Hvað er Eide-messa?

24. september 2021

Hvað er Eide-messa?

Keflavíkurkirkja að kvöldi dags - mynd: Soffía Axelsdóttir

Kirkjan.is rak augun í að Keflavíkurkirkja auglýsti Eide-messu nú á sunnudaginn 26. september kl. 20.00 og spurði sóknarprestinn, sr. Erlu Guðmundsdóttur, hvað það væri.

„Sindre Eide er norskur prestur og sálmahöfundur,“ segir hún, „og hefur skrifað fjölda sálma og ekki síður kynnt trúarlega tónlist framandi þjóða.“ Hún segir að hann hafi aðlagað textana og lögin að lúthersku helgihaldi. „Sr. Kristján Valur Ingólfsson hefur þýtt flesta textana á íslensku við lögin,“ segir sr. Erla en það hafi verið Arnór Vilbergsson, organisti þeirra, sem kynnti þessa sálma fyrir kórnum fyrir mörgum árum. Kórinn féll fyrir þeim og fór að kalla guðsþjónusturnar með sálmum hans Eide-messu.

„Við erum að öllu jöfnu með eina guðsþjónustu af þessu tagi þar sem við syngjum bara sálma eftir Eide,“ segir sr. Erla og bætir því við að stundum séu þessir sálmar sungnir í almennum guðsþjónustum.

Sr. Kristján Valur Ingólfsson, fyrrum vígslubiskup í Skálholti, hefur þýtt flesta sálmana sem um ræðir og bað kirkjan.is hann um að segja fáein orð um þá og Sindre Eide sem hann gerði fúslega:

„Sindre Eide er brautryðjandi í því að safna saman söngvum kristinna kirkna og safnaða frá þeim svæðum jarðar sem við Norður-Evrópubúar þekkjum yfirleitt minnst til. Leiðarstefin eru tvö: Það er hægt að syngja við öll tækifæri og allar aðstæður og það gerir okkur gott, og: Söngur miðlar von (þar sem engin er). Guðfræðilega vitna sálmarnir í safni Sindre Eide (Syng haab!) sem hann kom og kynnti hjá okkur í Skálholti 2006 ekki aðeins um að Guð sé nálægur í Jesú Kristi heldur að Jesús Kristur sé nálægur okkur í öllum aðstæðum og þekki þær. Sálmurinn: Að því hann kom, er mjög gott dæmi um þetta. Það sem gerir vinsældir sálmanna er fyrst og fremst að það er nýr og ferskur og óvenjulegur taktur í lögunum sem við hér á norðurslóðum höfðum ekki vanist, m.a. frá Suður-Ameríku . Einnig þeir söngvar sem þó eru evrópskir (dæmi John Bell) einkennast af sama ferskleika. Við höfðum reyndar séð þetta áður, þó í litlum mæli væri, bæði hjá Per Harling Þú ert Drottinn dýrð sé þér, (nr. 865) og einnig hjá Lars Aake Lundberg strax á áttunda áratugnum. En það þurfti sveiflu eins og þá sem fylgdi Sindre Eide þegar hann kom til landsins til að kynna þessa nýju sönghefð fyrir kirkjusöfnuðunum.“
Sindre Eide er fæddur í Stafangri í Noregi 1942. Hann starfaði sem prestur, æskulýðsleiðtogi, verkefnisstjóri, rithöfundur og sálmaútgefandi. Hann hefur komið nokkrum sinnum til Íslands og haldið námskeið.

Sem sagt: Eide-messa á sunnudaginn í Keflavíkurkirkju kl. 20.00. Þessir sálmar verða sungnir: nr. 876 Heyr það nú,  nr. 835 Heyr þann boðskap, nr. 856 Af því hann kom, nr. 880 Kom lát oss syngja söng og nr. 895 Þér friður á jörðu.

Félagar úr Kór Keflavíkurkirkju syngja undir stjórn Arnórs Vilberssonar, organista. Helga Jakobsdóttir og Þórey Eyþórsdóttir eru messuþjónar. Sr. Erla Guðmundsdóttir þjónar.

hsh
  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra