetur fólk til að sækja kirkju sína.

hsh

Messuauglýsingin í Morgunblaðinu er alltaf sett upp með
smekklegum hætti og mynd af kirkju fyrir ofan.
(Morgunblaðið 16. maí 2020.)


  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Sóknarnefndir

  • Trúin

  • Frétt

Frá Presta- og djáknastefnunni 2023 í Grensáskirkju

Presta- og djáknastefnan 2024 sett á morgun

15. apr. 2024
...í Stykkishólmi
Sr. Sigríður Gunnarsdóttir

Sr. Sigríður skipuð prófastur

15. apr. 2024
...í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi
LWF logo.jpg - mynd

Verkefnastjóri á sviði helgihalds

12. apr. 2024
…hjá Lútherska Heimssambandinu