Svipmyndir frá kirkjuþingi

14. mars 2021

Svipmyndir frá kirkjuþingi

Fulltrúi kirkjuþings unga fólksins í ræðustól, Berglind Hönnudóttir

Í gær lauk 60. kirkjuþinginu, kirkjuþingi 2020, en það var haldið í Grand Hotel Reykjavik. Mörg mál voru á dagskrá og þau afgreidd. Ekki tókst þó að ljúka öllum málum og bíða þau til kirkjuþings 2021, sem haldið verður í haust.

Gögn þingsins eru í rafrænu formi og því umhverfisvænt. Streymt var frá þinginu.

Um framvindu einstakra mála að þessu sinni má sjá hér. Gerðir kirkjuþings er svo hægt að lesa á vef kirkjunnar.

Á kirkjuþingi sitja tólf vígðir einstaklingar og leikmenn eru sautján, samtals 29 fulltrúar. Forseti kirkjuþings er Drífa Hjartardóttir. Eins og á mörgum þingum þá fara störf þess einkum fram í nefndum sem og í almennum umræðum. 

Nefndir kirkjuþings eru fjórar: kjörbréfanefnd, allsherjarnefnd, fjárhagsnefnd og löggjafarnefnd.

Starfsfólk kirkjuþings kemur frá Biskupsstofu og gegnir lykilhlutverki í starfsemi þingsins. 

Einn kirkjuþingsmanna, Árný Hallfríður Herbertsdóttir, tók þátt í þinginu gegnum fjarfundabúnað. 

Hér má sjá nokkrar svipmyndir frá störfum kirkjuþingsins. Sjón er sögu ríkari.

hsh


Hægt var að fylgjast með störfum þingsins í streymi - fundir kirkjuþings fara fram í heyranda hjóði nema þingið ákveði annað.


Benedikt Kristjánsson söng við undirleik Susana Budai


Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup, leiddi þingheim í upphafsbæn