Þrettán kirkjur vísiteraðar

21. júní 2021

Þrettán kirkjur vísiteraðar

Vísitasíunn lauk með guðsþjónustu í Hóladómkirkju þar sem biskup Íslands prédikaði - mynd: Þorvaldur Víðsson

Það var rösklega gengið til verks við seinni hluta vísitasíunnar í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi en kórónuveirufaraldurinn truflaði hana svo eftir urðu tvö prestaköll prófastsdæmisins, Þingeyraklausturprestakall og Hofsóss- og Hólaprestakall.

Biskups Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, vísiteraði prestaköllin tvö dagana 14. júní til 18. júní að þjóðhátíðardeginum frádregnum en þá þurfti biskup venju samkvæmt að prédika í Dómkirkjunni í Reykjavík og taka þátt í athöfninni á Austurvelli.

Á þessum þremur dögum var farið á milli þrettán kirkna, rætt við sóknarnefndarfólk og kirkjurnar skoðaðar.

Byrjað var í Þingeyraklaustursprestakalli og Undirfellskirkja skoðuð og rætt við sóknarnefndarfólkið þar. Þar stendur til að gera við múr kirkjunnar og fleira.

Síðan var Þingeyraklausturskirkja skoðuð. Vel er hugsað um kirkjuna og fjöldi fólks sækir kirkjuna heim á hverju ári.

Þá var haldið í Svínavatnskirkju og hún skoðuð, fundað með sóknarnefndarfólki. Svínavatnssókn og Auðkúlusókn hafa samstarf um söngmálin.

Auðkúlukirkja var skoðuð og fundað með heimafólki. Kirkjan er opin yfir sumarið og gætir sóknarnefndarfólk að henni.

Guðsþjónusta var haldin í Blönduóskirkju, biskup prédikaði og sr. Ursúla Árnadóttir, þjónaði fyrir altari. Eyþór Franzson Wechner, organisti, lék á orgel og stjórnaði kórsöng. Fyrir guðsþjónustuna var fundað með sóknarnefndarfólki.

Munaskrá allra kirkna í Þingeyrarklaustursprestakalli var uppfærð þar sem við átti.

Þann 16. júní var helgistund í Fellskirkju og kirkjan skoðuð. Þar stendur margt til. Búið er að smíða glugga sem eru eins og hinir upprunalegu. Svo á að mála kirkjuna að utan. Fleira verður gert þessari fallegu kirkju til góða.

Barðskirkja í Fljótum var skoðuð og rætt við heimafólk. Nokkrir munir höfðu bæst við og þeir færðir til bókar.

Þá var haldið í Knappstaðakirkju og fundað með sóknarnefndarfólki. Kross kirkjunnar  á vesturstafni var endurnýjaður fyrir nokkru. Kirkjan hefur á stundum verið lánuð til helgihalds systurkirkna okkar kaþólskra og orþódoxra.

Stækkun kirkjugarðsins við Hofsóskirkju stendur yfir en kirkjan er í góðu standi. Barna- og æskulýðsstarfið er vel sótt.

Föstudaginn 18. júní var haldið að Hofskirkju en verulegar endurbætur hafa verið gerðar á henni. Kirkjan er nýlega komin í eigu Lilju Pálmadóttur. Allt er gert þar með miklum myndarbrag. Rætt hefur verið um að sameina sóknirnar, Hofsóssókn og Hofssókn.

Tólfta guðshúsið sem var skoðað var Grafarkirkja og þar var höfð um hönd helgistund. Þjóðminjasafn Íslands hefur umsjón með kirkjunni. Kirkjan er innan Hofssóknar á Höfðaströnd.

Viðvíkurkirkja var skoðuð og rætt við sóknarnefndarfólk. Margt hefur verið gert henni til góða eins og með því að setja í hana nýja glugga; kirkjan var rétt við á grunninum og steypt undir hana og hlaðið. Þá var ytra byrði lagað.

Síðdegis á föstudeginum var Hóladómkirkja skoðuð og fundað með sóknarnefndarfólki. Kirkjan er í eigu ríkisins og sér Hólanefnd um kirkjuhúsið og viðhald fyrir hönd ríkisins. Sóknarnefnd annast um það sem snýr að kirkjustarfinu.

Síðan var guðsþjónusta í Hóladómkirkju þar sem sr. Halla Rut Stefánsdóttir, sóknarprestur þjónaði fyrir altari og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup las ritningarlestra. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir prédikaði. Jóhann Bjarnason organisti lék og stjórnaði kór Hóladómkirkju.

Munaskrá allra kirkna í Hofsóss- og Hólaprestakalli var uppfærð þar sem við átti.

Með biskupi í för var prófastur sr. Dalla Þórðardóttir, Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmis, og sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari.

Á hverjum stað tók fólk biskupi og föruneyti hans af hlýju og vinsemd.

þv/hsh

Myndir: sr. Þorvaldur Víðisson


Undirfellskirkja


Í Þingeyrarkirkju - útskornir postular og helgir menn


Svínavatnskirkja


Auðkúlukirkja


Blönduóskirkja - sr. Agnes M. Sigurðardóttir prédikar, sr. Ursúla Árnadóttir, sóknarprestur hlýðir á


Fellskirkja


Barðskirkja


Knappstaðakirkja


Í Hofsóskirkju - fremst frá vinstri: Elsa, sr. Agnes og Carolina. Miðröð: Kristín, Emma og sr. Halla Rut. Aftast: sr. Dalla og Hrefna


Hofskirkja


Grafarkirkja á Höfðaströnd


Frá vinstri: sr. Dalla Þórðardóttir, prófastur, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, og sr. Halla Rut Stefánsdóttir, sóknarprestur í Hofsóss- og Hólaprestakalli


Viðvíkurkirkja


Hóladómkirkja


  • Heimsókn

  • Leikmenn

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Sóknarnefndir

  • Biskup

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut