Falleg stund í sumarblíðu

12. júlí 2021

Falleg stund í sumarblíðu

Sameiginleg útimessa þriggja safnaða í Árbænum - mynd: hsh

Helgihald undir berum himni eða útihelgihald hefur alltaf tíðkast í einhvers konar mynd. Sums staðar hefur það náð að festa sig í sessi árlega á hvaða árstíð sem er. Helgihald af þessu tagi er með öðrum blæ og oft ferskum. Það væri jafnvel athugunarefni fyrir söfnuði að auka helgihald undir berum himni í ljósi aukins útivistaráhuga fólks sem og almenns áhuga á náttúrunni.

Gaman er að nefna í þessu samhengi árlegt útihelgihald á Ströndum tengt Hamingjudögum og fyrir skömmu var stúlka fermd þar undir berum himni í gamla kirkjugarðinum í Tröllatungu við Steingrímsfjörð. Það var að sönnu hamigjustund.

Auðvitað skiptir veður miklu í öllu útihelgihaldi. Stundum er hægt að sjá það sæmilega fyrir en annars er það bara gamla góða ráðið sem sjaldan bregst: að klæða sig eftir veðri.

Þau þurftu ekki að kvarta undan veðrinu í útiguðsþjónustunni í gær í Árbænum.

Sunnan megin við Árbæjarkirkju í Reykjavík er kjörinn staður til að halda útiguðsþjónustu. Á veggnum er fallegur kross og þegar búið að koma fyrir altarisborði við kirkjuvegginn er ekkert að vanbúnaði til að hafa guðsþjónustu um hönd.

Í gær var milt sumarveður og fjöldi fólks sótti sameiginlega guðsþjónustu safnaðanna í Árbæ, Grafarvogi og Grafarholti. Einu sinni á ári koma söfnuðirnir saman til þessa helgihalds. Þegar hann er á vegum Árbæjarsóknar er guðsþjónustan sunnan kirkjunnar, og á Nónhæð þegar Grafarvogssöfnuður á leik og Reynisvatn er staður Grafarholtssöfnuðar.

Þetta eru útiguðsþjónustur. Það er annar svipur á þeim en þegar þær eru innan kirkju. Kannski er það tilbreytingin sem gefur tóninn eða ánægjan yfir því að geta komið saman utan húss til samkomuhalds sem ekki er alltaf auðvelt hér á landi. Ilmur af gróðri fyllir vitin og í fjarska heyrist ymur af amstri borgarinnar.

Prestar úr söfnuðunum þremur komu að guðsþjónustunni. Þeir sr. Þór Hauksson, sóknarprestur í Árbæjarsókn, sr. Leifur Ragnar Jónsson, prestur í Grafarholtssókn og sr. Sigurður Grétar Helgason, prestur í Grafarvogssókn. Reynir Jónasson lék undir almennan safnaðarsöng á harmonikku.

Eftir guðsþjónustuna var boðið upp á pylsuhressingu og kaffi. Pylsur eru ótrúlega vinsælar hjá öllum kynslóðum og þær runnu út. Arnór grillari Stefánsson hafði vart undan en það hafðist þó.

Kirkjan.is ræddi við nokkra viðstadda. Öll voru þau afar ánægð með þetta fyrirkomulag og einn sagði að útiguðsþjónustur mættu vera fleiri. Sum þeirra höfðu gengið frá Grafarvogskirkju en önnur komu akandi þaðan og frá Guðríðarkirkju. Einn kom á reiðhjóli.

hsh


Nikkarinn tilbúinn í slaginn