EItt og annað fellt niður

15. júní 2021

EItt og annað fellt niður

Forsíða gamallar vítubókar presta - mynd: hsh

Það eru ekki aðeins ýmis nýmæli sem fylgja nýsamþykktum þjóðkirkjulögum þegar þau taka gildi 1. júlí heldur verða felld niður ýmis gömul lög og gamlar réttarreglur. Hér á kirkjan.is var minnst fyrir nokkru á að tilskipun um húsvitjun yrði numin úr gildi.

Eitt af því sem fellur úr gild er erindisbréf handa biskupum frá 1. júlí 1746. Þar segir margt um skyldur biskups og meðal annars í vísitasíum. 

Löngum hafa prestsefni skrifað stutt æviágrip sitt, eða vítu (lat. vita), í þar til gerða bók eða samkvæmt 45. grein. erindisbréfsins til biskupa frá 1746:

Jafnskjótt sem einhver hefur fengið veitingu fyrir prestakalli, skal hann þegar snúa sér til biskups, sem … vígir hann og eiðfestir og fær honum vígslubréf til þess safnaðar, er hann á að gæta. Þó skal slíkur kandidat rita ævisögu sína á latínu í þar til gerða bók, er geymd skal með skjölum stiftisins.

Þessu hefur verið haldið við lýði og langflestir prestar hafa skrifað stutt æviágrip sitt í vítubækur sem varðveittar eru. Þá var og tekin upp vítubók djákna í anda vítubókar prestanna.

Í erindisbréfinu var kveðið á um að æviágripið skyldi ritað á latínu. Það var næsta auðvelt þegar latínan skipaði veglegan sess í menntakerfi landsins. En hún hvarf. Sá sem skrifaði síðastur æviágrip sitt á latínu í vítubókina var sr. Einar Jónsson (1853-1931), og það var 1. september 1879, og skyndilega án nokkurra skýringa kemur tæpu ári síðar sr. Ólafur Ólafsson (1855-1937) og skrifar sitt æviágrip á íslensku þann 23. ágúst 1880. Síðan skrifar hver maðurinn á fætur öðrum á ástkæra ylhýra málinu - svo er að minnsta kosti að sjá í fljótu bragði.

Nú kann einhver að spyrja hver hafi verið rótin að þessum skrifum. Þarna er vissulega um upplýsingasöfnun að ræða sem yfirvöldum hefur þótt gott að hafa í höndunum. Þessar upplýsingar voru síðar notaður sem grunnur að æviskrám presta og guðfræðingatala – og eru náma persónuupplýsinga.

Þegar æviágripin eru lesin má sjá að þau eru misnákvæm. Sumir rekja ættir sínar og ævi allrækilega sem og menntun en aðrir fara skjótt yfir sögu.

Nú lýkur þessum kafla 1. júlí n.k. – nákvæmlega 275 árum eftir að þetta erindisbréf var sett. En þar með er ekki loku fyrir það skotið að kirkjuþing setji einhverjar reglur um þetta og þá að sjálfsögðu í samræmi við persónuverndarlög.

Ef einhver vígður þjónn á eftir að skrifa æviágrip sitt í vítubókina þá er ekki seinna vænna að koma sér að því verki vilji hann eða hún fylla þann fríða flokk sem sagði sögu sína í stuttu máli – ritaða eigin hendi.

Samkvæmt 13. gr. nýrra þjóðkirkjulaga falla eftirtalin lög niður og réttarreglur

1. Lög um leysing á sóknarbandi, nr. 9/1882
2. Lög um innheimtu og meðferð á kirknafé, nr. 20/1890
3. Lög um umsjón og fjárhald kirkna, nr. 22/1907
4. Lög um sölu á prestsmötu, nr. 54/1921.
5. Lög um Strandarkirkju og sandgræðslu í Strandarlandi, nr. 50/1928
6. Lög um bókasöfn prestakalla, nr. 17/1931
7. Lög um utanfararstyrk presta, nr. 18/1931
8. Lög um kirkju- og manntalsbækur (sálnaregistur), nr. 3/1945
9. Lög um heimild handa ríkisstjórninni til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað, nr. 32/1963
10. Lög um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar, nr. 12/1982
11. Lög um Skálholtsskóla, nr. 22/1993
12. Tilskipun, er nákvæmar tiltekur það sem fyrir er mælt í reglugerð fyrir Ísland 17. júlí 1782, um tekjur presta og kirkna o.fl., frá 27. janúar 1847. 
13. Tilskipun um fardaga presta á Íslandi og um réttindi þau, er prestur sá, sem frá brauði fer, eður erfingjar hans og einkum ekkjan eiga heimting á, frá 6. janúar 1847.  
14. Bréf kansellíisins um tilhögun á kirkjuhurðum, frá 28. október 1828. 
15. Tilskipun um vald biskupa til að veita undanþágur frá fermingartilskipunum, frá 23. mars 1827.  
16. Tilskipun um ráðstafanir til viðurhalds á eignum kirkna og prestakalla á Íslandi, og því, sem þeim fylgir, frá 24. júlí 1789.  
17. Tilskipun um heimaskírn barna, frá 27. júlí 1771. 
18. Prestastefnusamþykkt um sjúkravitjanir  presta og aukatekjur, frá júlí 1764. 
19. Tilskipun um ferminguna, frá 25. maí 1759. 
20. Erindisbréf handa biskupum, frá 1. júlí 1746. 
21. Tilskipun um húsvitjanir, frá 27. maí 1746. 
22. Tilskipun um tilhlýðilegt helgihald sabbatsins og annarra helgra daga á Íslandi, frá 29. maí 1744.  
23. Konungsbréf (til biskupanna) um confirmation, frá 29. maí 1744. 
24. Forordning áhrærandi uppvaxandi ungdómsins confirmation og staðfesting í hans skírnarnáð, frá 13. janúar 1736.  

hsh


Nokkrar vítu-bækur

Hér að neðan má sjá hvernig nokkrir mætir kennimenn undirrituðu æviágrip sín í vítubókunum sem kirkjan.is hefur undir höndum - frá 1886 og til ársins 1952 - lesendur geta spreytt sig á því að finna út hvar þessir ágætu menn þjónuðu á sínum tíma en allir eru þeir fallnir frá.

 

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Biskup

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta