Þrjú sem eitt

13. nóvember 2021

Þrjú sem eitt

Öflugt teymi Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustu kirkjunnar - frá vinstri sr. Vigfús Bjarni, Andrea og Guðrún - mynd: hsh

Þjóðkirkjan heldur úti mikilvægri starfsemi þar sem Fjölskyldu- og sálgæsluþjónusta kirkjunnar er annars vegar. Þessi þjónusta hefur staðið fólki til boða í nær þrjátíu ár og hefur því fest sig í sessi með ábyrgum og vönduðum vinnubrögðum. Hún hefur rækilega sannað sig því að margir sækjast eftir þessari þjónustu þegar horfst er í augu við erfið mál í fjölskyldum.

Það er safnaðarheimili Háteigskirkju sem hýsir starfsemina og þegar inn er komið taka húsakynnin hlýlega utan um komumann. Það hefur tekist ljómandi vel með að skipuleggja húsnæðið. Herbergin eru vel hljóðeinangruð, búin fallegum og smekklegum húsgögnum. Birtan innan dyra er mjúk og allt er kyrrt og snoturt. Forstöðumaðurinn, sr. Vigfús Bjarni, varpar hressilegri kveðju á gestinn svo sem hans var von og vísa. Hann starfaði áður lengst af sem sjúkrahúsprestur og býr yfir mikilli og fjölþættri reynslu sem sálusorgari. Tveir aðrir starfsmenn Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustu kirkjunnar eru þær Guðrún Kolbrún Otterstedt og Andrea Baldursdóttir. Þær eru báðar félagsráðgjafar að menn sem og fjölskylduráðgjafar og búa yfir mikilli reynslu á því sviði.

Það kemur vel fram í samtali við þau sr. Vigfús Bjarna, Andreu og Guðrúnu, að þau eru samhentur hópur og samrýmdur. Öll leggja þau áherslu á mikilvægi þess að vinna af einhug og sem teymi.

Aðsókn fer vaxandi

„Segja má að hingað liggi straumur í hverri viku, allt að fimmtíu manns,“ segir sr. Vigfús Bjarni, „við skiptum viðtölum á milli okkar en leitumst við að vinna saman sem ein heild.“ Hann segir að eftirspurn eftir þjónustu fari vaxandi. Ástæða þess sé einkum sú að það spyrjist fljótt út að Fjölskyldu- og sálgæsluþjónusta kirkjunnar, veiti faglega ráðgjöf og þjónustu í stórum málum sem smáum. Þjónustan sé að auki góð og manneskjuleg. Þau segja að prestar og djáknar vísi fólki til þeirra. Fólk sem er í vanda leitar einnig á netinu að þeim sem veita aðstoð í fjölskylduvanda og finnur þá meðal annars þjónustu kirkjunnar í fjölskyldumálum og sálgæslu.

Alls konar mál

En hvaða mál skyldu þetta vera sem rata inn á borð Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustu kirkjunnar?

„Það eru samskiptamál,“ segir Guðrún án þess að hugsa sig um, „og samskiptamálin eru auðvitað af margvíslegu tagi.“

Andrea bætir því við að samskiptamálin séu fyrst og fremst mál innan fjölskyldna. „Sundurlyndi milli hjóna, deilur við börn og ættingja, áhyggjur af eldra fólki í fjölskyldunni,“ segir hún. Guðrún segir að samskiptavandamálin geti falist í því að fólk tali ekki saman: „Samtal getur fljótt leiðst út í rifrildi og síðan tekur þögnin við,“ segir Guðrún. Fólk sé líka að ráða í hugsanir annarra, velta því fyrir sér hvað makinn sé að hugsa eða gera. Þá kemur og fyrir að fólk komi fyrir hönd foreldra sinna. Stundum þarf að tengja fólk aftur saman þar sem til dæmis móðir hefur misst samband við börn, þau hafa lokað á hana. Börn kom iðulega með foreldrum sínum og ættingjum, bæði í almennum viðtölum og sorgarviðtölum. Málin eru oft mjög svo krefjandi og sterkar tilfinningar sem brjótast út enda sé verið að fjalla um það sem fólki er kærast.

Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustan sér líka um handleiðslu presta og djákna. „Það eru tveir handleiðsluhópar starfandi,“ segir sr. Vigfús Bjarni, „prestar og djáknar í tveimur hópum.“ Hann handleiðir hópana ásamt þeim Andreu og Guðrúnu. Öll telja þau handleiðslu mjög mikilvæga og benda á að sums staðar sé hún skylda.

Sorgarmál í fjölskyldum hafa einkum verið verkefni sr. Vigfúsar Bjarna en þau hafi líka unnið að þeim í sameiningu og sem teymi. „Í þeim málum hefur verið gott að fá lánaða góða dómgreind hjá góðu samstarfsfólki – við höfum öll reynslu af því,“ segir sr. Vigfús Bjarni.

Hann segir að til þeirra hafi verið leitað eftir fagþekkingu á sorg og úrvinnslu hennar úr grunnskólakerfinu og sorgarmiðstöðinni svo dæmi séu tekin.

Ný vandamál með nýrri tækni

Andrea segir að einnig hafi farið í vöxt svokölluð netvandamál og innan þeirra er netframhjáhald sem svo er kallað. Samfélagsmiðlar hafi haft áhrif á samskipti fólk og tengsl. Sr. Vigfús Bjarni nefnir að fólk komi einnig með vandamál úr fortíðinni: „Það eru einhverjir atburðir úr bernsku eða frá unglingsárum sem eru að trufla, traumísk vandamál sem hafa áhrif á samskipti í nútíðinni og fara jafnvel í farveg þráhyggju.“

Þá er Fjölskyldu og sálgæsluþjónusta kirkjunnar opin öllu starfsfólki þjóðkirkjunnar og getur það leitað eftir fræðslu og stuðningi í málum sem það er að glíma við.

Ljóst er af þessu að málin eru mjög svo fjölbreytilegt sem Fjölskyldu- og sálgæsluþjónusta kirkjunnar sinnir.

Þau sr. Vigfjús Bjarni, Andrea og Guðrún, eru sammála því að frumkvæði eftir því að leita ráða hjá Fjölskyldu og sálgæsluþjónustunni komi fremur frá konum en körlum en heldur hafi þeir þó sótt sig í veðrið hvað það snertir. Og fólk kemur úr öllum áttum. „Þetta er þverskurður af samfélaginu,“ segir sr. Vigfús Bjarni og er ánægður með það. „Fólk kemur svona einu sinni í viku til að byrja með og svo líður lengra á milli.“ Guðrún segir að viðtölin séu náttúrlega mismörg og fari eftir eðli málanna – þau meti þetta allt í sameiningu.

Ánægja þeirra er njóta þjónustunnar

Árangur af starfi Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustu kirkjunnar er erfitt að meta enda starfsemin sérstök og viðkvæm trúnaðarvinna. „Bestu meðmælin með okkur eru þau þegar einhverjir af þeim er nýta þjónustu okkar vísa öðrum til okkar með þeim orðum að við höfum staðið okkur vel,“ segir sr. Vigfús Bjarni ánægður. Aukin aðsókn segi líka sína sögu um nauðsyn þjónustunnar.

Þjónustugjald er 4.000 kr. en heimilt er að fella það niður séu fjárhagsástæður viðkomandi bágar.

Þau sr. Vigfús Bjarni, Andrea og Guðrún, horfa með eftirvæntingu til þess að á næsta ári verður Fjölskyldu- og sálgæsluþjónusta kirkjunnar þrjátíu ára. Þessi þjónusta kirkjunnar hefur sannað sig. Ljóst sé að þau sem ýttu henni úr vör hafi verið framsýn enda lögðu þau strax í upphafi áherslu á fagmennsku og stuðning við fjölskyldur, einstaklinga, fólk innan kirkju sem utan. Þetta viðhorf hefur haldist allar götur síðan. Núverandi starfsfólk ætlar sér svo sannarlega að halda því merki uppi og bæta heldur í ef eitthvað er.

Með Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustu kirkjunnaer veitt fagleg þekking af fólki sem býr yfir mikilli reynslu í málaflokkum sem kirkjan hefur ætíð látið sig miklu skipta eins og í fjölskyldumálum, ráðgjöf, sálgæslu, sáttamiðlunum, sorgarmálum og úrvinnslu þeirra.

Fjölskylduþjónustan 30 ára á næsta ári
Fjölskylduþjónusta kirkjunnar tók formlega til starfa 31. janúar 1992. Kirkjuþing samþykkti stofnun hennar 1990 og undirbúningur að starfi hennar hófst ári síðar. Fyrsti forstöðumaður hennar var sr. Þorvaldur Karl Helgason og tók hann við því starfi 1. janúar 1992. Aðrir starfsmenn voru tveir og í hálfu starfi, þau Ingibjörg Pála Jónsdóttir, félagsráðgjafi á Landspítalanum, og Benedikt Jóhannsson, sálfræðingur. Ásta Einarsdóttir var ritari og sá um símavörslu. Fjölskylduþjónustan var fyrst til húsa að Laugavegi 13, Reykjavík.

hsh












  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta