Fundur prófasta í netheimum

2. febrúar 2021

Fundur prófasta í netheimum

Ísafjarðarkirkja - altaristafla: Fuglar himinsins - Ólöf Nordal og sóknarbörn gerðu myndina. Ljósmynd: Árni Svanur Daníelsson

Í gær var prófastafundur haldinn. Í þetta sinn var hann rafrænn og stóð yfir í tvær og hálfa klukkustund.

Prófastafundur er haldinn árlega og oftast í upphafi árs. Það er biskup Íslands sem stýrir fundinum. Þennan fund sóttu vígslubiskuparnir báðir, biskupsritari, mannauðsstjóri og nokkrir starfsmenn Biskupsstofu. Vel var mætt á fundinn, átta af níu próföstum.

Kirkjan.is sló á þráðinn til sr. Magnúsar Erlingssonar, sóknarprests á Ísafirði og prófasts í Vestfjarðarprófastsdæmi, og spurði hvernig fundurinn hefði gengið fyrir sig.
„Skínandi vel,“ svarar sr. Magnús glaðlega, „hin skrifaða dagskrá stóðst ágætlega og það verður að teljast gott þegar haft er í hug að prestar eru oft skrafhreifir.“

En hvað var rætt?

„Það er ljóst að skírnum og hjónavígslum hefur fækkað vegna kórónuveirufaraldursins en jarðarfarir eru í svipuðum mæli og áður eins og við er að búast,“ svarar sr. Magnús. Hann segir að jafnframt hafi sálgæsluviðtöl þyngst. „En stóra breytingin er auðvitað sú að hefðbundið messuhald hefur ekki verið haft um hönd að undanförnu heldur hafa kirkjur streymt efni frá sér.“

Þá segir sr. Magnús að  skírnarskógar hafi verið ræddir og möguleiki á því að koma slíkum skógum upp í öllum prófastsdæmum. „Eru menn þar meðal annars að horfa til prestssetursjarða,“ segir sr. Magnús, „hugsanlega mætti nýta fermingarbörn til að planta trjám. Það er bæði lærdómsríkt og uppbyggilegt fyrir fermingarbörnin.“

Sr. Magnús hefur verið prófastur í nær níu ár og honum þykir gaman að sækja prófastafundi. Dagskráin kemur ekki á óvart í sjálfu sér að sögn hans enda er starf kirkjunnar og fyrirkomulag nokkuð hefðbundið frá ári til árs. Til dæmis er árviss umræða um skýrsluskil presta til prófasta en mikilvægt er að halda þeim gögnum vel saman þar sem fram kemur fjöldi skírðra, jarðarfara o.s.frv. Prestar eru vörslumenn opinnberra gagna sem verða til í prestaköllunum. Prestsþjónustubækur eru dæmi um gögn sem sóknarprestar verða að halda vel utan um og skila innan ákveðins tíma til Þjóðskjalasafns – sjá umfjöllun hér á kirkjan.is.

Kirkjan.is þakkar sr. Magnúsi fyrir spjallið og spyr svona í lokin hvort ekki hafi verið gott að þurfa ekki að skreppa suður á fund í febrúarmánuði – daginn fyrir kyndilmessu – já, og á sjálfum þorranum:

Lúða var það
„Æ, æ, nú hefur það hent mig líkt og Garðar Hólm að lenda í ferðalögum, sem er ægilegt hlutskipti. Ég ók suður í skafrenningi til að jarðsyngja mann í höfuðstaðnum. Ók svo aftur vestur til að geta verið á þessum raffundi. Þannig að umstangið var sama og áður. Og fátt er jafn leiðinlegt og ópersónulegt og fundur í gerviveröld rafheima!", sagði prófastur Vestfirðinga og hló hressilega. Sagðist síðan ætla að skella sér niður á höfn að kaupa lúðu í soðið.

Kirkjan.is fékk vatn í munninn og þakkaði prófastinum fyrir spjallið.

hsh

Myndin með fréttinni er af altaristöflu Ísafjarðarkirkju þar sem prófasturinn þjónar og hér segir hann frá tilurð myndarinnar:


  • Frétt

  • Fundur

  • Menning

  • Samfélag

  • Covid-19

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra