Lifandi umræða

8. september 2021

Lifandi umræða

Frá vinstri: dr. Hjalti, dr. Sigríður, sr. Guðrún Karls Helgudóttir leggur fram fyrirspurn, og dr. Steinunn Arnþrúður - mynd: hsh

Í gær var haldinn fundur í Neskirkju á vegum Prestafélags Suðvesturlands. Tilefni var var mál nr. 7 (til þingsályktunar um stjórnskipan kirkjustjórnarinnar) sem rætt var á aukafundi kirkjuþings 27. ágúst s.l. Miklar umræður urðu um málið kirkjuþingi og var niðurstaðan sú að allar nefndir þingsins fjölluðu um það fram að næsta þingfundi sem verður haldinn í lok september.

Frummælendur á fundinum í Neskirkju voru þau dr. Hjalti Hugason, sem fór yfir mál nr. 7, og dr. Sigríður Guðmarsdóttir, sem kynnti skipulag norsku kirkjunnar.

Fundinum stjórnaði dr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir. 

Dr. Hjalti hóf mál sitt á því að rekja feril málsins í meginatriðum.

Starfshópur var skipaður af forsætisnefnd kirkjuþings og í honum sátu Ásdís Clausen, fjármálastjóri Biskupsstofu, dr. Bjarni Snæbjörn Jónsson, stefnumótunarráðgjafi, dr. Hjalti Hugason, prófessor, Guðmundur Þór Guðmundsson, skrifstofustjóri Biskupsstofu, og Ragnhildur Benediktsdóttur, héraðsdómslögmaður, starfsmaður kirkjuþings.

Hópurinn skilaði tillögu og greinargerð um málið til forsætisnefndar sem tók svo við framkvæmd þess. Málið var kynnt fyrir fastanefndum kirkjuþings og komu fram athugasemdir sem forsætisnefnd tók tillit til.

Dr. Hjalti ítrekaði að málið væri til umræðu og gæti þar af leiðandi tekið ýmsum breytingum.

Dr. Hjalti lagði áherslu á að greinargerðin og hugmyndafræðin í henni væri starfshópsins. Byggt væri á þróun laganna 1997-2021, tekið mið af skipan mála hjá nágrannakirkjum og sömuleiðis söfnuðum íslensku þjóðkirkjunnar.

Fram kom hjá dr. Hjalta að forsendur tillögunnar væru nýju þjóðkirkjulögin. Hafa yrði hugfast að í 7. grein laganna kveði á um að kirkjuþing hafi æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar með talið fjárstjórnarvald og sömuleiðis marki þingið stefnu þjóðkirkjunnar í sameiginlegum málefnum hennar. Tíunda grein laganna kveður á um að landið sé eitt biskupsdæmi og kirkjuþingið setji starfsreglur um kjör biskups. Aðra málsgrein þeirrar greinar taldi dr. Hjalti mikilvæga þar sem segir að biskup Íslands fari með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um. Sagði hann greinina skilgreina sambandið milli biskupsembættisins og kirkjuþings.

Efst á baugi
Dr. Hjalti taldi að helstu umræðuatriði málsins væru þau að í stað kirkjuráðs (sem ekki er gert ráð fyrir í nýju þjóðkirkjulögunum) kæmi fimm manna starfsstjórn á vegum kirkjuþings, framkvæmdastjórn kirkjuþings. Henni væri ætlað að brúa milli kirkjuþings og æðstu stjórnenda kirkjunnar. Sjá um eftirlit, fylgja eftir framkvæmd áætlana og samþykkta kirkjuþings. Biskup og framkvæmdastjóri rekstarskrifstofu sætu þessa fundi.

Dr. Hjalti benti á bráðabirgðaákvæði í lögunum þar sem miðað er við áramót. Taldi mikilvægt að einhvers konar skipulagsrammi eins og fram kemur í máli nr. 7, skipurit, lægi fyrir áður en farið væri að endurskoða starfsreglur, breyta og jafnvel að semja nýjar.

Þá hefði verið lögð áhersla á að nota orðin umboð og ábyrgð í tillögunum og reynt að sneiða hjá orðinu vald.

Dr. Sigríður Guðmarsdóttir hefur starfað lengi sem prófastur í Noregi og er því vel kunnug skipulagi norsku kirkjunnar sem hún fór yfir í stærstu dráttum.

Hvernig Norðmenn haga málum
Norska kirkjan hefur ellefu biskupsdæmi, skipulag hennar er á sóknarvísu, héraðsvísu, stiftsvísu og landsvísu. Sagði hún að hverju biskupsdæmi væri stjórnað af framkvæmdastjóra stiftisins. Í biskupsdæmunum ellefu eru biskupsráð. Í ráðin eru tíu meðlimir, sjö þeirra velja almennir safnaðarmeðlimir í biskupsdæminu, einn er fulltrúi presta, einn fulltrúi djákna og fleiri. Eini fastafulltrúinn er biskupinn. Þetta ráð hittist um tíu sinnum á ári. Kosningar til sóknarnefnda og biskupsdæmisráðs eru haldnar samhliða sveitarstjórnarkosningum og hafa safnaðarmeðlimir frá 15 ára aldri kosningarétt.

Á kirkjuþingi norsku kirkjunnar sitja 116 einstaklingar. Mikill meirihluti eru leikmenn, 77. Biskupar eru ellefu og sömuleiðis jafnmargir prestar. Þá ellefu starfsmenn og síðan sex aðrir og þar á meðal forystubiskupinn (preses). Í kirkjuráðinu sitja sautján fulltrúar, ellefu leikmenn, einn fulltrúi starfsmanna, fjórir prestar og svo forystubiskupinn.

Í lok erindis síns ræddi dr. Sigríður um nokkur atriði í máli nr. 7 sem hún taldi þurfa skýringa við.

Þó nokkrar fyrirspurnir voru lagðar fram á fundinum og umræður urðu líflegar.

Fram kom að skipuleggjendur fundarins reyndu að fá aðila til framsögu sem eru á móti máli nr. 7 en þeir sem haft var samband við voru önnum kafnir.

Minnt skal á samráðsgáttina þar sem hægt er að koma inn athugasemdum og tillögum um málið. Frestur er til kl. 16.00 fimmtudaginn, 9. september.

hsh


Um tuttugu sóttu fundinn en honum var líka streymt 


Dr. Hjalti Hugason