Orgelsumar á enda

20. ágúst 2021

Orgelsumar á enda

Orgel Hallgrímskirkju mynd-hsh

Svo sannarlega hefur verið líf í Hallgrímskirkju í sumar. Klais-orgel kirkjunnar hefur hljómað á öllum laugardögum en þá hafa organistar héðan og þaðan af landinu setið við það og leikið af hjartans lyst.

Það er Björn Steinar Sólbergsson, organisti Hallgrímskirkju, sem rekur endahnútinn á orgelsumarið eða öllu heldur styður á lokanótuna á sunnudaginn.

Dagskrá sunnudagsins 22. ágúst er spennandi og meðal annars verður frumflutt nýtt verk Steingríms Þórhallssonar sem hann samdi að tilhlutan Félags íslenskra organleikara til heiðurs Hauki Guðlaugssyni, níræðum. Tónleikar hefjast kl. 17.00 og standa í um klukkustund.

Hver er Björn Steinar?
Björn Steinar Sólbergsson fæddist á Akranesi 1961 og er organisti við Hallgrímskirkju í Reykjavík. Hann er einnig skólastjóri Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem hann kennir jafnframt orgelleik.

Björn Steinar stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Meðal kennara hans þar voru Haukur Guðlaugsson og Fríða Lárusdóttir. Framhaldsnám stundaði hann á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986. Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann að uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjuna.

Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima, á öllum Norðurlöndunum, í Evrópu og Norður-Ameríku. Hann hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Stavanger og The Cleveland Institute of Music Orchestra.

Á þessu ári kemur Björn Steinar fram á tónleikum á Íslandi, Finnlandi, Þýkalandi og Noregi. Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geislaplötur, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfssonar hjá Skálholtsútgáfunni og orgelkonsert Jóns Leifs hjá útgáfufyrirtækinu BIS sem hlaut einróma lof gagnrýnenda.

Björn Steinar hlaut Menningarverðlaun DV 1999, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2001 og var valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2002. Listamannalaun 1999 og 2015. Björn Steinar er fulltrúi FÍO á Norrænni kirkjutónlistarhátíð ásamt kammerhópnum Umbru en hátíðin fer fram í Finnlandi nú í lok ágúst.

Orgelsumarið - sunnudagurinn 22. ágúst

Frétt um orgelsumarið frá 2. júlí

hsh


  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Viðburður

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra