Á grænni leið í Bessastaðasókn

6. júní 2020

Á grænni leið í Bessastaðasókn

Grænt umhverfi Bessastaðakirkju fagnar öllum gestum

Alltaf bætast söfnuðir við sem eru á grænni leið. Sá nýjasti er Bessastaðasöfnuður og fékk hann vottorð um það afhent nú á dögunum. Af því tilefni spurði kirkjan.is, sr. Hans Guðberg Alfreðsson, ögn út í málið.

Sr. Hans Guðberg sagði að það væri sterk umhverfisvitund í söfnuðinum. Skólinn og leikskólarnir væru vel vakandi, sömuleiðis skátarnir, ungmennafélagið og önnur félög í sókninni. Auk þess bæjarfélagið. Allt þetta í nærumhverfinu hefði sín jákvæðu áhrif og söfnuðurinn áhugasamur um að taka þátt í öllu því sem snerti umhverfismálin.

„Við stefnum að því að ná markmiðinu innan hálfs árs og verða þá grænn söfnuður,“ sagði sr. Hans Guðberg og bætti við að ekki vantaði ýkja margt upp á, flokkunin væri í góðu lagi, einnig innkaup ýmis konar, svo sem á hreinsiefnum. Þá væri umhverfisfræðslan í góðu horfi.

Um daginn var plokkmessa hjá þeim og hún gekk ljómandi vel. Þá fór söfnuðurinn um næsta nágrenni Bessastaðakirkju og tíndi upp plast og annað drasl sem fokið hefur í vetur. Plokkmessa er einu sinni á ári hjá þeim.

Umhverfið og pílagrímurinn Annað sem tengist umhverfismálum eru pílagrímamessur sem eru einu sinni á ári. Pílagrímurinn er á göngu úti í náttúrunni, Guðs góðu sköpun, og iðkar þá trú sína að hætti pílagrímsins, þannig tengjast umhverfismál og trúariðkun. Á vorin eru svo pílagrímanámskeið þar sem farið er yfir margt sem snýr að pílagrímum og þeirri trúarhugsun sem býr þar að baki.

Svona í lokin spurðist kirkjan.is út í hvort vitað væri um rafmagnsbílaeign fólks í söfnuðinum.

„Já, margir eiga rafmagnsbíla hér,“ sagði sr. Hans Guðberg, „til dæmis ekur djákninn um á rafknúnum bíl.“ Hann bætti því við að formaður sóknarnefndar æki um á hybrid-bíl.

„Nú svo á ég rafmagnshjól og venjulegt hjól,“ sagði sr. Hans Guðberg í lokin með stoltri röddu og bætti því lágróma við að varla væri þorandi að nefna það að hann æki um á „hráolíudalli“ eins og hann orðaði það.

En hvað um það. Olían er á útleið.

Söfnuðurinn er á grænni leið eins og presturinn þegar hann situr á sínu rafmagnshjóli eða stígur hjólið með gamla laginu. Það er fagnaðarefni og verður vonandi öðrum söfnuðum hvatning til hins sama.

Á grænni leið

Árbæjarsöfnuður 
Bessastaðasöfnuður
Biskupsstofa
Breiðholtssöfnuður
Garðasókn (Vídalínskirkja)
Grafarvogssöfnuður
Hallgrímssöfnuður
Háteigssöfnuður
Kársnessöfnuður (Kópavogskirkja)
Keflavíkursöfnuður
Langholtssöfnuður
Lágafellssöfnuður
Nessöfnuður
Selfosssöfnuður

Grænn söfnuður

Árbæjarsöfnuður
Grafarvogssöfnuður.

Umhverfisstefna

Græn kirkja

hsh


Afhending skjals um að Bessastaðasókn sé komin á græna leið.
Frá vinstri: Elín Jóhannsdóttir, Auður S. Arndal, Sæbjörg Einarsdóttir, 
Margrét Gunnarsdóttir, sr. Halldór Reynisson, frá umhverfisnefnd þjóðkirkjunnar,
og sr. Hans Guðberg Alfreðsson



Duglegir plokkarar á Álftanesi


Pílagrímar ganga til Bessastaðakirkju
  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Fræðsla

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut