Ný glæsileg vefsíða

11. október 2020

Ný glæsileg vefsíða

Sjöundi dagurinn í Paradís efitr Mugg (Guðmund Thorsteinsson 1891-1924). Mynd unnin 1920, glitpappír og túsk. Eign Listasafn Íslands.

Í nýliðinni viku var kynnt til sögunnar vefsíðan amen.is. Það var dr. Grétar Halldór Gunnarsson, prestur í Grafarvogi, sem leiddi verkefnið og vann hugmyndavinnuna í kringum það.

Kirkjan.is innti dr. Grétar Halldór um málið:

„Ég hafði lengi hugsað að íslenskt efni af þessu tagi vantaði á netið,“ segir hann hress í bragði að morgni sunnudags. „Þannig vildi til að í fyrstu kóvid-bylgjunni þá bað ástvinur mig um leiðbeiningu í bænalífi enda voru aðstæður óvissar í samfélaginu.“ Hann sagðist hafa hugsað málið og áttað sig á því að það þyrfti vera á netinu aðgengileg hljóðrituð handleiðsla í bæn og íhugun – eða einhvers konar leiðsögn – en slíkt efni er býsna algengt á netinu í sambandi við hvers konar hugleiðslu og þá ekki alltaf endilega kristna.

„Fyrir tilviljun frétti ég að svipuð hugmynd hefði borist inn á borð fræðslusviðs Biskupsstofu,“ segir hann og í framhaldinu hafi hann boðist til að vinna þetta efni sem gæti síðar orðið grunnur að efni til að setja á netið. Hann einhenti sér í verkið, sótti um styrk til kirkjuráðs sem brást vel við og styrkti verkefnið. Síðan hafði hann samband við fjölda fólks til að leggja verkefninu lið en hátt í þrjátíu manns komu að því. Sjálfur vann hann að sögn verkefnið í sjálfboðavinnu og af hugsjón. Hálfu ári síðar er vefurinn kominn í loftið.

Þegar dr. Grétar Halldór er spurður út í það hvað sé átt við með því að þetta sé tilraunaverkefni þá svarar hann því til að verði efninu vel tekið og telji fólk að það hafi lukkast vel þá verði mögulega bætt við efni og það lagfært sem þurfi að laga.

Kirkjan.is fór um vefinn og líst afar vel á hvernig að verki er staðið.

Efnið er fallega framsett og sígildur þráður heldur því uppi sem er traustleikamerki.

Bænir barnanna eru glaðlega framsettar og við hæfi þeirra. Eins er þar alvara við barna hæfi. Stutt biblíusaga er sögð með einföldum orðum. Sígildir sunnudagaskólasöngvar fylgja í lok bæna og að þeim loknum Faðir vorið.

Síðan eru bænastundir fluttar í sameiningu af konum og körlum. Tónlist, biblíulestur, hugleiðing og bæn. Allt í „anda kristilegra félagasamtaka,“ eins og þar segir. Fallegt og uppbyggilegt efni.

Biblíuleg íhugun – tónlist – þar er hvatt til að hlusta á orð Guðs, hugleiða texta, huga að eigin viðbrögðum, og hvíla í trausti til Guðs.

Þá er kristileg íhugun sem Sigríður Hrönn Sigurðardóttir, guðfræðingur og hjúkrunarfræðingur, leiðir. Tónlistin er eftir Friðrik Karlsson. Hún leitast við að virkja ímyndunaraflið samtímis sem gengið er inn í frið Guðs og nánd hans. Þetta er gott efni og djúpt.

Boðið er upp á bænagjörð. Klukkur Dómkirkjunnar í Reykjavík klingja í upphafi og í lok bæna. Sú stund byggir á sígildri guðsþjónustuhefð og þar er stuðst við Bænabók sr. Karls Sigurbjörnssonar. Þar skiptast á karlar og konur að lesa; samlestur bæna, söngur og blessanir. Vel flutt efni og afbragðsgott.

Fjöldi fólks kemur að verkefninu sem áður segir og er það skilvíslega rakið þar sem lesa má um síðuna.

Hér er sígildu efni fleytt áfram inn í hraðfleygan nútímann með glæsibrag og svo er að sjá sem engu sé týnt niður á þeirri leið. Það er vel.

Ástæða er til að óska öllum þeim sem tóku þátt í verkefninu sem og kirkjunni til hamingju með þetta efni. Nauðsynlegt er að vekja sem víðast athygli á því. Hægt er að hlusta á efnið í öllum snjalltækjum. 

hsh  • Menning

  • Nýjung

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Trúin

  • Frétt

Þegar barn er skírt er nafn þess gjarnan nefnt upphátt í fyrsta sinn - en skírn er þó ekki nafngjöf - skírnarfontur í Grindavíkurkirkju eftir Ásmund Sveinsson, Guðsteinn Eyjólfsson frá Krosshúsum gaf

Vinsælustu nöfnin 2020

21. jan. 2021
...hvar eru Jón og Guðrún?
Frá Indlandi - kristið fólk er ofsótt þar - skjáskot: Kristeligt Dagblad

Ofsóknir hafa aukist

20. jan. 2021
...kórónuveiran skálkaskjól
Kirkja í Færeyjum - Saksun - vígð 1858

Kórónuveiran í Færeyjum

19. jan. 2021
...rætt við Færeyjabiskup