Skór organistans

14. desember 2021

Skór organistans

Skór organistans fyrir miðju. Frá vinstri: Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, Erik Pálsson, formaður sóknarnefndar Grensáskirkju og sr. Þorvaldur Víðisson, sóknarprestur Fossvogasprestakalls - mynd: hsh

Síðastliðinn sunnudag var aðventuhátíð í Grensáskirkju. Minnst var 25 ára vígsluafmælis kirkjunnar og af því tilefni flutti biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, ávarp í kirkjunni, og flutti söfnuðinum innilegar árnaðaróskir með afmælið.

Aldarfjórðungsafmælið var líka notað til að minnast organista kirkjunnar, Árna Arinbjarnarsonar (1934-2015), með sérstökum hætti. Kór kirkjunnar söng aðventu- og jólalög og meðal annars lög sem hann hafði útsett. Geir Jón Þórisson, fyrrum lögregluþjónn og félagi í Grensáskirkju, átti að minnast Árna í ávarpi en var veðurtepptur úti í Vestmannaeyjum. Í stað hans las sr. María Guðrún Ágústsdóttir ávarp hans þar sem hann sagði frá góðum kynnum sínum af Árna.

Dóttir Árna, Margrét Árnadóttir, lék á selló og Ásta Haraldsdóttir, kantor, lék á orgelið. Hin dóttir Árna, Pálína, var og viðstödd.

Aðventustundinni stýrðu þau sr. Þorvaldur Víðisson, sóknarprestur, og sr. María Guðrún Ágústsdóttir, prestur.

Það sem vakti mikla athygli á aðventustundinni var um metershár standur með glerkúpli. Undir kúplinum voru nettir og ögn snjáðir leðurskór og á litlum skildi var þessi áletrun: Orgelskór Árna Arinbjarnarsonar 1967-1973 og 1982-2014 - í virðingu og þökk. Grensássöfnuður.

Þessum minningarstandi verður nú fundinn verðugur og öruggur staður í kirkjunni.

Kirkjan.is fullyrðir að engum fótspilsskóm organista hér á landi hafi verið sýndur jafnmikill sómi og með því að koma þeim fyrir með þessum hætti.

Öllum er það ekki ljóst að á stórum orgel er svokallað fótspil, nótnaborð sem leikið er á með fótunum. Allir organistar eiga sér sérstaka skó til að leika á fótspilið og hver hefur sína skó sem aðeins eru notaðir í þessu skyni. Skórnir verða að hæfa hverjum organista og þurfa að vera mjúkir og liprir.

Kirkjukórinn leiddi almennan söng og sungnir voru aðventusálmarnir fallegu. Ræðukona var Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, og ræddi hún um gleðina og hlutverks hennar í lífinu.

Hver var Árni Arinbjarnarson?
Hann fæddist í Hafnarfirði árið 1934 og lést í Reykjavík 2015. Eiginkona hans var Dóra Lydia Haraldsdóttir. Hann stundaði tónlistarnám frá unga aldri, fór í Tónlistarskólann í Reykjavík níu ára og lauk burtfararprófi í fiðluleik 1956 og í orgelleik 1960. Kennarar hans voru Björn Ólafsson í fiðluleik og dr. Páll Ísólfsson í orgelleik. Árið 1957-58 var Árni við framhaldsnám í fiðlu- og orgelleik í London. Fékk hann til þess styrk frá British Council. Kennarar hans voru Max Rostal og Geraint Jones. Árni starfaði sem fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands 1961-1996. Hann var fiðlukennari við Tónlistarskólann í Keflavík 1958-1982; Tónlistarskólann í Reykjavík 1964-1973 og Nýja Tónlistarskólann 1978-2014. Árni var orgelleikari og söngstjóri Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu 1952-1988 og orgelleikari Grensáskirkju 1967-1973 og 1982-2014. Árni kom fram á mörgum orgeltónleikum hérlendis og á organistamótum í Danmörku og Svíþjóð. Í viðkynningu var Árni afar ljúfur og þægilegur maður, góðgjarn mannvinur.

Eftir athöfnina í kirkjunni bauð sóknarnefnd Grensáskirkju upp á kaffi og konfekt.

hsh


Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flutti ávarp í tilefni þess að 25 ár voru liðin frá vígslu Grensáskirkju


Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, flutti aðventuræðu


Skór organistans Árna Arinbjarnarsonar undir plexigleri í Grensáskirkju


Dætur Árna voru viðstaddar, Pálína og Margrét en hún lék á selló í aðventustundinni


Árni Arinbjarnarson (1934-2015)


Um vígslu kirkjunnar

  • Frétt

  • Leikmenn

  • Menning

  • Samfélag

  • Sjálfboðaliðar

  • Sóknarnefndir

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta