Kvennakirkjan á Klambratúni

20. júní 2020

Kvennakirkjan á Klambratúni

Sr. Auður Eir prédikar á Klambratúni - hjá Kvennakirkjunni

Sunnan megin við Kjarvalsstaði á Klambratúni er prýðileg aðstaða til samkomuhalds þegar veður leyfir. Fimm upphækkandi og langir setbekkir með steyptri brún mynda gott rétthyrnt horn og eru klæddir grasi - koma  í stað bólstraðra bekkja.

Þarna safnaðist saman í gærkvöldi góður hópur kvenna undir merki Kvennakirkjunnar enda þær vanar að koma saman á kvenréttindadeginum, 19. júní.

Kórónuveirufaraldurinn - eða kófið eins og sumir segja - dró úr starfsemi Kvennakirkjunnar eins og úr öðru kirkjulegu starfi - en nú komu kvennakirkjukonurnar semsé saman á ný eftir nokkurt hlé. Það voru fagnaðarfundir.

Kirkjan.is var á staðnum eins og vera ber. 

Guðsþjónustan hófst á lúðrablæstri. Ásdís Þórðardóttir þeytti lúðurinn af miklum krafti: Áfram stelpur...

Síðan tók til máls Guðrún Þórðardóttir, fulltrúi frá Kvenfélagasambandi Íslands, og að ávarpi hennar loknu las Ellen Calmon, fulltrúi frá Kvenréttindafélagi Íslands, ritningarlestur.

Elísabet Þorgeirsdóttir leiddi söfnuðinn í bæn.

Sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir, flutti ávarp og leiddi hópinn í trúarjátningu. Anna Sigríður Helgadóttir söng einsöng. Aðalheiður Þorsteinsdóttir lék á harmonikku.

Sr. Arndís G. Bernhardsdóttir Linn, flutti í lokin kveðjuorð og blessun.

Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir prédikaði – og var prédikun hennar í tvennu lagi.

Snjöll ræðukona Sr. Auður Eir nær vel til þessa hóps. Það þarf ekki að velkjast lengi í vafa um það þegar hún tekur til máls. Augu og eyru kvennanna opnast og þær horfa á hana fullar aðdáunar. Það er engin furða. Sr. Auður Eir er snjöll ræðukona, segir sögur og varpar upp myndum sem konurnar skilja og geta lesið inn í sjálfar sig og tengt við líf sitt. Hún flytur líka mál sitt af snerpu og glaðværð, mýkt og umhyggju – yfir nettu höfði hennar svífur eitthvað sem er ættskylt karisma. Áheyrendur fyllast ósjálfrátt einlægri bjartsýni og vellíðan. Hún talar með einhverjum hætti beint inn í hjörtu þeirra. Það er ekki öllum gefið.

Þess vegna má segja að sr. Auður Eir sé táknmynd Kvennakirkjunnar – enda hún frumkvöðull hennar.

Klambratún - mannlífstún Það var annars athyglisverð mannlífsstund þarna sunnanmegin við safn Kjarvals í gærkvöldi. Kvennakirkjukonur voru ekki þær einu sem komu saman þarna á túninu. Skammt frá var hressilegt fólk. Ungir menn tókust á í glaðværum slagsmálum meðan ungar konur sátu á köflóttu teppi í hnapp og ræddu málin alvörufullar á svip. Annað veifið gengu þar hjá hundaeigendur sem viðruðu hunda sína, smáa sem stóra. Þá voru býsna margir á hraðri för ýmist einir eða tveir saman með bjórkippur í hönd sennilega á leið í spennandi samkvæmi og dularfull næturævintýri og skáskutu augum á þessar konur og eflaust hafa augu þeirra dregist skjótt að hinni hempuklæddu konu, sr. Auði Eir, og sr. Huldu Hrönn sem var í enskum prestaklæðum. Sennilega ekki oft sem slík svört embættisklæði sjást þar í grænu túni. Og úr lundinum þar sem Einar Ben stóð forðum íklæddur eir með skáldahörpuna bak sér áður en hann var fluttur að Höfða þar sem hann snýr baki við uppáhaldsyrkisefni sínu, sænum – þið munið Útsæ, reis grillmökkur með þeim sérstaka ilmi sem honum fylgir og maður veit ekki hvort hamborgarinn er mátulegur eða hálfhrár – og hlátrasköll of margra dósabjóra. Þar flugu og skrautlegir frisby-diskar um loftið en túnið er mjög sótt af þeim sem stunda þá spræku iðju og hafa augljóslega mjög gaman af. Þarna virtist mannlífið vera í miklu jafnvægi lífs og leika og ekkert raskaði því – ekki einu sinni ungur maður sem sprændi inn í runna. Þetta var mannlífstorg og í miðju þess höfðu konur þar um hönd guðsþjónustu. Kannski var þetta það sem Lúther sagði eitt sinn um að væri æskilegt að hafa í huga við prédikun: Gott im Dorf. Eða var kannski bara shalom? Þegar líf og sál, maður og samfélag, slær jafnan sælutakt á fleygiferð líðandi stundar. Sumir kalla það hamingju.

Kannski var þetta sýnishorn af hamingjunni. Guð nærstaddur á Klambratúninu, og hið himneska jafnvægi. Þær voru að minnsta kosti glaðar og hamingjusamar, Kvennakirkjukonurnar, að lokinni guðsþjónustu. Annað var ekki að sjá. Er nokkuð betra?

Hvað er Kvennakirkja? Kvennakirkjan er sjálfstæður hópur sem starfar í íslensku þjóðkirkjunni og byggir starf sitt á kvennaguðfræði. Hún var stofnuð 14. febrúar 1993. Frumkvöðull hennar er sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir. Prestar kvennakirkjunnar eru sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir, í fullu starfi, sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir og sr. Arndís G. Bernhardsdóttir Linn. Elísabet Þorgeirsdóttir er upplýsingafulltrúi Kvennakirkjunnar og Aðalheiður Þorsteinsdóttir er söngstjóri kirkjunnar. Aðsetur Kvennakirkjunnar er í Þingholtsstræti 17, Reykjavík.

Starfsemi Kvennakirkjunnar er um margt athyglisverð.

Hér má lesa tvær ritgerðir þar sem kvennakirkjan kemur við sögu. Sú fyrri er eftir Ragnhildi Ásgeirsdóttur frá 2012 og er lokaverkefni til meistaraprófs í menntunarfræðum og heitir: Hver er mestur? Rannsókn á þjónandi forystu innan kvennakirkjunnar?

Hér má lesa ritgerð Ragnhildar.

Hin er eftir eftir Ernu Kristínu Stefánsdóttur og heitir: ,,Ef Guð er karlmaður, þá er karlmaðurinn Guð" Áhrif þess að kyngera orðið Guð sem karl. Þetta er lokaverkefni til embættisprófs í guðfræði og hún er frá 2018.

Hér má sjá ritgerð Ernu Kristínar.

Heimasíða Kvennakirkjunnar.

hsh


Sr. Hulda Hrönn og sr. Auður Eir - og hluti af hópnum


Anna Sigríður söng með glæsibrag að vanda - Aðalheiður á nikkunni


Elísabet Þorgeirsdóttir leiddi Kvennakirkjukonur í bæn


Prestar Kvennakirkjunnar, sr. Hulda Hrönn, sr. Arndís, og sr. Auður Eir


Höfuðstöðvar Kvennakirkjunnar eru í Þingholtsstræti 17 í Reykjavík


  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut