Streymiskirkja í vetrarbyrjun

26. október 2020

Streymiskirkja í vetrarbyrjun

Þótt kirkjubekkir séu auðir um stund fylgist fjöldi fólks með helgihaldi gegnum streymiskirkjuna á netinu og nýtur þess

Mikið úrval af helgistundum og guðsþjónustum stóð fólki til boða í gær á fyrsta vetrardegi. Augljóst er að fjöldi safnaða hefur brugðist við af mikilli snerpu við gerbreyttum aðstæðum og færir okkur fagnaðarerindið í streymi. Þetta eitt og sér sýnir metnað og kapp kirkjunnar. Hún situr ekki auðum höndum enda þótt reglur  skerði funda- og samkomuhald um þessar mundir.  Streymiskirkjan ávarpar einstaklinginn þar sem hann er staddur í lífi sínu með síma í hönd, Ipad, eða fyrir framan far- eða borðtölvu. Hún mætir honum einmitt á þessum stað í þessum aðstæðum. 

Öll reyna að gera sitt besta og vandvirkni ræður ferð. Fólk er mjög meðvitað um að hafa stundina ekki of langa, streymið er þess eðlis að ekki er hægt að sitja lengi við. Flestar stundir hefjast á tónlist, síðan kemur hugleiðing eða prédikun, svo tónlist, og blessun. Prestarnir eru skýrmæltir og fara að engu óðslega. Einna helst er hljóðið athugavert og það er ætíð góð regla að kanna hljóðgæði á hverjum stað. Stundum er það oft lágt og vægt bergmál getur gleypt orðin. Best er að kalla á tækniliðið til aðstoðar í þessu efni – og alls staðar er að finna ótrúlega snjallt tæknifólk og sér í lagi meðal yngra fólks.

Mörgum þykir gaman að heyra sem fjölbreytilegast efni, tónlist og tal. Sjá og heyra presta hér og þar leggja út af ýmsum textum. Þá fara helgistundirnar ýmist fram við ölturu kirkna, eða úti fyrir kirkjudyrum – eða bara einhverjum fallegum stað. Ekki skortir hugkvæmnina. Streymiskirkjan er einstakt tækifæri til að kynna kirkjuna sem er að störfum vítt og breitt út um landið.

Streymi kirknanna endurspeglar ekki aðeins hið trúarlega hlutverk heldur og hið menningarlega. Í streyminu kemur vel fram samspil trúar og menningar. Fjöldi tónlistarfólks leggur starfinu lið og sýnir hve sterkur bakhjarl kirkjunnar það er. Um það þarf að standa vörð því að listin getur verið mjög öflugur farvegur fyrir trúna. Tónlist og kirkja eru tvær systur og það samrýmdar systur svo að til fyrirmyndar er.

Barna- og fjölskyldustundir eru líflegar og vel í þær borið. 

Eitt er víst að ákveðinn metnaður og frískleiki er yfir streyminu frá kirkjunum og er það vel. Það sýnir líka að mannauður kirknanna er mikill og öflugur. Streymiskirkjan er millibilsástand enda þótt að söfnuðir vilji síðar meira streyma efni frá sér við ákveðnar aðstæður og jafnvel meðfram hefðbundnu safnaðarstarfi.

Streymið er líka áskorun til þeirra sem ekki hafa reynt fyrir sér með það að hefjast handa.

Eflaust meta þau sem standa að þessu helgihaldi hvernig til hefur tekist. Í sumum tilvikum er hægt að sjá hver mörg fylgjast með því og hve lengi. Fólk lætur svo í ljós ánægju sína með því að ýta á hinn margfræga læk-hnapp - eða skrifar eitthvert hrós og þakkar fyrir. 

Hér eru tínd til nokkur dæmi um streymi sem  kirkjan.is varð vör við nú um helgina og þakkar fyrir. Sumir söfnuðir hafa samstarf um gerð stunda sem þessara.

Þau sem sakna að sín sé getið eru vinsamlega beðin um að hafa samband og verður úr því bætt. Enginn má gleymast.

Þessa stundir eru mjög svo fjölbreytilegar og áhugaverðar, gefandi og uppbyggilegar. 

hsh

 

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  • Barnastarf

  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Æskulýðsmál

Frá fundi aukakirkjuþings 2021 - Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings í ræðustól - mynd: hsh

Aukakirkjuþingi 2021 frestað

22. jún. 2021
...fjármálaumræða setti svip sinn á þingið
Biskup Íslands flytur blessun í lok vígslunnar - mynd: hsh

Fjölmenni við vígsluna

22. jún. 2021
...fallegt veður á Esjubergi
Kirkjuþingsfulltrúar á aukakirkjuþinginu - mynd: hsh

Aukakirkjuþing sett

21. jún. 2021
...þinginu lýkur síðdegis í dag