Keltnesk útiguðsþjónusta á Esjubergi

28. júní 2020

Keltnesk útiguðsþjónusta á Esjubergi

Hrefna Sigríður flutti ávarp í upphafi, sr. Arna og sr. Arndís

Undanfarin ár hefur helgihald verið á Esjubergi á Kjalarnesi og oft í tengslum við Kjalarnesdaga í júnímánuði ár hvert.

Vegna kórónuveirufaraldursins voru Kjalarnesdagar blásnir af. En ákveðið var þó að hvika ekki frá helgihaldinu og var því haldin í morgun keltnesk útiguðsþjónusta á Esjubergi í hlýju og góðu veðri.

Að lokinni guðsþjónustu bauð Sögufélagið Steini upp á kaffi, ávaxtasafa og kleinur.

Fjöldi fólks sótti guðsþjónusta og naut útivistarinnar á hinum fagra stað þar sem útialtarið er.

Í þetta sinn var guðsþjónustan á vegum Sögufélagsins Steina, Reynivalla- og Lágafellsprestakalla sem eru á samstarfssvæði. Prestarnir sr. Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur, og sr. Arndís Bernhardsdóttir Linn, frá Lágafellssókn, þjónuðu fyrir altari. Kirkjukór Reynivallaprestakalls söng en honum stýrir Guðmundur Ómar Óskarsson, organisti. Ritningarlestrar voru í höndum Hrefnu Sigríðar Bjartmarsdóttur, formanns Sögufélagsins Steina og Bjarna Sighvatssonar, varaformanns félagsins. Einnig las sr. Gunnþór Þ. Ingason.

Það eru um fimm ár liðin frá því að hafin var vinna við útialtarið. Fjölmargir hafa lagt málinu lið. Stefnt er að því að vígsla altarisins fari fram í haust en þá verður kominn upp tveggja metra keltneskur kross sem rís upp úr altarinu.

Útialtarið við Esjuberg verður mjög líklega eftirsóttur helgistaður. Hann er við sama afleggjara og lagt er upp á Kerhólakamb Esju sem er vinsæl gönguleið.

Esjuberg á Kjalarnesi Sagnir herma að kirkja hafi staðið á Esjubergi á Kjalarnesi fyrir kristnitöku, um árið 900. Í Landnámu (Sturlubók) segir að Örlygur Hrappson hafi fengið frá Patreki Suðureyjarbiskupi „kirkjuvið ok járnklukku ok plenárium ok mold vígða“ til að nota í kirkju sem reisa skyldi þar hann næmi land og eigna hinum helga Kolumba. Örlygur reisti kirkju á Esjubergi á Kjalarnesi. Þá er og getið um kirkju á Esjubergi í Kjalnesingasögu frá 13. öld. „Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera. Gaf þá engi maður gaum að henni.“ Í kirknaskrá Páls Jónssonar, biskups, frá 1200, er getið kirkju á Esjubergi: „Kirkja at Esjubergi.“

 

hsh


Bjarni Sighvatsson, varaformaður Sögufélagsins Steina, las ritningarlestur


Vel auglýst við þjóðveg nr. 1, Vesturlandsveg


  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra