Ljósið kemur langt og mjótt

26. nóvember 2021

Ljósið kemur langt og mjótt

Hallgrímskirkja í Saurbæ - starfsmenn Oitdmanns að lokinni vinnu - mynd: Kristján Valur Ingólfsson

Mikið hefur verið á seyði undanfarna daga á þeim fagra stað, Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

Það var mikill asi á fyrrum vígslubiskupnum í Skálholti þar sem hann undirbjó morgunverð hússins rjóður í kinnum. Marga skápa þurfti að opna og engin skúffa slapp. Allt var dregið út fimum höndum , pottar og skálar, kaffibollar og skeiðar. „Þeir byrja alltaf á slaginu sjö á fastandi maga,“ segir sr. Kristján Valur.

„Þeir koma svo til mín klukka níu,“ segir sr. Kristján Valur og sest niður andartak með viskustykkið í höndum. Kirkjan.is sér ekki betur en að eldhússtörfin fari honum bara vel og að hann sé hinn galvaskasti á þeim vettvangi eins og fyrir altari.

Klukkan níu tromma svo inn í Saurbæ þrír fullvaxnir karlmenn, vingjarnlegir og glaðir á svip. „Þeir komu til landsins um miðja síðustu viku,“ segir sr. Kristján og býður þeim til sætis. Gluggagerðarmennirnir líta eldsnöggt á gestinn og fara síðan að þvo sér um hendurnar.

Þessir menn eru fulltrúar hins kunna fyrirtækis, Oidtmann-bræðra, sem sérhæfir sig meðal annars í gerð steindra glugga og annast einnig viðgerðir á þeim. Fyrirtækið Oidtmann er elst og stærst glerlistafyrirtækja í Þýskalandi. „Stefán Oidtmann, forstjóri Oidtmanns-bræðra, ætlaði að koma og fylgja verkinu eftir en hann fékk heilablóðfall í haust og er að jafna sig,“ segir sr. Kristján Valur. „En sonur hans, Michael, stýrir nú aðgerðum og er hann fimmta kynslóð fyrirtækisins.“ 

Hér  sagði kirkjan.is frá því þegar gluggarnir í Hallgrímskirkju í Saurbæ voru teknir úr. 

Starfsmenn Oidtmanns gerðu einnig við steinda glugga Gerðar Helgadóttur (1928-1972) í Kópavogskirkju, tóku þá niður og sendu utan. Kirkjan.is sagði frá því hér. Þar áður voru þeir í Skálholti og tóku alla glugga úr og sendu utan til viðgerðar. Þeir eru nú komnir. Þegar gluggarnir voru teknir ú Skálholtskirkju á sínum tíma var sr. Kristján Valur starfandi í Skálholti sem vígslubiskup og tengiliður við Oidtmann-fyrirtækið. Framkvæmdin sú við kirkjuna tókst mjög vel og hefur fólk tekið eftir miklum mun á gluggunum. Sérstaklega á sólardögum hvernig þeir taka geislana sér í fang og alls konar litbrigði dansa í gluggunum. Það var Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju sem kostaði þá framkvæmd að mestu leyti.

En Oitdmann-bræður eru ekki einir að störfum í Saurbæ. Þar eru einnig smiðir frá Akrinum og sjá þeir um að aðstoða starfsmenn Oidtmanns fyrirtækisins. „Þeir aðstoðuðu við að taka út stærsta gluggann eftir Gerði en hann er á vesturstafni,“ segir sr. Kristján Valur og þeir hafi auk þess séð um stillansana utan á kirkjunni.

Steindir gluggar í Hallgrímskirkju í Saurbæ eru sjö að tölu, fimm á suðurhlið og einn á norðurhlið. Allir eru gluggarnir gjafir til kirkjunnar. Stærsti glugginn á vesturstafnum er gjöf frá Elliheimilinu Grund og var sá eini sem kominn var fyrir vígslu kirkjunnar 1957. „Gjöfin tjáir þakklæti eldra fólksins fyrir samfylgd og leiðsögn Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar,“ segir sr. Kristján Valur og vitnar orðrétt í ummæli Gísla Sigurbjörnssonar, fyrrum forstjóra Grundar, en hann var mikill kirkjunnar maður.

En hvað er gert við gluggana?

„Blýlistar þeirra eru endurnýjaðir sem og styrktarlistar,“ segir sr. Kristján Valur, „séð verður til þess að það lofti vel um gluggana.“ Einnig sé glerið hreinsað og skipt út sprungnum glerflísum.

Sr. Kristján Valur segir að mikil velvild sé í garð Hallgrímskirkju í Saurbæ. „Allt er þetta meira og minna gefið af góðvildarfólki,“ segir hann og er þakklátur.

Nú, það er af Oidtmann og félögum að frétta, að héðan halda þeir utan til Írlands. En víst er að þeir koma aftur hingað til lands því ýmis verkefni bíða þeirra og landinn hefur frábæra reynslu af þeim Oidtmann-bræðrum.

Guðsþjónusta verður svo höfð um hönd í Hallgrímskirkju í Saurbæ fyrsta sunnudag í aðventu, 28. nóvember.

hsh


  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Vígslubiskup

  • List og kirkja

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta