Öflugur liðsauki og ný heimasíða

9. október 2020

Öflugur liðsauki og ný heimasíða

Rebekka Ingibjartsdóttir, æskulýðsfulltrúi og Pálína Ósk Hraundal, menningarfulltrúi - góður liðsauki og öflugur!

Íslenski söfnuðurinn í Noregi situr ekki auðum höndum þótt heimsfaraldurinn sníði viðburðum og samkomum þröngan stakk þessa dagana. Söfnuðinum barst liðsauki nú í haust en þá voru menningarfulltrúi og æskulýðsfulltrúi ráðnir í hlutastöður.

Sr. Inga Harðardóttir, prestur safnaðarins, segir að starf safnaðarins hafi vaxið síðasta árið og ljóst varð að fleiri hendur þyrfti til að vinna að uppbyggingu safnaðarins. Það hafi því verið mikil ánægja að fá þær Rebekku Ingibjartsdóttur, æskulýðsfulltrúa, og Pálínu Ósk Hraundal, menningarfulltrúa, í starfsmannahópinn en þær ásamt henni, og Berglindi Gunnarsdóttir, skrifstofustjóra, sem og stjórn safnaðarins, vinni að því að byggja upp þjónustu og starf fyrir Íslendinga víðs vegar í Noregi.

„Auk þess fagnar söfnuðurinn því að loksins lítur nýja heimasíðan ljós,“ segir sr. Inga glöð í bragði.

Heimasíðan hefur að sögn sr. Ingu verið í vinnslu síðasta árið en erfitt var að finna tíma til að einbeita sér fyllilega að verkefninu vegna anna í safnaðaruppbyggingu.
„Það var svo ekki fyrr en skellt var í lás í heimsfaraldrinum í vor að starfskraftarnir voru nýttir í að uppfæra útlit og efni síðunnar, yfirfara eldri texta og skrifa nýtt efni þar sem þess var þörf“, segir sr. Inga. Nokkur tæknileg úrlausnarefni urðu svo til þess að það dróst fram á haust að fullklára síðuna en það jók gleðina enn meira við að lýsa því formlega yfir að ný heimasíða væri komin í loftið!

Á kirkjan.no má finna fréttir úr lífi safnaðarins, hagnýtar upplýsingar um athafnir og þjónustu, og yfirlit yfir komandi viðburði. Það ætti því að vera spennandi að fylgjast með viðburðaskráningunum þessa dagana þar sem stöðugt þarf að endurskoða hvaða viðburði er öruggt að bjóða upp á og hverju þarf að fresta til betri tíma.

Sr. Inga segir að starfsmannateymið vinni í sameiningu að því að taka ákvarðanir, leysa úr vandamálum, og finna skapandi leiðir til að takast á við ástandið. Hvaða leikir eru „kóvidvænir“ í unglingastarfi, er hægt að hafa handavinnukvöldið á „zoom“, og fermingarfræðsluna á netinu? En geta jólamessurnar verið úti? Þessu og mörgu öðru mun tíminn einn geta svarað – og heimasíðan kirkjan.no.

Ih/hsh


  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Covid-19

Þótt kirkjubekkir séu auðir um stund fylgist fjöldi fólks með helgihaldi gegnum streymiskirkjuna á netinu og nýtur þess

Streymiskirkja í vetrarbyrjun

26. okt. 2020
Sjáið bara!
Ekið um Dýrafjarðargöng og þau blessuð (skjáskot)

Frumleg og einstök blessun

26. okt. 2020
Dýrafjarðargöng opnuð
Hallgrímskirkja í Reykjavík

Áttatíu ára gömul sókn

25. okt. 2020
...fjórar sóknir urðu til 1940