Listastund

19. mars 2021

Listastund

Kordía er kór Háteigskirkju - stjórnandinn við flygilinn

Dagskrá sú sem Háteigskirkja býður upp á um passíusálmana er einkar vel heppnuð. Á hverju miðvikudagskvöldi út föstuna koma saman listamenn í kirkjunni og flytja Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar. Það er Guðný Einarsdóttir, organisti með meiru sem stýrir þessum listastundum sem ofnar eru úr sterkum þáttum trúarinnar. Félagar úr Kordíu sem er kór kirkjunnar flytja sálmana.

Margur telur að lestur passíusálma sé þunglamalegur og lítt til þess fallinn að hressa hrelldar sálir nútímans. Enda sautjándu aldar guðfræði þar reidd fram sem sú tuttugasta og fyrsta kyngir ekki svo auðveldlega þrátt fyrir rómaða snilli sína og aðlögunarhæfni.

Stundin í kirkjunni var stund listar og trúar. Stund fágunar og auðmýktar listamanna og annarra er þátt tóku í henni. Passíusálmar voru ýmist lesnir eða samlesnir. Og sungnir í einsöng eða samsöng. Ekki keyrðir allir í gegn með dramatísku boðvaldi, heldur valið úr með næmni og umhyggju. Öllu raðað saman af listfengi og átakalaust, en allt þó frábærlega markvisst. Já, með mýkt og hófsemd.

Fjölbreytileiki er visst ákall samtíðarinnar og sú samtíð sem ekki bregst við því ákalli verður skjótt hornreka og fámál. Það var einmitt fjölbreytileikinn í allri framsetningu sem gerði stundina svo eftirminnilega og lauk upp ýmsum trúarlegum þönkum. Þannig verður listin farvegur guðspjallsins, verður guðspjall, gott spjall. Mannsröddin, orgel, píanó og gong slegið sem og bjöllur.

Fjölbreytnin liggur meðal annars í því að listafólkið heldur sig ekki við eina tiltekna textaútgáfu né einn ákveðinn stíl af tónlist eða lagavali. Þó er langoftast haldin tryggð við lagboða sr. Hallgríms sjálfs, eða ríkjandi hefðir sem mótast hafa gegnum árin, ef um er að ræða lög úr núverandi sálmabók og eldri sálma- og messubókum eða lög úr munnlegri geymd.

Þau sem komu að verki verða ekki upptalin hér en verkalok þeirra þessa kvöldstund voru til fyrirmyndar. Augljóst að komið var að liststarfinu af miklum heilindum og samviskusemi. Öll voru þau sem eitt. Þeim tókst að flytja passíusálmaefni þessarar stundar einstaklega vel til fólksins í kirkjunni.

Þetta var í fimmta sinn á föstunni sem passíusálmastund var í kirkjunni. Þrjár eru eftir, þann 24. mars, 31. mars og föstudaginn langa 2. apríl.

Í kynningu segir svo
Sálmarnir verða sungnir við lög frá ýmsum tímum, bæði úr sálmasöngsbók til kirkju- og heimasöngs 1936, við lög eins og þau birtast undir lagboðum sálmanna í messubók og sálmabók Guðbrands Þorlákssonar frá 1594 og 1619 og við lög eftir íslensk tónskáld. Einnig hafa tveir kórfélagar Kordíu, þau Sara Gríms og Björn Önundur Arnarsson samið lög og hljóðmynd við tvo af sálmunum. Margir af sálmunum verða sungnir við lög úr munnlegri geymd og verður þar stuðst við útgáfu og rannsóknir Smára Ólasonar en einnig sungin lög úr handriti sr. Sigtryggs Guðlaugssonar frá Núpi í Dýrafirði en handritið er varðveitt á Landsbókasafni Íslands.

hsh


Orgel og gong
  • List og kirkja

  • Menning

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Pétur H. Ármannsson, arkitekt, flutti stórfróðlegt erindi á fræðslumorgni í Seltjarnarneskirkju - mynd: hsh

Flottir fræðslumorgnar

12. apr. 2021
...arkitektúr og kirkja
Myndhluti úr málverkinu sem hugsanlega er eftir ítalska barokkmálarann Caravaggio (1571-1610) - mynd: The Daily Telegraph

List á laugardegi: Sjáið manninn!

10. apr. 2021
...munaði mjóu
Ragnheiður Guðmundsdóttir, sóknarnefndarformaður og kirkjukona

Fólkið í kirkjunni: Engin uppgjöf

09. apr. 2021
... skírði hana, fermdi og gifti... en hún hjúkraði honum í ellinni