Klukkur hljóðna í Skálholti

18. nóvember 2021

Klukkur hljóðna í Skálholti

Í klukknaporti Skálholtsdómkirkju - undirbúningur við að taka klukkurnar ofan - mynd: Kristján Björnsson

Nú er orðið býsna hljótt þegar gengið er um hlöðin í Skálholti. Klukkurnar í turninum klingja ekki og kalla fólk til helgihalds.

Það var á Skálholtshátíð árið 2002 sem buldi við mikill brestur í kirkjuturni Skálholtsdómkirkju. Viðstöddum varð nokkuð brugðið og hugðu sumir að jarðskjálfti hefði riðið yfir. Svo var ekki. Við nánari athugun kom í ljós að ein klukknanna í turninum hafði brostið og fallið niður af rambaldinu með tilheyrandi dynki.

Þetta reyndist vera sú klukka sem Danir höfðu gefið kirkjunni í tilefni vígslu hennar. Allt frá árinu 2002 hefur klukkan legið á gólfi kirkjuturnsins, brotin og hljómlaus.

Nú verður hafist handa um viðgerð á klukknaturni kirkjunnar og nýrrar klukku aflað í stað þeirrar brotnu.

„Það er verið að steypa nýja klukku í Danmörku í stað þeirrar dönsku sem gefin var af dönskum vinum árið 1960,“ segir sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, þegar kirkjan.is innir hann um stöðu mála. „Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju safnar um þessar mundir fyrir nýju dönsku klukkunni og mun hún hafa sama tón og sú sem brotnaði.“

Stærstu styrkirnir sem hafa borist Verndarsjóðnum eru frá Landsvirkjun og frá dönskum vinum Skálholtskirkju í A.P. Möller sjóðnum að sögn sr. Kristjáns.

Eins og mörgum er kunnugt um þá er gjarnan letrað á kirkjuklukkur ártal, stundum nöfn gefenda, eða tilvísun í heilaga Ritningu.

Kirkjan.is spyr hvort eitthvað hafi mátt lesa á brotnu klukkunni. „Gjöf til Skálholtskirkju frá dönskum vinum 1960, stóð á annarri hliðinni segir sr. Kristján, „og á hinni hliðinni Klukkna hljóð / kallar þjóð / Krists í tjöld.“

Sr. Kristján segir að á nýju klukkunni muni standa á annarri hliðinni Frá Verndarsjóði Skálholtsdómkirkju 2021 og á hinni hliðinni STABUNT AETERNUM DOGMATA SACRA DEI (Heilagt orð Guðs vors varir að eilífu). „Latneska tilvitnunin er í 40. kafla Spádómsbókar Jesaja en það er sami texti og dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands, lagði útaf við vígslu kirkjunnar 1963. Er þar sótt í hið biblíulega stef um endurlausnina og endurkomu úr herleiðingunni í Babýlon.

En auk dönsku klukkunnar voru fjórar aðrar þar í klukknaportinu á ramböldum. Þær voru líka teknar ofan því til stendur að endurnýja klukknagrindina. Sömuleiðis verður hugað að turngólfi og veggjum. Einnig verður skipt um alla glugga í klukknaportinu.

„Það er líklegt að allar klukkurnar fái ný rambolt úr tré,“ segir sr. Kristján, „í leiðinni verða allar festingar endurnýjaðar en það var einmitt festingin sem gaf sig á þeirri dönsku fyrir tæpum tveimur áratugum svo slagið í því braut á endanum klukkuna.“ Kollur klukkunnar brotnaði.

Sr. Kristján segir að hinar klukkurnar séu í góðu lagi og hljómur hreinn og tær. „Klukknamótorarnir hafa verið að gefa sig einn af öðrum undanfarin ár þannig að þrjár af fimm hringdu fyrir ári en undir það síðasta hafa bara tvær klukkur hringt.“ Hamar sænsku klukkunnar verður endurnýjaður. Auk hinnar dönsku og sænsku klukku er ein frá finnsku kirkjunni og önnur frá norskum vinum. Þá er önnur sænsk klukka, gjöf frá sænska prestafélaginu.

„Við höldum klukkumessu með vorinu,“ segir sr. Kristján, vígslubiskup, kampakátur, með þessar þörfu endurbætur.

En hvernig á að koma nýju dönsku klukkunni upp í turninn?

„Þekjan á turninum verður rofin og klukkan látin síga þar niður,“ segir sr. Kristján, „stiginn verður tekinn svo hún komist á sinn stað.“ Hann segir að þetta verði vandasamt verk því að til verksins þurfi stóran krana sem þurfi að ná upp og yfir alla kirkjuna. Og kraninn má ekki standa hvar sem er. Kringum kirkjuna er gamall kirkjugarður og ekki mun hann standa þar. Bílastæði kirkjunnar er því líklegasti staðurinn en það er ögn frá kirkjunni.

En jólin verða hringd inn í Skálholti þrátt fyrir allar framkvæmdir og verður spennandi að heyra hvaða klukkur verða notaðar til þess meðan klukknaportið í Skálholtsdómkirkju nýtur hvíldar um stund. 

hsh