Vel heppnuð sumarhátíð

9. júní 2021

Vel heppnuð sumarhátíð

Í Grensáskirkju í gær - sr. María Guðrúnar Ágústsdóttir stjórnaði sumarhátíð eldri borgara - Jónas Þórir Þórisson, kantor, við píanóið - mynd: hsh

Það var margt um manninn í Grensáskirkju í gær þegar sumarhátíð eldri borgara í Fossvogsprestakalli var sett með pompi og prakt í Grensáskirkju.

Sr. María Guðrúnar Ágústsdóttir, prestur, bauð gesti velkomna og fagnaði því hve margir voru komnir. Það væri augljóst merki um að kórónuveiran væri á undanhaldi.

Þetta var söng- og helgistund. Sr. María leiddi stundina. Daníel Ágúst Gautason, djákni, las ritningarlestur, og Hólmfríður Ólafsdóttir, djákni, flutti ljómandi góða hugleiðingu og náði vel til fólksins.

Gleðigjafinn og tónlistarsnillingurinn Jónas Þórir Þórisson lék á orgel og píanó. Honum tekst að töfra fram úr hjörtum allra einlæga tóna og bros.

Þegar stundinni var lokið inn í kirkjunni flutti fólk sig yfir í safnaðarheimilið þar sem biðu góðar veitingar. Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir, ávarpaði fólkið og bauð það velkomið í hressinguna. Síðan sté sóknarpresturinn, sr. Pálmi Matthíasson, á svið og flutti snjalla ræðu þar sem hann sagði frá þátttöku sinni í hinni miklu bólusetningarröð við Laugardalshöllina sem hefur verið í fréttum. Var gerður góður rómur að þessari ræðu og hlegið dátt.

Síðan var hressilegur fjöldasöngur.

Með sanni má segja að gleðin hafi svifið yfir eldri borgurunum og augljóst mál að þeir hafa lengi þráð að koma saman. Það var glatt á hjalla hjá þeim og feginleiki og birta skein úr augum þeirra. Þau sem kirkjan.is gaf sig á tal við voru á einu máli um að nú væri kórónuveirutíð senn að baki og fullt tilefni til að horfa bjartsýnum augum til framtíðar. Þetta hefði vissulega verið erfiður tími, sögðu þau, en gleðin væri líka mikil yfir því að senn sæi fyrir endann á þessum undarlega tíma.

Kannski hefur því ekki verið gefinn nægilegur gaumur að eldra fólk hefur sýnt ótrúlega seiglu vegna þess að það hefur að mörgu leyti búið við meiri einangrun en aðrir á kórónuveirutíð. Auðvitað hefur því verið sinnt eins vel og hægt er og reynt að vernda það gegn veirunni með sem tryggilegustum hætti.

Stundin í Grensáskirkju sýndi með óyggjandi hætti að fólk var orðið þyrst í að hitta annað fólk og taka þátt í kirkjustarfi.

Fleiri söfnuðir hyggjast efna til sumarstunda með eldriborgurum áður en langt líður á sumarið.

Þjóðkirkjan sinnir starfi meðal eldri borgara af miklum krafti og býður víðast hvar upp á fjölbreytilega dagskrá. Allt of sjaldan er það dregið fram í dagsljósið. Í þessu sambandi má nefnda Eldriborgararáð Reykjavíkurprófastsdæma. Lengi hefur það verið eftirtektarvert hve eldriborgarastarf hefur verið öflugt í Bústaða- og Grensássóknum.

hsh


Hátt í hundrað manns sóttu sumarhátíðina