Sungið af lífi og sál

9. september 2021

Sungið af lífi og sál

Einvalalið - frá vinstri: Steingrímur Þórhallsson, Edda Möller og Margrét Bóasdóttir - mynd: hsh

Það var vel til fundið að bjóða til söngstundar með starfsfólki í barna- og æskulýðsstarfi kirkjunnar í gær.

Barnastarf kirkjunnar er nýlega víða farið af stað. Það er einn mikilvægasti þátturinn í kirkjustarfinu og allir sammála um að leggja rækt við það því að börnin eiga það skilið. Þau eru auk þess framtíð kirkjunnar. 

Þær Edda Möller, framkvæmdastjóri Skálholtsútgáfunnar, og Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, stóðu fyrir þessari söngstund sem fram fór í gær í Katrínartúni 4, Biskupsstofu. Öflugar konur og kunna vel til verka á þessum vettvangi. Mannauður sem þjóðkirkjan býr að og þakkar fyrir.

Söngstundinni var ætlað að hrista saman hópinn og efla liðsheildina. Flest laganna er að finna í Barnasálmabókinni. Lagalistinn var vandaður, bæði með kunnum lögum sem og lögum sem hljóma sjaldan en þyrftu að óma oftar! Nýjum lögum og óbirtum var dreift á blöðum. 

Þær Edda og Margrét gáfu góð ráð eins og hvenær væri hentugt að syngja hvað á starfstíma barna-og æskulýðsstarfsins. Leiðbeindu með tóntegundir og hvar hægt væri að finna lögin síðar til að festa þau í minni.

Það er mikilvægt að söfnuðir séu vakandi yfir því sem er í boði á vettvangi kirkjunnar til að styrkja starf þeirra á öllum sviðum. Ekki síst barna- og æskulýðsstarf. Þess vegna er svona framtak kærkomið og upplagt að sem flestir leiðtoga í barna- og unglingastarfi kirkjunnar taki þátt í samverustundum þar sem söngurinn ómar og gleðin skín.

Þátttakendur fóru þakklátir og glaðir heim.

Stefnt er að því að efna til líkra námskeiða úti á landsbyggðinni.

hsh


Píanó er nýkomið í Katrínartún að tilhlutan söngmálastjóra þjóðkirkjunnar - gott hljóðfæri sem Steingrímur organisti var ánægður með


Barnasálmabókin er sígild









  • Barnastarf

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Æskulýðsmál

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut