Vorboðinn aftur

20. apríl 2021

Vorboðinn aftur

Fermingarbörn á Akranesi 18. apríl ganga fram hjá safnaðarheimilinu Vinaminni eftir fermingu í kirkjunni - mynd: hsh

Kirkjan.is ræddi við nokkra presta um fermingarnar og var fyrri hluti viðtalanna birtur í gær. 

Prestar eru mjög ánægðir að vel hefur tekist með fermingarnar enda þótt þeir hafi þurft að aðlaga sig að hinum breyttu aðstæðum sem kórónuveirufaraldurinn veldur og sóttvarnareglum sem honum eru settar til höfuðs.

Fermingar eru víða afstaðnar og aðrir sæta færis með dag og stund í samráði við foreldra og forráðamenn fermingarbarnanna. 

Kirkjan.is forvitnaðist líka um tilhögun fræðslunnar, hvaða efni væri notað og hvernig væri að henni staðið. Fermingarfræðsla er skóli eða námskeið sem krefst vinnu og ábyrgðar. Margs konar fræðsluefni er notað og sýna margir prestar mikla hugkvæmni þegar kemur að því að miðla fagnaðarerindinu. 

En þetta höfðu þessir prestar að segja um stöðuna. 

Sr. Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur á Selfossi
„Nú þegar er búið að ferma fjörutíu börn en fimmtíu og fimm bíða eftir því að fermast helgina 8. og 9. maí í Selfosskirkju,“ segir sóknarpresturinn á Selfossi, sr. Guðbjörg Arnardóttir.

En Árborgarprestakall er stórt og þar er að finna margar kirkjur. Sr. Guðbjörg: „Í Villingaholtskirkju fermast fimm á hvítasunnudag og fimm á annan hvítasunnudag í Hraungerðiskirkju; og tvö börn á hvítasunnudag í Gaulverjabæjarkirkju. Í Stokkseyrarkirkju fermast tvö börn í maí og sömuleiðis tvö börn í Eyrarbakkakirkju í maí.“

Í prestakallinu eru 118 fermingarbörn í mörgum sóknum. Fermingum mun ljúka í ágústmánuði. „Við höfum ekki farið í að hólfaskipta í Selfosskirkju og við höfum fermt átta börn að hámarki í einu og þá er ekki rými fyrir nema tvo að fylgja hverju barni,“ segir sr. Guðbjörg.

Fermingarefni sem þau nota er af ýmsum toga en þó ekki nein ákveðin bók. Þau styðjast við margt sem hefur verið gefið út. Venjulega er farið með fermingarbörnin í Vatnaskóg en svo var reyndar ekki gert þetta árið heldur farin dagsferð í Skálholt. Fermingarfræðslan hefst á tveggja til þriggja daga námskeiði á haustin.
Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur í Lindakirkju í Kópavogi
Fermingarbörnin í Lindasókn voru 192 að sögn sóknarprestsins, sr. Guðmundar Karls Brynjarssonar.

„Nú eru 130 þegar fermd og öllum fermingum vorsins lokið,“ segir hann. Ein athöfn verður í þriðju viku ágústsmánaðar og tvær í lok mánaðarins. Sr. Guðmundur Karl vonast til að það verði jafnframt síðasti fermingardagur þessa árs hjá þeim. Fermingarathöfnunum var streymt og verður streymt ef aðstæður eru með þeim hætti í samfélaginu vegna farsóttarinnar.

„Uppistaðan í fermingarkennsluefninu er Con Dios og sögur úr Nýja testamentinu,“ segir sr. Guðmundur Karl.

„Í venjulegu ári mæta börnin einu sinni í viku í fræðslu en annað hvort skiptið sem þau mæta er helgistund,“ segir sr. Guðmundur Karl. „Við erum ekki með skyldumætingu í messur en fimm sinnum yfir veturinn eru guðsþjónustur haldnar þar sem stílað er sérstaklega inn á fermingarbörn og fjölskyldur þeirra. Þá eru þau boðin sérstaklega velkomin og taka mörg hver virkan þátt messunni með tónlistarflutningi og upplestri svo eitthvað sé nefnt.“

Sr. Jarþrúður Árnadóttir, prestur á Þórshöfn
„Fermingarbörn mín eru þrjú,“ segir sr. Jarþrúður Árnadóttir, prestur á Þórshöfn, „og þau verða öll fermd 8. ágúst.“ Hún segist að sjálfsögðu ekki vita hvernig staðan verði í ágúst en hún verður bara metin í ljósi sóttvarnaaðgerða í samfélaginu. Sr. Jarþrúður segist hafa notast við Con Dios í fermingarfræðslunni og einnig AHA!-efnið.

Sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur á Seltjarnarnesi
„Fermingarbörnin eru 34 í ár,“ segir sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur á Seltjarnarnesi. „Fermt verður í tveimur hólfum þann 22. apríl, sumardaginn fyrsta.“ Þá var fermt á pálmasunnudag og 17. apríl. Hann segist styðjast við eigið efni í fermingarfræðslunni.

Sr. Ninna Sif Svavarsdóttir, sóknarprestur í Hveragerði
„Fermingarbörnin eru 33,“ svarar sr. Ninna Sif Svavarsdóttir, sóknarprestur í Hveragerði, þegar kirkjan.is innir hana eftir fjölda barnanna.

Hún segir að fermingum verði lokið um hvítasunnu nema að „eitthvað stórkostlegt breytist hvað varðar samkomutakmarkanir.“ Sr. Ninna Sif segir að hún sé heppin með það að kórinn sé í „sérhólfi“ hjá þeim í Hveragerðiskirkju. „Fjórir til fimm geta því fylgt hverju fermingarbarni því að ég fermi fjögur til fimm börn í einu og þess vegna eru stundum fleiri en ein athöfn á hverjum degi.“ Hún segir það vera ómögulegt að færri en fjórir fylgi hverju barni á þessari hátíðsstundu sem fermingin er. Margar fjölskyldur séu samsettar og því sé þetta lágmark.

„Ég styðst ekki við eina ákveðna námsbók í fermingarfræðslunni heldur nýti mér ýmislegt sem ég hef viðað að mér gegnum tíðina,“ segir sr. Ninna Sif þegar hún er spurð um fermingarfræðsluefnið. Hún segist leggja höfuðáherslu á biblíusögurnar og hagar því svo til að börnin fái að minnsta kosti að heyra eina biblíusögu í hverri samveru og gjarnan einhvers konar heimfærslu. „Ég legg sömuleiðis mikla áherslu á upplifunarþáttinn, bæna - og kyrrðarstund í kirkjunni.“ Þá nýtir hún sér efni úr Con Dios og AHA! kassanum, og svo ýmis myndbönd. „Svo er líka smá utanbókarlærdómur,“ segir hún í lokin.

Sr. Aðalsteinn Þorvaldsson, sóknarprestur í Grundarfirði
„Fermingarbörnin eru að þessu sinni fimm,“ segir sr. Aðalsteinn Þorvaldsson, sóknarprestur í Grundarfirði. „Fermt verður á hvítasunnunni.“ Fermingarfræðsluefnið sem hann styðst við er Con dios með ýmsum viðbótum.

Sr. Sigríður Munda Jónsdóttir, sóknarprestur í Þorlákshafnarprestakalli
„Tuttugu og fimm börn fermast í prestakallinu hjá mér,“ segir sr. Sigríður Munda Jónsdóttir, sóknarprestur í Þorlákshafnarprestakalli.

Ekki er komið í ljós hve margar athafnirnar verða en þegar hafa verið fermd sjö ungmenni. Þetta árið verður fermt í öllum þremur kirkjum prestakallsins. „Síðasta fermingin verður á sjómannadaginn. Flest fermast þrjú börn í hverri athöfn og mega þau taka með sér sex gesti“ segir sr. Sigríður Munda og þá aðeins fleiri ef fermingarbörnin eru eitt eða tvö, „en við fylgjum sóttvarnareglunum og erum aldrei fleiri en þrjátíu.“

Fermingarfræðsluefnið sem sr. Sigríður Munda notar er AHA!, Con Dios, og þá efni frá fermingarfraedsla.is. Einnig efni frá Biblíufélaginu og tónlistarmyndbönd af youtube.
Sr. Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju
„Þau voru 94 fermingarbörnin sem sóttu fræðsluna hjá okkur en meira en tíu munu fermast annars staðar en hjá okkur því að mörg þeirra hafa tengsl við Þingeyjarsýslurnar og ætla að fermast þar,“ segir sr. Signdri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju.

Hann segir óvíst hvenær fermingum muni ljúka en til hafi staðið að þeim yrði lokið í byrjun maí en sú verði ekki raunin. Þær síðustu verði í ágúst. Sr. Sindri segir að þau hafi boðið upp á margar fámennar athafnir, fjögur börn í hópi – fimm fylgi þá hverju barni.

Á sunnudaginn voru fjórar fermingar í Glerárkirkju og útlit fyrir svipaðan fjölda um næstu helgi – jafnvel fleiri en um þá síðustu.

„Lítill hluti foreldra vill fresta athöfninni,“ segir sr. Sindri Geir, „börnin segja líka við okkur að þau vilji bara fá að fermast, veislan geti beðið enda sé hún ekki aðalmálið. Það var gaman að heyra það.“
Sr. Sigurður Arnarson, sóknarprestur í Kópavogskirkju
„Fermingarbörnin eru 39 að tölu og mun fermingum ljúka í lok ágústsmánaðar,“ segir sr. Sigurður Arnarson, sóknarprestur í Kópavogskirkju. „Sóttvarnareglur hafa kveðið á um að hámark þrjátíu mættu vera viðstaddir hverja athöfn – máttu vera hundrað í þeirri fyrstu.“ Fermingarathafnirnar verða tíu í stað þriggja.

Fermingarfræðsluefnið? „AHA! og Con Dios – svo Kirkjulykillinn,“ segir sr. Sigurður.
Sr. Þór Hauksson, sóknarprestur í Árbæjarkirkju
Svörin voru stutt og hnitmiðuð: „Börnin eru 115,“ segir sr. Þór, „stefnt á fermingu 13. maí og þá mega fjórir til sex koma með hverju barni.“

Fermingarfræðsluefnið: Con Dios.
Sr. Sigurður Jónsson, prestur í Áskirkju
„Fermingarbörnin sem fræðst hafa í vetur eru sautján, en eitt þeirra fermist úti á landi,“ segir sr. Sigurður Jónsson, prestur í Áskirkju, „fermingum mun ljúka á hvítasunnudag, 23. maí, ef Guð lofar.“

Fermingarefnið sem þau í Áskirkju nota er Con Dios, einnig Kirkjulykillinn að viðbættu heimagerðu efni sem eru verkefni upp úr efni Biblíunnar.
Sr. Alfreð Örn Finnsson, prestur á Djúpavogi
„Þau eru þrjú, fermingarbörnin,“ segir sr. Alfreð Örn Finnsson, prestur á Djúpavogi. „Búið er að ferma eitt barn og stefnt að því að ferma á sjómannadaginn eða þjóðhátíðardaginn.“ Gert er ráð fyrir því að átta manns fylgi hverju barni eins og reglum er nú háttað – en þær geta breyst.

Fermingarfræðsluefnið er AHA! og Con Dios, einnig Biblían.
Sr. Guðmundur Örn Jónsson, sóknarprestur í Vestmannaeyjum
„Fermingarbörnin eru fjörutíu hjá okkur í Eyjum,“ segir sr. Guðmundur Örn Jónsson, sóknarprestur í Vestmannaeyjum, „og reiknum með því að síðasta ferming fari fram á hvítasunnudag ef ekkert truflar það.“ Vegna þrjátíumanna fjöldatakamarkana verða þrjú til fjögur börn fermd í einu og því verða margar fermingar á hverjum degi.

Sr. Guðmundur Örn segir að fermingarfræðsluefnið sem þau nota sé Con Dios að viðbættu efni frá þeim prestunum.
Sr. Jón Ómar Gunnarsson, prestur í Fella- og Hólakirkju
„Fermingarbörnin eru fimmtíu hjá okkur,“ segir Sr. Jón Ómar Gunnarsson, prestur í Fella- og Hólakirkju. Hann segir síðustu ferminguna verða í lok ágústmánaðar. „Við höfum fermt fjögur börn hið mesta í einu í athöfn og þá hafa fimm mátt fylgja hverju barni,“ segir sr. Jón Ómar. Fermingarfræðsluefnið?

„Við studdumst við Líf með Jesú, Con Dios og nýttum okkur svo biblíu-appið – og svo náttúrlega Nýja testamentið,“ svarar sr. Jón Ómar.

Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir, sóknarprestur á Húsavík
„Á skírdag fermdust fjórtán börn í fimm athöfnum hjá okkur,“ segir sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir, sóknarprestur á Húsavík. „Framundan eru tvær fermingarathafnir núna á laugardaginn 24. apríl og síðan stefnum við á síðustu athafnirnar á hvítasunnudag.“

Hún segir að hvert fermingarbarn hafi mátt taka með sér sex til sjö gesti en það hafi auðvitað farið eftir fjölda fermingarbarna við hverja athöfn.

Fermingarnámsefnið? „Sjálf hef ég útbúið möppu með efni og fermingarbörnin safna í hana jafnóðum yfir veturinn. Við notum Nýja testamentið í öllum tímum, þar sem ég vinn með einhverja biblíusögu í hverjum tíma og tengi við líf okkar í dag. Ég með glærur(powerpoint-fræðslu) sem hef útbúið og einnig hef ég stuðst við nokkrar kafla úr AHA! bókinni.“

Sr. Sólveig Halla segir að samtal, leikir og sameiginleg hressing eins og ávaxtasafi, ávextir eða kex, séu líka mikilvægur þættir í hverri samveru. Þá sé það hluti af fermingarfræðslunni að aðstoða í sunnudagaskóla og messu. Í vetur náðu þó ekki öll börn að taka þátt í sunnudagaskóla eða messu vegna þess að kórónuveirufaraldurinn brá alloft fæti fyrir þann þátt hefðbundna kirkjustarfsins.

Sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur í Neskirkju
„Við erum með 75 fermingarbörn og þar af höfum við þegar fermt 30 í litlum athöfnum þar sem börnin voru frá 1 – 5,“ segir sr. Steinunn Arnþrúður. „Við settum fimm sem hámark og þá gátu fjögur fylgt hverju barni.“ Hún segir að einn prestur sé við athöfnina, kirkjuvörður, organisti og tvö sem leiði söng.  

Sr. Steinunn Arnþrúður segir að þau stefni að því að ljúka fermingum að mestu á hvítasunnu og þau gera ráð fyrir nokkrum athöfnum þá helgi, bæði á laugardeginum og sunnudeginum. Þá verði einhverjir eftir og hafi sumir talað um aðra sunnudaga í vor eða sumar, en aðrir vilji bíða.

„Við höfum notað eigin efni og prentum á hverju ári kennsluhefti,“ svarar sr. Steinunn Arnþrúður þegar spurt er um fermingarkennsluefnið.

hsh

 

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Í Akraneskirkju - mynd: hsh

Auglýst eftir presti

12. maí 2021
Garða- og Saurbæjarprestakall
Hjálparstarf kirkjunnar rekur Skjólið

Starfið gengur vel

11. maí 2021
...konurnar ánægðar í Skjólinu
Hafnarfjarðarkirkja í gær: Frá vinstri: sr. Jón Helgi Þórarinsson, sr. Hans Guðberg Alfreðsson og sr. Jónína Ólafsdóttir - mynd: hsh

Innsetning

09. maí 2021
...hvað er nú það?