Stutt málþing

13. júlí 2021

Stutt málþing

Dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands 1959-1981 - mynd: Mbl., Einar Falur Ingólfsson

Laugardaginn 17. júlí verður haldið stutt málþing í Skálholti á Skálholtshátíð í tilefni þess að 30. júní s.l. voru 110 ár liðin frá fæðingu dr. Sigurbjörns Einarssonar, biskups. Það er Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar, sem gengst fyrir málþinginu. Yfirskrift málþingsins er sótt í titil á hirðisbréfi hans sem kom út 1960 og er Ljós yfir land.

Mikið verður um að vera í Skálholti enda Skálholtshátíð haldin hátíðleg um helgina.

Sr. Sigurbjörn Einarsson var einn áhrifamesti kennimaður þjóðkirkjunnar á síðustu öld og fram á þessa. Ræður hans voru kraftmiklar og fluttar af djúpri sannfæringu og trúarlegri festu. Yfir honum hvíldi rósemi spekingsins og jafnframt kappsemi hugsjóna- og trúmannsins. Hann var forystumaður í kirkju- og menningarmálum Íslendinga og er þá nærtækast á þessum tímamótum að minnast Skálholtsstaðar sem hann unni mjög svo og það er honum að þakka að sá staður var reistur upp til fornrar virðingar. Eftir hann liggur fjöldi bóka og að auki var hann hið besta sálmaskáld. Margir sálmar hans eru meðal hinna mest sungnu í kirkjum landsins.

Sr. Sigurbjörn fæddist 30. júní 1911 á Efri-Steinsmýri í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu og lést í Reykjavík 28. ágúst 2008. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1938 og var um tíma prestur á Snæfellsnesi. Síðar var hann kjörinn prestur í Hallgrímsprestakall í Reykjavík. Þegar hann var kjörinn biskup var hann prófessor vð guðfræðideild háskólans. Hann var vígður til biskups 1959 og gegndi því embætti til ársins 1981. Sr. Sigurbjörn var kjörinn heiðursdoktor í guðfræði við Háskóla Íslands 1961 og Háskólann í Winnipeg 1975. Kona hans var Magnea Þorkelsdóttir (1911-2006) og eignuðust þau átta börn. 

Málþingið hefst kl. 10. 00 að morgni og lýkur um hádegisbil með hádegisverði.

Þau flytja stutt og hniðmiðuð erindi á þinginu:

Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir
Dr. Gunnlaugur A. Jónsson
Dr. Magnús Þorkell Bernharðsson
Sr. Kristjáni Björnsson, vígslubiskup

Sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup, mun flytja ávarp.

Bogi Ágústsson, fréttamaður og formaður Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar, stýrir málþinginu.

Hægt er að skrá sig til málþingsins á heimasíðu Skálholts og þar er einnig hægt að sjá dagskrá Skálholtshátíðar.

hsh


Bókamerki dr. Sigurbjörns biskups


  • Menning

  • Ráðstefna

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta