Annar í páskum

4. apríl 2021

Annar í páskum

Kristur í Emmaus - málverk eftir danska listmálarann Carl Bloch (1834-1890). Í Fáskrúðarbakkakirkju á Snæfellsnesi er eftirmynd af þessari mynd, gerð af Brynjólfi Þórðarsyni (1896-1938). Mynd: Wik. com.

Að morgni annars dags í páskum, 5. apríl, verður fluttur í Ríkisútvarpinu þáttur á Rás1 undir heitinu Því að kvölda tekur og degi hallar. Umsjón með þættinum hefur hin góðkunna og vinsæla útvarpskona Una Margrét Jónsdóttir. Hún hefur tekið sama fjölmarga menningarlega þætti og margir þeirra eru listilega samofnir trú, samfélagi og sögu. Rétt er að minnast frábærrar þáttaraðar um íslenska sálma og flutt var á sunnudagsmorgnum fyrir nokkrum árum.

Í þessum þætti Því að kvölda tekur og degi hallar staldrar Una Margrét við texta Lúkasarguðspjalls 24. kafla, versin 13-35, en þar segir frá því er lærisveinarnir hitta frelsarann upprisinn á leið til Emmaus. Þátturinn hefst kl. 9.03.

Í þættinum mun Una Margrét flétta saman tónlist og ljóðum er tengjast þessu efni með ýmsum hætti. Hin kunna frásögn Lúkasarguðspjalls hefur nefnilega haft mikil trúar- og menningarleg áhrif. Ýmsir hafa samið tónlist út frá henni og aðrir lög. Það sem listamenn hafa staldrað við er hin hógværa ósk lærisveinanna sem þeir bera upp við meistarann: Vertu hjá oss því að kvölda tekur og degi hallar.

Kirkjan.is sló á þráðinn til Unu Margrétar og spurði nánar út í þáttinn. Fyrst hvaða ljóð yrðu flutt í þættinum.

„Nokkur skáld hafa samið ljóð sem tengist þessari frásögn,“ segir Una Margrét og nefnir ljóð eins og Komnir eru dagarnir eftir Snorra Hjartarson, Gangan til Emmaus eftir Steingerði Guðmundsdóttur, Emmaus eftir Friðrik Guðna Þórleifsson, Tveir dumbrauðir fiskar (úr ljóðaflokknum Tíminn og vatnið) eftir Stein Steinarr, og Emmaus eftir Njörð P. Njarðvík. „Þá er það brot úr ljóðinu Eyðilandið (The Waste Land) eftir T.S. Eliot í þýðingu eftir Sverri Hólmarsson,“ segir Una Margrét.

Lögin sem hún leikur eru úr ýmsum áttum – en hver spyr kirkjan.is.

„Abendlied eftir Joseph Rheinberger,“ svarar Una Margrét og síðan kemur röð af nokkrum lögum eins og Abide with me, fast falls the eventide, sálmalag eftir William Henry Monk. „Þá verða flutt brot úr Officium peregrinorum, frönskum helgileik úr handriti frá 12. öld, sömuleiðis brot úr tíðasöng munka í Latrún-klaustrinu í Palestínu og brot úr verkinu Tíminn og vatnið eftir Jón Ásgeirsson.“ Einnig verður fluttur þáttur úr kantötunni Bleib bei uns, denn es wird Abend werden eftir Johann Sebastian Bach.

En hvernig tengist efnið fótboltaleik, spyr kirkjan.is en hún hafði fengið veður af því.

„Frá árinu 1927 hefur það verið hefð að syngja sálminn „Abide with me“ við lagið eftir Monk á úrslitakeppni Ensku bikarkeppninnar í fótbolta.“ segir Una Margrét. „Eins og margir sjálfsagt vita er þetta sálmurinn sem hefst í íslenskri þýðingu Matthíasar Jochumssonar á orðunum „Ver hjá mér, herra, dagur óðum dvín“. Það var Alfred Wall, ritari Enska knattspyrnusambandsins, sem átti upptökin að þessum sið árið 1927. Bresku blöðin fjölluðu um þennan tiltekna knattspyrnuleik 1927 og nefndu sérstaklega hvað sálmasöngurinn hefði verið áhrifamikill.

Kirkjan.is hvetur lesendur sína til að hlusta á þennan þátt hjá Unu Margrétu Jónsdóttur, dagskrárgerðarkonu. 

hsh

Lúkasarguðspjall 24. 13-35 
Tveir þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus. Þeir ræddu sín á milli um allt þetta sem gerst hafði. Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim. Augu þeirra voru svo blinduð að þeir þekktu hann ekki. Og hann sagði við þá: „Hvað er það sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?“
Þeir námu staðar, daprir í bragði, og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: „Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem sem veit ekki hvað þar hefur gerst þessa dagana.“
Hann spurði: „Hvað þá?“
Þeir svöruðu: „Þetta um Jesú frá Nasaret sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum mönnum. Æðstu prestar og höfðingjar okkar létu dæma hann til dauða og krossfesta hann. Við vonuðum að hann væri sá er leysa mundi Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við. Þá hafa og konur nokkrar úr okkar hópi gert okkur forviða. Þær fóru árla til grafarinnar en fundu ekki líkama hans og komu og sögðust jafnvel hafa séð engla í sýn er sögðu hann lifa. Nokkrir þeirra sem með okkur voru fóru til grafarinnar og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt en hann sáu þeir ekki.“
Þá sagði hann við þá: „Skilningslausu menn, svo tregir til að trúa því öllu sem spámennirnir hafa sagt fyrir um! Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?“ Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það sem um hann er ritað í öllum ritningunum.
Þeir nálguðust nú þorpið sem þeir ætluðu til en hann lét sem hann vildi halda lengra. Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: „Vertu hjá okkur því að kvölda tekur og degi hallar.“ Og hann fór inn til að vera hjá þeim. Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. Þá opnuðust augu þeirra og þeir þekktu hann en hann hvarf þeim sjónum. Og þeir sögðu hvor við annan: „Brann ekki hjartað í okkur meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“
Þeir stóðu samstundis upp og fóru aftur til Jerúsalem. Þar fundu þeir þá ellefu og þau er með þeim voru saman komin, en þau sögðu: „Sannarlega er Drottinn upp risinn og hefur birst Símoni.“
Hinir sögðu þá frá því sem við hafði borið á veginum og hvernig þeir höfðu þekkt hann þegar hann braut brauðið.






 


  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut