Nýr prestur á Húsavík

12. september 2020

Nýr prestur á Húsavík

Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir - í Húsavíkurkirkju

Umsóknarfrestur um starf sóknarpresti til þjónustu í Húsavíkurprestakalli, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, rann út á miðnætti þann 6. júlí sl.

Auglýst var eftir sóknarpresti til þjónustu við prestakallið og miðað við að viðkomandi gæti hafið störf sem fyrst.

Þrjár sóttu um starfið.

Kjörnefnd kaus sr. Sólveigu Höllu Kristjánsdóttur til starfans og hefur biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, staðfest ráðningu hennar.

Í samræmi við þær breytingar sem nú hafa orðið á starfsmannamálum þjóðkirkjunnar er sr. Sólveig Halla ráðin ótímabundið í starfið með hefðbundnum uppsagnarfresti.

Prestakallið 
Í Húsavíkurprestakalli er ein sókn, Húsavíkursókn, sem nær yfir Húsavík, ásamt Tjörnesi og hluta af Reykjahverfi. Í prestakallinu er ein kirkja, Húsavíkurkirkja. Sóknarprestur hefur skrifstofuaðstöðu í Bjarnahúsi, safnaðarheimili kirkjunnar. Prestsetur fylgir ekki prestakallinu. Sóknarprestur annast helgistundir og messur á dvalarheimilinu Hvammi.

Húsavíkurprestakall var auglýst með fyrirvara um að áskilinn væri réttur til að skilgreina viðbótarskyldur við prófastsdæmið og önnur prestaköll innan þess, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og aðra kirkjulega aðila. Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall án fækkunar presta. Prestakallið var sömuleiðis auglýst með þeim fyrirvara að vera mætti að biskupafundur legði tillögur fyrir kirkjuþing er snertu m.a. Húsavíkurprestakall og sem kynnu að leiða til breytinga á skipan prestakalla í prófastsdæminu, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Presturinn
Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir er fædd 14. desember 1977 og ólst upp í Lönguhlíð í Hörgárdal, dóttir Kristjáns Hermannssonar og Jórunnar Sigtryggsdóttur sem er látin. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1997 og mag.theol. prófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands 2004.

Sr. Sólveig Halla hóf störf hjá Akureyrarkirkju sumarið 2004 og sinnti þar æskulýðsmálum. Hún var svo vígð sem safnaðar- og skólaprestur við Akureyrarkirkju hinn 18. september 2005 og sagði því starfi svo lausu fimm árum síðar. Þá flutti hún ásamt eiginmanni sínum, Sigurði Páli Tryggvasyni, og nýfæddri dóttur, að Þverá í Reykjahverfi Þingeyjarsýslu þar sem þau hófu fjárbúskap.

Sr. Sólveig Halla sinnti kirkjulegu barnastarfi í Húsavíkur- og Grenjaðarstaðarsókn á árunum 2010-2017, með hléum og hafði um hönd kirkjulegar athafnir sem óskað var eftir og vann jafnframt við sálgæslu.

Hún lauk diplómaprófi á meistarastigi í Fjölskyldumeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands vorið 2016 og vann við fjölskyldumeðferð til haust 2017.

Þá lá leiðin til Noregs og var hún sóknarprestur í Sømna í Noregi frá desember 2017 og fram í ágúst 2018.

Hún var settur sóknarprestur við afleysingar í eitt ár í Laufásprestakalli 2018-2019. Þá settur sóknarprestur í Húsavíkurprestakalli við afleysingar frá 1. september 2019.

Eiginmaður hennar er sem fyrr segir Sigurður Páll Tryggvason og eiga þau tvö börn tíu og átta ára gömul og að auki á hún þrjú uppkomin stjúpbörn

hsh  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Sóknarnefndir

  • Starf

  • Biskup

Græna stúdíóið - frá vinstri: Bjarni Gíslason, Einar Karl Haraldsson, dr. Sigurður Árni Þórðarson, og sr. Elínborg Sturludóttir

Græna stúdíóið og vatnið

29. sep. 2020
...vatn er lífsréttur
Fjölskylduþjónusta kirkjunnar er til húsa í Háteigskirkju í Reykjavík

Forstöðustarf laust

29. sep. 2020
Fjölskylduþjónusta kirkjunnar - 11. október
Hausthátíð Breiðholtskirkju, frá vinstri: Steinunn Þorbergsdóttir, djákni, Steinunn Leifsdóttir, sóknarnefndarkona, og sr. Magnús Björn Björnsson

Hausthátíð í Breiðholti tókst vel

28. sep. 2020
...sígilt barnastarf