Hvað má og hvað ekki

5. janúar 2021

Hvað má og hvað ekki

Gufuneskirkjugarður - útikerti og ljósakrossar á leiðum um jól

Kirkjan.is las í morgun í blaðútgáfu The Daily Telegraph að mikill kurr hefði orðið á dögunum meðal íbúa í enska bænum Kessingland skammt frá Suffolk. Ástæða þess var að sóknarpresturinn gerði gangskör að því láta hreinsa leiði í kirkjugarðinum af hvers kyns hlutum sem hún taldi vera ósmekklega og til óþrifnaðar. Þar var um að ræða til dæmis litla plastengla, litaða steina með ýmsum hjartnæmum áletrunum og uppblásnar blöðrur sem á stóð: Ég elska þig amma! Einnig barnaleikföng og fleira þess háttar.

Jafnframt taldi sóknapresturinn þetta brjóta í bága við reglur um kirkjugarð safnaðarins. Mörg sóknarbarnanna voru á öndverðum meiði og töldu að presturinn og kirkjugarðsstjórnin vildu hafa kirkjugarðinn nánast, segjum ekki dauðhreinsaðan í þessu samhengi, heldur eintóna og flatan, þetta væri snobb, og tilfinningar fólks væru ekki virtar. Fólkið sagði jafnframt að fyrri prestar og kirkjugarðsstjórnir hefðu leitt þetta hjá sér. Auk þess hefði presturinn aðeins fett fingur út í umgengnina í þessum tiltekna garði en ekki í öðrum kirkjugörðum sem væru í prestakalli hennar. Undirskriftasöfnun fór fram og náðust inn fjögur hundruð undirskriftir þar sem þessu var mótmælt. En málinu var skotið áfram innan kirkjunnar og úrskurður felldur prestinum í hag. Þó fylgdi með úrskurðinum hvatning um að prestur og sóknarbörn skyldu ræða um málið æsingalaust og finna sameiginlega lausn. Rétthafar leiða fengu tólf mánuði til að fjarlægja alla aukamuni af leiðum ástvina sinna.

Mál af þessum toga eru viðkvæm og þau eru umvafin tilfinningum. Sums staðar hér á landi má sjá við barnagrafreiti leikföng sem hafa verið viðkomandi barni kær eða einhverjar minningar aðstandenda eru bundnar við. Annars hefur borið lítið á einnota hlutum sem hafa verið til frambúðar við legsteina og á gröfum. Eflaust leyfir íslensk veðrátta ekki slíkt. Hins vegar hefur þar færst stórlega í vöxt hin síðari ár að íslenski fáninn er settur niður við legstein á litlu priki. Og reiðir þjóðfánanum misjafnlega af þar sem hann slæst stundum utan í legstein eða í jörðu.

Íslensk lög eru almenn í þessu efni og treysta borgurum til að ganga um leiði af smekkvísi og virðingu og amast ekki við því ef fólk vill sýna hinum látnu ást sína og virðingu með einhverjum sérstökum hætti við leiði þeirra.

Lög um kirkjugarða

The Daily Telegraph / hsh


Hlutir sem fjarlægðir voru af leiðum í kirkjugarðinum
  • Frétt

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Erlend frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut