Líf í kirkju

12. desember 2020

Líf í kirkju

Fróði og sr. Bolli Pétur í stuði

Brúðuleikhús er snjöll leið til að ná til barna og fullorðinna. Margar kirkjur nota brúður í barna- og æskulýðsstarfi sínu og það er alltaf vinsælt. Aðalbrúðurnar undanfarin ár hafa verið Rebbi og Mýsla. Það er býsna vinsælt par ef svo má segja.

Kirkjan.is hefur tekið eftir því nú í kórónuveirustandinu að þriðja brúðan er á ferð og flugi. Já, nokkuð lífleg brúða. Það er að sjálfsögðu á Facebook sem hennar hefur orðið vart.

Hver er hún?

Jú, það er Fróði.

Og hver er nú það?

Kirkjan.is komst að því að röddin á bak við Fróða er sr. Bolli Pétur Bollason.

„Já, Fróði var kominn á stjá áður en kórónuveiran skellti nánast öllu í lás,“ segir sr. Bolli Pétur hress í bragði. Hann segir að kirkjuprakkararnir hafi kynnst honum í haust og haft gaman af honum.

„Kirkjuprakkararnir?“ hváir kirkjan.is. „Já, það eru krakkar sem er 6-9 ára og koma hingað úr Álfhólskóla og Kópavogsskóla.“

„Nú, til þess að missa ekki tengslin við krakkana þegar við þurftum að loka þá ákváðum við að gera þætti með honum og senda út,“ segir sr. Bolli Pétur. „Fyrst voru þetta bara örstutt myndbönd og síðan lögðum við meira í þetta. Það eru þær Halla Marie Smith og sr. Helga Kolbeinsdóttir sem leikstýra og klippa þættina.“

„Nú segi maður einhverja vitleysu í ógáti þá er það bara klippt út,“ segir sr. Bolli Pétur hlæjandi.

Síðan er þáttunum smellt inn á Facebook-síður Hjalla- og Digraneskirkju. Áhorf er þó nokkurt.

„Við höfum líka sett þættina inn á Facebook-grúppusíður foreldra fermingarbarna því margir þeirra eru líka foreldrar kirkjuprakkaranna,“ segir sr. Bolli Pétur.

Í öllu starfi brúðuleikhúss skiptir miklu máli samræmi milli raddar og hreyfinga brúðanna. Það er eftirtektarvert hve Fróði er lífleg persóna og hreyfingar í taktvissar.

„Ég leik Fróða svo að segja af fingrum fram,“ segir sr. Bolli Pétur, „tala upp úr mér allt sem hann segir.“

Fróði er nokkurs konar útgáfa af afa eða vinsamlegum og kankvísum eldri manni. Karl sem veit margt en ekki allt – er forvitinn og getur verið uppátækjasamur.

„Ég hef reynt að hafa smáhúmor í þáttunum og léttleika,“ segir sr. Bolli Pétur og þarf kannski ekki að leita langt með það enda maður með létt lund og spaugsamur – og alltaf stutt í brosið.

Fróði ber líka nafn með rentu því að hann miðlar áfram ýmsum fróðleiksmolum um kirkju og trú – og hvað eina. Það gerir hann með eðlilegum og lifandi hætti og tengir við það sem hann fæst við hverju sinni. Hann tekur nefnilega sér eitt og annað fyrir hendur í þáttunum! Bakar piparkökur og stundar leikfimi við miklar vinsældir. Sækir jólatréð út í skóg og skreytir það með glæsibrag. Og alltaf jafn hress og sprækur – ungur í anda og með reynslu aldursins.

„Já, ég er ekki frá því að hann Fróði vinur minn hafi jákvæð áhrif á barnssálina,“ segir sr. Bolli Pétur og bætir við hugsi í lokin: Og líka okkur hin sem eldri eru.

Hér fyrir neðan má sjá tvo þætti um Fróða. Búið er að gera sextán þætti.

hsh




Fróði á vinnustað sínum í Hjallakirkju



  • Barnastarf

  • Covid-19

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut