Skráargat á kirkjuhurð

8. mars 2021

Skráargat á kirkjuhurð

Birta í gegnum kirkjuskráargat

Æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar var í gær.

Í mörgum kirkjum var eitt og annað gert til að höfða til ungs fólks og fá það inn á kirkjusviðið. Bjartsýni enda ríkjandi með undanhald kórónuveirufaraldurs þá stundina en síðdegisfréttir gærdagsins skyggðu ögn á það er leið á daginn – á morgun kemur í ljós hvort fjórði faraldurinn skellur á eða ekki.

En gærdagurinn var tileinkaður æskunni. Dagur æskunnar í kirkjunni – framtíðarinnar.

Og hvernig birtist það?

Æskulýðsguðsþjónustur voru víða hafðar um hönd. Einnig fjölskylduguðsþjónustur.

Fermingarbarn söng í einni kirkjunni en áberandi var að fermingarbörn voru kölluð til ýmissa verka í kirkjum landsins í gær. Enda kórónuveiran á sýnilegu undanhaldi þá stundina. Barnakórar sungu í nokkrum kirkjum, bæði kórar kirknanna sjálfra eins og Barnakór Vídalínskirkju og barnakór Ástjarnarkirkju. Sömu sögu að segja úr Hafnarfjarðarkirkju, þar voru barna- og unglingakórar kirkjunnar með hlutverk. Einnig voru kallaðir til aðfengnir kórar. Til dæmis söng stúlknakór Reykjavíkur í Háteigskirkju og Drengjakór Reykjavíkur í Neskirkju. Félagar úr skólakór Kársness sungu í Kópavogskirkju. Ungmenni í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra sáu um tónlist og talað orð í Sauðárkrókskirkju. Í Hallgrímskirkju í Reykjavík struku nokkur ungmenn fiðlustrengi sína við guðsþjónustuna, þau eru nemendur úr Allegro Suzukitónlistarskólanum. Brúðuleikhús í Akureyrarkirkju og yngri barnakór kirkjunnar þandi raddböndin ungu.

Nú svo var guðfræðingur vígður til skólaprests í Dómkirkjunni í Reykjavík. Sr. Sigurður Már Hannesson heitir hann.

Enn streyma margar kirkjur efni frá sér og Feisbókarsíður þeirra eru farvegur þeirra.

Síðan var útvarpað æskulýðsmessu frá Langholtskirkju – hún verður aðgengileg á vefnum í eitt ár. 

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um fjölbreytilegt starf safnaðanna. 

Kirkjan.is fór í snögga kirkjuferð á æskulýðsdegi og kíkti svo að segja í gegnum skráargat á fjórum kirkjuhurðum milli ellefu og tólf.

Háteigskirkja ljómaði á sólbjörtum morgni. Svo hvít og háreist. Þar var Stúlknakórinn sem áður getur og margt um manninn. Vel sótt. Þá var fagur hljómur sem barst frá ungmennum sem léku á fiðlur sínar í velsóttri Hallgrímskirkju. Og í Neskirkju var þéttsetinn bekkurinn og margt á að hlusta, klerk og kór. Þegar komið var að henni stóðu kirkjudyr opnar og buðu fólk velkomið.

Í lokin: Setið í hverjum bekk Dómkirkjunnar. Söguleg stund. Prestsvígsla. Ekki hún í sjálfu sér þó hver vígsla sé söguleg fyrir þann er hana hlýtur og hans eða hennar fólk. Heldur hitt. Grímuskyldan kallaði á það að bæði í upphafi messunnar og lok gengu fylktu liði undir reistu krossmarki sem kirkjuvörður hélt uppi, biskup, nývígðir prestar og vígsluvottar. Öll með grímu. Sennilega fyrsta prestsvígslan sem fer fram með þeim hætti. Vonandi sú síðasta.

Og niðurstaðan?

Kirkjurnar fjórar sem kíkt var inn í voru vel sóttar, allra sóttvarnareglna gætt og æskulýðurinn átti þar drjúga hlutdeild – og furðu mikla miðað við að undanfarið ár hefur kórónuveiran sett miklar skorður fyrir allt hefðbundið starf safnaðanna.

hsh


Stúlknakór Reykjavíkur söng í Háteigskirkju


Skráningarblöð í Háteigskirkju


Nemendur úr Suzukiskólanum léku á fiðlu í Hallgrímskirkju


Gjörið svo vel og skráið ykkur til guðsþjónustu!


Neskirkja var þéttsetin


Skráningarblöð í Neskirkju


Sprittbrúsar eru í öndvegi


Grímuskylda - sögulegur viðburður


  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta