Viðtalið: Gagnleg verkfæri á trúargöngunni

13. apríl 2021

Viðtalið: Gagnleg verkfæri á trúargöngunni

Trú, von og kærleikur - sterk íhugunartákn

Kyrrðarbænasamtökin voru stofnuð hér á landi árið 2013. Tilgangur þeirra er að skapa samfélag um kyrrðarbæn, að stuðla að útbreiðslu bænarinnar, bjóða upp á kyrrðardaga, lesefni og stuðning við iðkendur bænarinnar.

Starf samtakanna hefur veri blómlegt og það vakið töluverða athygli.

Nú síðast var opnuð Íhugunarkapella á vegum Kyrrðarbænasamtakanna og starfsemi í kringum hana er með öðrum hætti en í kringum aðrar kapellur og guðshús – en þó lík í mörgu þegar betur er að gáð.

Kirkjan.is tók tali Bylgju Dís Gunnarsdóttur, formann Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi, og spurði einfaldlega í byrjun hvað Íhugunarkapellan væri.

Nú eða ekki

„Við í Kyrrðarbænasamtökunum höfum lengi stefnt á að byrja með Íhugunarkapellu á „Zoom“ en móðursamtök okkar í Bandaríkjunum hafa verið með slíka kapellu undanfarin ár,“ segir Bylgja Dís. Hún segir að það hafi runnið upp fyrir þeim í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins að ef nú væri ekki rétti tíminn til að vera með bænastundir á „Zoom“ þá væri vandséð hvenær hann yrði.

„Við ákváðum að opna dyr kapellunnar á hverjum virkum degi frá kl. 17.30 – 18.15,“ segir Bylgja Dís. „Móttökurnar voru vonum framar og svo gekk í rúmar sjö vikur. Skírdagur, föstudagurinn langi og annar í páskum duttu ekki einu sinni út. Á þessu tímabili mættu á bilinu fimmtán til þrjátíu manns á hverjum degi í kapelluna.“

Bylgja Dís segir að Íhugunarkapellan sé komin til að vera. „Hún er opin á hverjum mánudegi, þriðjudegi og miðvikudegi, ýmist eingöngu á „Zoom“ eða hvorutveggja í kirkjunum og á „Zoom“, allt eftir því sem sóttvarnareglur leyfa. Þá eru nokkrir í kirkjunni ásamt leiðbeinanda sem er með opna tölvu og talar einnig til þeirra sem mæta á „Zoom“. Líklega hafa um 100 manns í heildina heimsótt kapelluna.“

Bylgja Dís telur Íhugunarkapelluna opnar nýja möguleika fyrir fólk út á landi, Íslendinga í útlöndum og fólk sem á einhverra hluta vegna á ekki heimangengt.

Fyrirkomulagið
Dagskrá kapellunnar hefst á Kyrrðarbæn, þar sem setið er í nærveru Guðs í þögn í tuttugu mínútur. Eftir Kyrrðarbænina tekur biblíuleg íhugun við, leidd íhugun, Fagnaðarbæn eða upplestur. Í lokin er svo farið með bæn og Faðir vor. Samhugurinn er sterkur, hjörtun slá í takt. Fyrirheit Krists um að þar sem tveir eða þrír séu samankomnir í hans nafni þá sé hann mitt á meðal þátttakenda á einnig við um netheima – líka þar sameinar andinn fólk.

Hvers vegna er setið í þögn?

„Vegna þess að Kyrrðarbænin er íhugunaraðferð. Hún er bæn handan hugsanna, orða og tilfinninga. Thomas Keating sagði að þögnin væri fyrsta tungumál Guðs og með því að sitja í þögn játum við nærveru Guðs og verkan heilags anda innra með okkur,“ segir Bylgja Dís.

„Í þögninni og nærverunni biðjum við fyrir öllum í fortíð, nútíð og framtíð án orða. Já, fyrir þeim sem eiga um sárt að binda og þeim sem eru í framlínunni eða hafa verið okkur ofarlega í huga - og í raun fyrir plánetunni okkar allri. Í þögninni er það Andinn sem biður innra með okkur.“ Hún segir að þessar stundir hafi veitt styrk, frið og tilgang á tímum sem eigi sér ekki hliðstæður á okkar lífstíð.

Hópurinn sem sækir Íhugunarkapelluna er mjög fjölbreyttur. Þar kemur saman fólk með mismunandi trúarbakgrunn, prestar, djáknar, leikskólakennarar, verkafólk, skrifstofufólk, kennarar og verslunarfólk víðsvegar af landinu og aldursbilið er nokkuð breitt.

Hlekk inn á Íhugunarkapelluna má finna á Feisbókar-síðu Kyrrðarbænarinnar.

Starfsemin er blómleg

Það er ekki aðeins að Íhugunarkapellan hafi verið opnuð eins og rætt var um hér að framan heldur standa Kyrrðarbænasamtökin einnig fyrir námskeiði sem kallast Lifandi logi. Fræðslu- og kærleiksþjónustusvið Biskupsstofu styrkti námskeiðið og var boðið upp á það í fyrsta sinn hér á landi í vetrarbyrjun.

Lifandi logi
Um er að ræða sjö daga námskeið þar sem andlegu málin eru brotin til mergjar. Námskeiðið hefur staðið frá september og lýkur nú 17. apríl og er leitt af þar til bærum leiðbeinendum frá Contemplative Outreach. Á námskeiðið eru skráðir 51 þátttakandi. Hist er á „Zoom“ á laugardögum frá kl. 12.00 -17.00. Kyrrðarbænin er iðkuð tvisvar yfir daginn, tveir fyrirlestrar fluttir og svo er skipt í hópa þar sem umræður eiga sér stað um umfjöllunarefnið.

Fyrirlestrarnir fara fram á ensku en Nína Leósdóttir, guðfræðingur, þýðir glærur og allt úthendi yfir á íslensku sem gerir efnið mun aðgengilegra.

Á námskeiðinu hafa ýmis umfjöllunarefni verið tekin fyrir eins og hvernig hægt sé að dýpka Kyrrðarbænaiðkunina; þá biblíuleg íhugun, ástand mannsins, sálfræðimeðferð Guðs og fleira.

„Það hefur verið mikil ánægja með námskeiðið,“ segir Bylgja Dís, „og ljóst er að stór hluti hópsins mun taka þátt í framhaldsnámskeiði, Lifandi loga 2, næsta vetur. Ellefu prestar hafa tekið þátt í námskeiðinu, sjö djáknar og fólk úr ýmsum öðrum starfsstéttum.

Í lokin spyr kirkjan.is hvort vitað sé að prestar og djáknar nýti sér tækni eða aðferð Kyrrðarbænarinnar.

„Það eru talsvert margir prestar og djáknar sem iðka Kyrrðarbæn þó að ég hafi ekki nákvæma tölu yfir þau,“ segir Bylgja Dís. „Í fljótu bragði koma þó upp í huga minn um tuttugu nöfn presta og djákna sem eru mjög trúfastir iðkendur. Margir hverjir sýna Kyrrðarbæninni hollustu með iðkun hennar kvölds og morgna en svo eru aðrir grípa til hennar endrum og eins.“

Um Kyrrðarbænina
Kyrrðarbænin felur í sér samband við Guð og er um leið aðferð til að rækta það samband og þess vegna er dagleg iðkun æskileg. Ástundunin kemur af stað umbreytandi ferli sem leiðir til aukinnar sjálfsþekkingar, auðgar og dýpkar samband okkar við Guð, menn og sköpunina alla og leiðir einnig til aukins trúarþroska. Kyrrðarbænin og þær iðkanir sem henni tengjast eru því gríðarlega gagnleg verkfæri á trúargöngunni sem getur gert okkur kleift að lifa frá okkar sanna sjálfi og að leyfa Heilögum Anda að leiða okkur í okkar daglega lífi. 

„Ég myndi því óhikað segja að Kyrrðarbænin geti verið öllum líflína eða akkeri í krefjandi störfum,“ segir Bylgja Dís.

Útgefið efni

Það dylst engum að mikill kraftur er í starfi Kyrrðarbænasamtakanna. Um það ber vott útgefið efni og því spyr kirkjan.is hvort til standi að gefa út meira efni.

„Já, það er mikilvægur þáttur í starfsemi Kyrrðarbænasamtakanna að þýða efni henni tengt,“ segir Bylgja Dís. Hún segir að helsti kennimaður Kyrrðarbænarinnar, Thomas Keating, hafi gefið út fjölda bóka og finna megi mörg myndbönd með honum á youtube.

„Nú stendur til að texta talsvert af þessum myndböndum til að gera efnið enn aðgengilegra,“ segir Bylgja Dís. „Nína Leósdóttir hefur þýtt DVD-disk sem er til sölu hjá samtökunum og nefnist Boð frá Guði en önnur myndbönd verður hægt að nálgast ókeypis á netinu.“ Hún bætir því við að sr. Karl Sigurbjörnsson hafi nú þegar þýtt talsvert af myndböndum og það standi til að setja textann inn á þau í haust. „Nína er að vinna við þýðingu á bók eftir Keating, þannig að það er margt í vændum,“ segir Bylgja Dís.

Þá eru Kyrrðarbænasamtökin með fjölmörg námskeið og kyrrðardaga í gangi í hinum ýmsu kirkjum, á „Zoom“  og í Skálholti og á þeim fær fólk alls konar námsgögn sem hafa verið þýdd á íslensku.

Spennandi verður að fylgjast með þessu öfluga starfi Kyrrðarbænasamtakanna sem hefur svo sannarlega náð að skjóta rótum í kristilegum jarðvegi hér á landi – og verið tekið fagnandi.

hsh







  • Frétt

  • Guðfræði

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Námskeið

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Fræðsla

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut