Organisti fær verðlaun

8. maí 2021

Organisti fær verðlaun

Stefán R. Gíslason, handhafi Samfélagsverðlauna Skagafjarðar 2021 - Mynd: Feykir/Páll Friðriksson

Það er mikil gæfa fyrir hvert samfélag að hafa á að skipa öflugu tónlistarfólki. Sérstaklega á þetta við um landsbyggðina. Tónlist fær öll hjörtu til að slá og er sem alþjóðlegt tungumál.
Víðast hvar úti á landsbyggðinni er kröftugt tónlistarlíf og mörg eru þau er koma að því og telja ekki vinnustundir sínar sem varið er til tónlistarstarfsins.

Skagafjörður hefur löngum verið heppinn með tónlistarfólk. Enda eru syngjandi Skagfirðingar öflugt vörumerki þeirra sem og hestar og fé. Að ógleymdu Kaupfélaginu.

Stefán R. Gíslason hefur haft forystu í tónlistarmálum þeirra Skagfirðinga um áratuga skeið. Hann hefur verið aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Skagfirðinga, stjórnað kórum og söngflokkum, leikið á ýmis hljómborð og orgel. Nýlega hætti hann tónlistarkennslu og skólastjórn í Tónlistarskólanum enda búinn að fást við það í hartnær fjóra áratugi. En áfram mun hann sinna tónlistarmálum í sinni sveit.

Þær eru margar kirkjurnar í Skagafirði og kirkjustarfið gott. Þar er organistinn ómissandi. Stefán stjórnar karlakórnum Heimi, tveimur kirkjukórum og leikur á kirkjuorgel. Hann stjórnar einnig Álftagerðisbræðrum og hefur gert það frá upphafi þess söngflokks og verið í forystu um marga viðburði á vegum Sönglaga á Sæluviku.

Fyrir nokkru fékk hann Samfélagsverðlaun Skagafjarðar. Ingibjörg Huld Þórðardóttir afhenti Stefáni verðlaunin fyrir hönd atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar.

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2021
Þetta var í sjötta sinn sem Samfélagsverðlaun Skagafjarðar voru afhent. Þau eru veitt árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði sem þykir standa sig afburðavel í að efla skagfirskt samfélag. Auglýst var eftir tilnefningum og bárust rúmlega 20 tilnefningar í ár. Það var því úr vöndu að ráða fyrir atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd sveitarfélagsins að velja úr mörgum góðum kostum.

Kirkjan.is sló á þráðinn til Stefáns og byrjaði á því að óska honum til hamingju með samfélagsverðlaunin.

Og spyr náttúrlega hvenær hann hafi fyrst leikið á orgel

„Það var við messu í Víðimýrarkirkju 1984,“ svarar Stefán „orgelið er mitt hljóðfæri og mér líður best við það.“ Hann leikur á orgel við þrjár kirkjur, Reynistaðakirkju, Glaumbæjarkirkju, og Víðimýrarkirkju. Lengi var Hofsstaðarkirkja á listanum en hann er nýhættur að leika þar. „Svo leik ég mikið við athafnir í öllum firðinum,“ bætir hann við.

Stefán hefur farið með kóra sína í söngferðir innanlands og til útlanda.

„Sú ferð sem stendur upp úr er þegar Karlakórinn Heimir var valinn til þess að fara á heimssýninguna í Hannover aldamótaárið 2000, Expo 2000,“ segir hann, „það var mikill heiður og ógleymanleg ferð.“

Það eru framundan miklar annir hjá tónlistarfrömuðinum Stefáni R. Gíslasyni því hann er vinsæll og mjög svo vel látinn kórstjóri og undirleikari. „Ég verð áfram í kirkjustarfinu,“ segir hann hress í bragði.

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar sýna svo sannarlega að frábært og fjölbreytilegt tónlistarstarf Stefáns er vel metið. Kirkjan.is óskar honum enn og aftur til hamingju með verðlaunin og veit að allt kirkjufólk tekur undir það þakklátum huga – sem og aðrir.

Hver er verðlaunahafinn, Stefán R. Gíslason?
Hann er fæddur á Sauðárkróki 1954 og ólst upp á Miðhúsum í Akrahreppi í Skagafirði. Hann hefur tekið sér margt fyrir hendur. Fór á vertíð í Vestmannaeyjum, var mjólkurbílstjóri um hríð og átti vöruflutningafyrirtæki og ók vörubílnum sjálfur.

En tónlistin bjó í honum – faðir hans Gísli Jónsson var í kirkjukórum svo áratugum skipti svo ekki var tónlistargáfuna langt að sækja. Móðir hans, Guðrún Stefánsdóttir, frá Syðri-Bakka í Kelduhverfi í Norður-Þingeyjarsýslu var líka umvafin tónlist og allt hennar fólk.

Stefán var ungur að aldri – eða ellefu ára gamall – þegar spilamennska á böllum dró hann til sín. Síðar fór Stefán í Tónlistarskóla Skagafjarðar, Tónlistarskóla Akureyrar og Tónskóla þjóðkirkjunnar. Þá tók hann einleikarapróf í orgelleik.

Hann hefur verið forystumaður í tónlistarlífi Skagfirðinga um áratugaskeið og komið að flestum tónlistarviðburðum þar í sveitum. Stjórnað kórum, leikið á orgel og píanó, kennt og stýrt tónlistarskóla. Farið í fjölmargar ferðir innanlands sem utan með Karlakórnum Heimi, Álftagerðisbræðrum og kirkjukór Glaumbæjarprestakalls. Í þeim síðastnefnda eru um fjörutíu manns og hefur Stefán stjórnað honum frá árinu 1984. Stefán hefur tekið þátt í útgáfu fjölmargra geisladiska með kórunum sínum.

Og áhugamálin fyrir utan tónlistina? Bílar, veiðiskapur, stangveiði og skotveiði.

Eiginkona hans er Margrét S. Guðbrandsdóttir, og eignuðust þau fjórar dætur.

hsh


Stefán R. Gíslason við orgel Glaumbæjarkirkju fyrir nokkrum árum 


  • List og kirkja

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Viðburður

  • Frétt

Frá fundi aukakirkjuþings 2021 - Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings í ræðustól - mynd: hsh

Aukakirkjuþingi 2021 frestað

22. jún. 2021
...fjármálaumræða setti svip sinn á þingið
Biskup Íslands flytur blessun í lok vígslunnar - mynd: hsh

Fjölmenni við vígsluna

22. jún. 2021
...fallegt veður á Esjubergi
Kirkjuþingsfulltrúar á aukakirkjuþinginu - mynd: hsh

Aukakirkjuþing sett

21. jún. 2021
...þinginu lýkur síðdegis í dag