Kona fer í gönguferð

21. mars 2021

Kona fer í gönguferð

Sterk ljóðabók sem vekur lesendur til umhugsunar

Ljóðformið er góð leið til að tjá líðan og tilfinningar. Það stendur öllum til boða og betur væri að fleiri hagnýttu sér það til andlegrar heilsubótar.

Í ljóði þarf höfundur ekki að segja allt í orðum. Sumt liggur á milli orðanna, jafnvel bak við orðin, eða verður til í huga lesanda.

Kona fer í gönguferð - 799 kílómetrar – 34 dagleiðir, heitir áhugaverð ljóðabók sem kom út í síðustu viku. Mál og menning gefur út. Hanna Óladóttir er höfundur hennar og hún segir frá ferðalagi um helgar slóðir. Pílagrímaslóðir. Höfundur fer hinn fræga Jakobsveg á Spáni. Milljónir manna hafa gengið hann.

Hvers vegna fer höfundur í þessa ferð? Og hvað vakir fyrir henni að skrifa þessi ljóð?

Henni berst boð í nafni kærleika og vináttu (bls. 10). Hún þiggur þetta boð, fer því að hún er örmagna kona. Býr yfir reynslu sem lesandi hefur ekkert hugboð um í þessari ljóðabók hennar. Kannski verður hann að lesa hina fyrri bók Hönnu, Stökkbrigði, sem kom út fyrir tveimur árum, til að skynja hver örlög þessarar konu voru sem gengur nú Jakobsveginn og elur þessi ljóð af sér.

Í umfjöllun um ljóð er skylt að vitna í þau til þess að leggja ekki höfundi orð í munn.

Hönnu tekst firnavel að varpa upp skýrum leifturmyndum af stöðum og atvikum, tilfinningum og fólki sem verður á vegi hennar. Hún er næm eins og sönnu ljóðskáldi ber að vera og segir margt í fáum orðum. Brottfararsalir á flugvöllum eru merkileg fyrirbæri og hún segir í ljóðinu Millilending á bls. 13:

eimur
af flugvélabensíni
fyllir vitin
í útjöskuðum
sýndarveruleika
brottfararsalarins

Þó pílagrímaganga sé farin innan um annað fólk þá er manneskjan ekki síður ein á ferð og gengur um huga sinn og skoðar hvern krók og kima – hún fær tíma sem áður var varið í annað – eða kannski var hann ekki til. Þetta eru krossgötur þagnar og orða í lífinu - úr ljóðinu Lagt upp, bls. 14:

þetta er alveg nýtt
allur þessi tími
fyrir sjálfa sig

hún þekkir ekki
eigin þarfir
óskir
vilja

við upphaf ferðar
er líkt og
komið sé að lokum

Jakobsvegurinn getur falið margt í sér. Gangan eftir honum þarf svo sem ekki að vera trúarlegs eðlis og getur þess vegna átt rót sína í forvitni og almennum áhuga í anda vinsælla útivistarfræða nútímans. Þannig er hægt að horfa á hana veraldlegum augum og þoka burtu öllu sem tengir hana við almættið eða helga menn, karla og konur. Langflestir sem fara Jakobsveginn eru þó sennilega í einhvers konar trúarlegum þönkum og í samtali við völund veraldar, Guð. Og mörg eru með sitthvað á herðum sínum sem þau vilja skýringar á - þetta er úr ljóðinu Ferð með fyrirheit á bls. 41 (kallast á við hina frægu ljóðabók Steins Steinarr: Ferð án fyrirheits).

vegurinn fjölfarinn

hér hafa kynslóðir gengið
hér munu kynslóðir ganga

með ólíkar byrðar
á ólíkum hraða

Ljóðið Þjáningar á bls. 40, er gagnyrt og talar til tilfinninga. Segir hverjir fara um veginn - hvert og eitt með sínar þjáningar. Og öll eru þau:

örfín sandkorn
á veginum

Lesandi sá sem hér skrifar skynjar trúarlega tón í bókinni – mannlegan tón sem spyr almættið alvarlegra spurninga og er ekki sátt við það og allra síst þegar einhver meira en ósanngjörn örlög grípa inn í líf fólks – hvað skyldu annars margir vera sáttir við Guð?

Ljóðið Bæn (bls. 16) – margur getur eflaust tekið orð þess í trú sinni og trúleysi:

ef ég geri allt rétt
lifi eftir settum reglum
stendur þú við þitt
og ekkert illt hendir

ég gerði allt rétt
lifði eftir settum reglum

en þú stóðst ekki við þitt

Guðsásakanir hafa fylgt mannkyni frá fyrstu tíð - sem og sú þraut að réttlæta tilvist Guðs andspænis hörðum örlögum í lífi einstaklinga eða þjóða. En annað ljóð á sömu opnu (bls. 17) heitir Vegur vonar lýsir djúpri og leitandi trú:

ef hann hverfur sjónum
þurfum við hjálp
til að finna hann aftur

Lesandi kemst ekki hjá því að finna að gangan eftir Jakobsveginum hafi verið höfundi dýrmæt reynsla og þessi litla og sterka ljóðabók ber þess merki. Víða kallast trúarleg stef á við lífsreynslu, harða sem steininn er hún hafði í vasanum og óskar þess að týna honum; og enduróma sömuleiðis kynni af alls konar fólki á leiðinni sem ber einhvern harm í brjósti - úr ljóðinu Fundur á bls. 42:

þær deila sögum sínum
þrengingum
vonbrigðum

frelsandi
að sleppa öllum
látalátum
fella varnarmúra

Og í ljóðinu Á miðri leið, bls. 39, segir:

allar hugga þær
hver aðra

Kona fer í gönguferð - 799 kílómetrar – 34 dagleiðir, er 43 blaðsíður og hönnun bókarinnar er einkar falleg. Kirkjan.is mælir með þessari fallegu og næmu ljóðabók sem vekur margvíslegar tilfinningar hjá lesendum, tilvistarfræðilegar, guðfræðilegar – og mannlegar.

hsh


  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Frétt

Pétur H. Ármannsson, arkitekt, flutti stórfróðlegt erindi á fræðslumorgni í Seltjarnarneskirkju - mynd: hsh

Flottir fræðslumorgnar

12. apr. 2021
...arkitektúr og kirkja
Myndhluti úr málverkinu sem hugsanlega er eftir ítalska barokkmálarann Caravaggio (1571-1610) - mynd: The Daily Telegraph

List á laugardegi: Sjáið manninn!

10. apr. 2021
...munaði mjóu
Ragnheiður Guðmundsdóttir, sóknarnefndarformaður og kirkjukona

Fólkið í kirkjunni: Engin uppgjöf

09. apr. 2021
... skírði hana, fermdi og gifti... en hún hjúkraði honum í ellinni