Betri staða

24. febrúar 2021

Betri staða

Fundur kirkjuþings norsku kirkjunnar - mörg mál þarf að leysa eins og á þingi íslensku þjóðkirkjunnar - og allt fer vel - mynd: Vårt land

Þó nokkur fjöldi íslenskra presta hefur starfað í Noregi og nokkrir eru þar að störfum um þessar mundir. Þau sem þangað hafa sótt lýsa almennt ánægju sinni með starfsvettvanginn.

Í Noregi hefur verið skortur á prestum sem hefur ekki verið hér á landi. Alltaf sækir hópur presta og guðfræðinga um störf sem losna í íslensku þjóðkirkjunni og er það ánægjuefni að búa svo vel.

Í fyrra voru 115 lausar prestsstöður í norsku kirkjunni. En í byrjun þessa árs eru 96 stöður lausar til umsóknar. Norður-Noregur sker sig úr hvað þetta snertir, flestar stöður lausar þar. En þetta er meira en 20% fækkun á lausum stöðum.

Það er stærsta kristilega blað Noregs, Vårt land, sem fjallar um málið þessa dagana.

Þessi þróun vekur bjartsýni meðal frænda okkar, Norðmanna. Hjá sumum vakti hún reyndar undrun því að þau áttu ekki von á breytingu.

Á síðasta ári hættu 66 prestar störfum og stór hluti þeirra fór á eftirlaun og engum kom það á óvart. En 29 guðfræðingar hlutu vígslu, 22 komu úr öðrum kirkjulegum störfum og 27 komu til starfa af almennum vinnumarkaði.

Þá hefur þess gætt að starfsfólk norsku kirkjunnar sem sinnir djáknastörfum og annarri kirkjulegri þjónustu eykur við guðfræðimenntun sína og sækir um prestsstörf. Það er gleðiefni í sjálfu sér en eftir sitja kirkjurnar án djákna og annarra guðfræðimenntaðra starfsmanna. Þær stöður þarf þá að manna en þar hefur líka verið skortur á fólki. Auk þess sé augljóst að þessi hópur starfsfólks sem þá þegar hefur menntun í guðfræði og þarf kannski ekki að bæta miklu við til að fá starfsgengi sem prestar, sé ekki starfsmannaforði til að byggja á því að hann gangi og til þurrðar. Norðmenn skoða sem sé allar hliðar málsins eins og vera ber.

Sum í norsku kirkjunni eru farin að sjá merki um að fólk hefji störf innan hennar eftir að hafa lokið störfum á öðrum vettvangi samfélagsins. Fólk á fimmtugs- og sextugsaldri. Þetta sé starfsvettvangur númer tvö, sem svo er kallað. En þessi hópur mun að sögn þeirra ekki manna skipið til fulls. Meira þarf að koma til.

Árið 2017 var gerð rækileg rannsókn á stöðu þessara mála í Noregi. Niðurstaða hennar var mikið áhyggjuefni innan norsku kirkjunnar.

Ýmsar lausnir hafa verið viðraðar á vandanum. Á að stytta háskólamenntun í guðfræði sem veitir starfsréttindi í kirkjunni? Eða breyta námskröfunum?

Vegur spámannsins
er ein aðferð sem norska kirkjan hefur gripið til í því skyni að fjölga prestum. Hún felst í því að gefa fólki kost á prestsvígslu sem hefur ekki tilskylda guðfræðimenntun en er búið sérstökum hæfileikum sem eru metnir að verðleikum sem drjúgt veganesti upp í sex ára háskólanám í guðfræði. Það hefur hins vegar iðulega vafist fyrir þeim sem skera eiga úr um þessa sérstöku hæfileika með hvaða hætti eigi að gera það og að rökstyðja ríka kirkjulega þörf fyrir þjónustu af þessu tagi, eins og segir í reglunum. Málið hefur sem sé ekki verið auðvelt – auk þess að vera umdeilt. Í fyrra voru 27 prestar ráðnir sem ekki voru guðfræðingar.

Nýlega bættist NLA Høgskolen  sem fjórði háskólinn í Noregi sem menntar guðfræðinga til starfsgengis í norsku kirkjunni - sjá nánar hér.

Kirkjuþingið norska mun taka málið sérstaklega fyrir á þessu ári og setja fram viðamikla aðgerðaáætlun um það hvernig sé unnt að fjölga nýliðum í hópi presta. Óvíst er hvenær þingið kemur saman á árinu vegna kórónuveirunnar en fundarstaður er að þessu sinni Þrándheimur.

Gott skipulag
Á norska kirkjuþinginu sitja 116 fulltrúar og þar af eru leikmenn 77 – fulltrúarnir eru kjörnir úr ellefu biskupsumdæmum. Kirkjuþingið er æðsta stofnun norsku kirkjunnar og til þess er kjörið á fjögurra ára fresti. Það er og athyglisvert hjá norsku kirkjunni að þau eru búin að skipuleggja kirkjuþingið til næstu fjögurra ára upp á dag svo fólk getið tekið dagana frá í dagbók sinni.

Vårt land/ hsh

 


  • Frétt

  • Menning

  • Samstarf

  • Erlend frétt

Frá fundi aukakirkjuþings 2021 - Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings í ræðustól - mynd: hsh

Aukakirkjuþingi 2021 frestað

22. jún. 2021
...fjármálaumræða setti svip sinn á þingið
Biskup Íslands flytur blessun í lok vígslunnar - mynd: hsh

Fjölmenni við vígsluna

22. jún. 2021
...fallegt veður á Esjubergi
Kirkjuþingsfulltrúar á aukakirkjuþinginu - mynd: hsh

Aukakirkjuþing sett

21. jún. 2021
...þinginu lýkur síðdegis í dag