Bak við streymið

28. desember 2020

Bak við streymið

Seltjarnarneskirkja hefur sýnt mikinn kraft í rafrænu helgihaldi - sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur - mynd: hsh

Það blés hressilega í kringum Seltjarnarneskirkju í gærmorgun. Ekki óvenjulegt þar á Nesinu.  

Í sama mund og kirkjan.is skaust undan norðanvindinum inn í forkirkjuna bar þar að sóknarprestinn, sr. Bjarna Þór Bjarnason, sem sagði eftir að bjóða góðan daginn hressilega, þetta vera fjórtánda streymið í þessari lotu. Þau voru tólf í lotunni þar á undan.

Tíðindamaður ætlaði síðan inn í kirkju en rak þá augun í stóreflis vinnutæki inni í kirkjuskipinu og allir bekkir á bak og burt. Orgelið hjúpað plasti.

Klukknahljómur
Kirkjan.is heilsaði upp á erlendan verkamann sem brá sér nánast í sömu andrá út fyrir dyr og kveikti í sígarettu. Ögn síðar kom sóknarpresturinn á allmikilli ferð og vatt sér út og sagði með vinalegu brosi við verkamanninn sem stóð þar utan dyra, ding dong, og benti á klukknaportið. Til að vara hann við. Síðan ómuðu klukkurnar hátt og fagurlega og verkamaðurinn skaust inn þakklátur prestinum fyrir kærleiksríku viðvörunina. Hann náði þó tveimur djúpum smókum.

Miklar framkvæmdir standa yfir í kirkjunni. Verið er að mála kirkjuskipið og taka allt í gegn. Upplagt var að ganga í verkið á kórónuveirutíma. Því verður lokið innan skamms.

En guðsþjónustan fór fram niðri á jarðhæð og kirkjan.is var komin til að sækja hana.

Streymisguðsþjónusta.

Það var athyglisvert að taka þátt í henni og kirkjan.is hafði ekki gert það áður. Aðeins fylgst með slíku helgihaldi á netinu. 

Tæknimaðurinn Sveinn Bjarki Tómasson var búinn að stilla hinum mögnuðu og einföldu tækjum upp. Þrífótur, sími og make-up-ljós. Lesarar voru tilbúnir, þau Svana Helen Björnsdóttir og Sæmundur Þorsteinsson. Og presturinn á sínum stað - öflugur og hugmyndaríkur maður. Enginn asi á fólki, allt undir fullkominni stjórn. Þau hafa gert þetta áður og kunna til verka.

Svo var það hljómsveitin sem bar uppi tónlistina í helgistundinni.

Þar var hin víðkunna og vinsæla sveit, Sóló. Hún hefur verið við lýði í rúma hálfa öld og hefur um stundarsakir æfingaaðstöðu í kirkjunni. Hljómsveitina skipa þeir Guðmar Marelsson á trommum, hann er sóknarnefndarmaður á Seltjarnarnesi, Ólafur Már Ásgeirsson er á hljómborðinu, Lárus Ólafsson fer fimum fingrum um bassann, og gítarinn slær Sturla Már Jónsson. Fimmti maðurinn lá heima, veikur.

Hjómsveitin Sóló var stofnuð árið 1961. Hún hefur leikið áður við guðsþjónustur á Seltjarnarnesi.

Þeir eru kannski komnir af léttasta skeiði eins og segir einhvers staðar en eru ungir í anda. Þrír þeirra eru sjötíu og fimm ára og sá yngsti sjötíu og þriggja. Lasarusinn og aldursforsetinn heima, sjötíu og sjö ára.

En þeir léku ljómandi vel og söngur þeirra fallegur og kröftugur. Geri aðrir betur.

Sóló
Hljómsveitin Sóló var mjög vinsæl á sínum tíma og lék gítar- og danstónlist af öllu tagi. En einkum lék hún lög eftir The Beatles, Hollies, Searchers, Swinging Blue Jeans, The Shadows og fleiri vinsælar hljómsveitir. Kjarni hljómsveitarinnar hefur alltaf verið sá hinn sami og það voru þeir er léku í kirkjunni í gærmorgun.

Sr. Bjarni Þór hefur náð góðri færni í streymismenntinni og ferst það mjög vel úr hendi. Er öruggur, skýrmæltur og grúfir sig ekki ofan í bók eða blöð þegar hann talar heldur lítur með eðlilegum hætt upp og horfist í augu við upptökuvélina. Samband hans við áhorfendur er í góðu og traustu jafnvægi og ber ekki svipmót yfirþyrmandi sambandshungurs. Eðlilegt jafnvægi milli stjórnenda og áhorfenda skiptir máli í helgihaldsformi af þessu tagi.

Það var óneitanlega sérstök tilfinning að vera í nokkurs konar hljóðveri eða kirkjuveri á jarðhæð kirkjunnar og aðeins þessar fáu manneskjur viðstaddar í rýminu. Allt fór þó fram eins og salurinn, eða kirkjan væri troðfull. Enda veit enginn svo sem með vissu hve mörg horfa hverju sinni og með hvaða hætti. Síðan er hægt að fara inn á heimasíðu kirkjunnar eða Feisbókarsíðu og horfa þar þegar hentar.

Þetta er streymiskirkjan. Hún er gjörólík kirkjunni þar sem fólk af holdi og blóði hittist augliti til auglitis í samfélagi. Streymiskirkjan er interim-kirkja ef svo má segja, eða millibilskirkja. Gamla góða kirkjan kemur þegar almenn bólusetning verður komin langt á veg og kórónuveiran kvödd. 

hsh


Hljómsveitin Sóló, frá vinstri: Guðmar Marelsson, Ólafur Már Ásgeirsson, Lárus Ólafsson og Sturla Már Jónsson 


Svona sagði dagblaðið Vísir frá tónleikum í Austurbæjarbíói 24. september 1964 þar sem hljómsveitin Sóló kom fram. Þetta var öllu rólegra í gærmorgun í Seltjarnarneskirkju


Svana Helen Björnsdóttir las ritningarlestur og einnig Sæmundur Þorsteinsson. Sveinn Bjarki Tómasson tók upp og hélt traustum höndum utan um tæknimálin


Miklar framkvæmdir standa yfir og þeim lýkur von bráðar


Og hér er hin umrædda helgistund- gjörið svo vel!

 

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Frá Presta- og djáknastefnunni 2023 í Grensáskirkju

Presta- og djáknastefnan 2024 sett á morgun

15. apr. 2024
...í Stykkishólmi
Sr. Sigríður Gunnarsdóttir

Sr. Sigríður skipuð prófastur

15. apr. 2024
...í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi
LWF logo.jpg - mynd

Verkefnastjóri á sviði helgihalds

12. apr. 2024
…hjá Lútherska Heimssambandinu