Sýning sem leynir á sér

13. janúar 2021

Sýning sem leynir á sér

Ein mynda Helga Þorgils af fjórtán á sýningunni - skjáskot

„Þetta er eitt verk,“ segir Helgi Þorgils Friðjónsson, listamaður, þegar kirkjan.is spyr hann út í myndirnar sem sjá má í galleríi Göngum í Háteigskirkju.

Fjórtán íhugunarverðar og svipsterkar helgimyndir þar sem temað er krossburður frelsarans en í píslarsögu Jóhannesarguðspjalls 19.7 segir svo um Jesú: 

Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata.

„Fjórtán íhugunarstöðvar sem eru eitt verk,“ ítrekar listamaðurinn.

Þegar komið er inn í sýningarrýmið tekur á móti gestum vægur ilmur af olíumálningu.

Eru þetta ný verk?

„Ég byrjaði á þessu stefi 2014 og þegar ég var beðinn um að halda sýningu í kirkjunni þá setti ég trýkk í þetta og lauk við myndasyrpuna“, segir Helgi Þorgils. Yfir myndunum er klassískur bragur og hann segist hafa sett eins konar sjálfsmynd í Kristsmyndirnar. „En þetta er í raun áhorfandinn eða hver sem er,“ segir hann og bætir við: „Nokkurs konar afstöðupunktur – notaður til að örva sig inn í eitthvert ástand þegar menn vilja hugleiða á trúarlegum nótum.“

„Ég stækka myndirnar upp úr bókum í þessu tilviki með krosstækninni gömlu þar sem maður krossar út fyrirmyndina en þó eru þetta ekki beinar stækkanir því að maður sér aldrei allt í litlu bókunum,“ segir Helgi Þorgils til útskýringar. En hann segist fara mjög frjálslega með myndefnið í stækkuninni.

Myndirnar eru litríkar og persónur þeirra lifandi og horfa oft beint fram til áhorfandans og ná augnsambandi við hann. Áhrif þeirra eru sterk og áhorfandinn finnur að þær ná taki á honum. Kalla hann til íhugunar með sínum stóru, hlýju og oft spurulu augum.

Listaverk með trúarlegum tilvísunum hafa áður komið frá hendi hans. Hann var til dæmis myndlistamaður kirkjulistahátíðar fyrir nokkrum árum og sýndi verk í Hallgrímskirkju.

Helgi Þorgils segist hafa starfað að list sinni um fjörutíu og fimm ár. Hann er þjóðkunnur listamaður og hefur haldið fjölda sýninga hér heima og í útlöndum – ferilskrá hans er löng og glæsileg.

Verk Helga Þorgils hafa vakið mikla athygli en þau laða áhorfandann inn í undraveröld þar sem allt getur gerst. Það er eins og fólk sé úr öðrum heimi, það svífur um nakið, er á hvolfi – og himinninn er aldrei langt undan. Súrrealisminn er líka alltaf handan við hornið. Yfir myndunum er ljómi hins saklausa og fegurðarinnar. Maður og náttúra renna iðulega saman í einn líkama í heiminum. Fjölbreytni hans í listsköpuninni er mikil og bregst aldrei.

Kirkjan.is hvetur lesendur sína til að skoða sýninguna í Gallerii Göngum í Háteigskirkju. Hún er opin á sama tíma og kirkjan.

hsh

Nánar um Helga Þorgils á arkiv.is


Ein myndanna - skjáskot


  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra