Vígt á sunnudaginn

18. júní 2021

Vígt á sunnudaginn

Útialtarið á Esjubergi, Kjalarnesi - mynd: hsh

Sunnudaginn 20. júní verður útialtarið á Esjubergi, Kjalarnesi, vígt af biskupi Íslands, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur. Með henni þjóna sóknarpresturinn sr. Arna Grétarsdóttir og sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur Kjalarnessprófastsdæmis. Kór Reynivallaprestakalls syngur og organisti er Guðmundur Ómar Óskarsson. Athöfnin hefst kl. 14.00.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur haft veg og vanda af útialtarinu og mun formaður félagsins, Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, flytja ávarp við vígsluna. 

Hátt í fjórir áratugir eru liðnir frá því að fyrst var hreyft þeirri hugmynd að koma upp á Esjubergi minnismerki í tilefni þess að sagnir herma að þar hafi verið reist fyrsta kirkjan á Íslandi og þá þegar fyrir kristnitöku árið 1000. Það var svo árið 2014 að var flutt tillaga á kirkjuþingi þjóðkirkjunnar af tveimur Kjalnesingum um að reist yrði útialtari að Esjubergi. Tillögunni var vel tekið á þinginu en henni var vísað heim í hérað. Sögufélagið Steini á Kjalarnesi tók svo málið í sínar hendur og hefur haft yfirumsjón með verkinu. Allar götur síðan hefur Sögufélagið Steini unnið jafnt og þétt að uppbyggingu útialtarisins. Þjóðkirkjan, ýmis félagasamtök, sjóðir og fjöldi einstaklinga hafa lagt fram fé til þess að þetta minnismerki yrði að veruleika. Stjórnarmenn í Sögufélaginu og velunnarar þess hafa lagt fram mikla vinnu við útialtarið. Fyrsta skóflustungan að útialtarinu var tekin 8. maí 2016.

Nú er útialtarið tilbúið og er mannvirkið hið glæsilegasta. Útialtarið er hringur, með fjórum inngöngum sem snúa til höfuðátta, veggir eru hlaðnir af hleðslumeisturum sem og sæti. Upp úr níu tonna altarissteininum rís tveggja metra keltneskur kross sem steyptur var af hagleiksmanninum Guðna Ársæl Indriðasyni. Krossinn ber ýmis keltnesk tákn og á ytra borði hans eru steinvölur sem börn úr Klébergsskóla tíndu úr fjörunni á Kjalarnesi sem og steinar frá skosku (keltnesku) eyjunum Lindisfarne og Iona.

Útialtarið á Esjubergi er einstakur kristinn helgistaður og þar verða eflaust ýmsar athafnir hafðar um hönd, eins og skírnir, hjónavígslur og helgistundir.

Hvar er útialtarið?
Þegar komið er upp úr Kollafirði blasir við skilti sem á stendur Kerhólakambur og einnig Útialtarið - og slaufumerkið um að þar sé að finna athyglisverðan stað til að skoða. Á vígsludaginn verður fánaborg við innkeyrsluna og ætti hún ekki að fara fram hjá neinum. Mælt er með því að fólk leggi bílum sínum til hliðar við innkeyrsluna og gangi að altarinu, en það eru 0.7 km. Spáð er ágætisveðri.

hsh

  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

Barokkbandið Brák

Aðventuhátíðir um allt land

29. nóv. 2024
...Bach á aðventunni í Hallgrímskirkju
Flokkarnir.jpg - mynd

Mikil jákvæðni í svörum flokkana við spurningum Þjóðkirkjunnar

28. nóv. 2024
Frambjóðendur í Alþingiskosningum svöruðu spurningum Þjóðkirkjunnar. Greina má töluverða jákvæðni gagnvart kirkjunni í svörum flokkana. Svör frambjóðenda eru hér birt í heild sinni.
Aðventukrans.jpg - mynd

Katrín Jakobsdóttir á aðventukvöldi

27. nóv. 2024
...í Bústaðakirkju