Biskupafundur á Akureyri

24. júní 2022

Biskupafundur á Akureyri

Norræni biskupafundurinn verður haldinn í Akureyrarkirkju - mynd: Eyþór Ingi Jónsson

Norrænn biskupafundur er haldinn á þriggja ára fresti og því er hann á fimmtán ára fresti í hverju landi. Síðast var hann haldinn í Lappeenranta í Finnlandi árið 2019.

Nú verður norræni biskupafundurinn haldinn á Akureyri dagana 27. júní til 1. júlí. Hátt í hundrað manns sækja fundinn og flestir þeirra eru biskupar á Norðurlöndum. Til fundarins var líka boðið biskupum Eystrasaltslandanna en þeir höfðu ekki tök á að koma á fundinn að þessu sinni.

Kirkjan.is ræddi við sr. Solveigu Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskup á Hólum, þar sem fundurinn er haldinn í Hólaumdæmi.

„Þetta er fyrst og fremst fundur kirkjuleiðtoga sem vilja bera saman bækur sínar, skoða hvað við getum lært hvert af öðru og rækta vináttu meðal okkar sem er afar mikilvægt,“ segir sr. Solveig Lára. „Höfuðbiskupar landanna munu flytja skýrslur um það sem er efst á baugi í heimakirkjum þeirra og mun sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flytja skýrslu fyrir hönd þjóðkirkjunnar.“

Þetta er í fyrsta skipti sem norræni biskupafundurinn er haldinn á Norðurlandi.

„Í samtölum mínum við biskupa og presta á Norðurlöndum kemur í ljós að mjög margir hafa komið til Íslands, verið í Reykjavík og komið í Skálholt, en afar fá hafa komið norður eða heim að Hólum,“ segir sr. Solveig Lára, „því er það mikill heiður fyrir okkur Norðlendinga að fá að hýsa þennan fund.“

Hvað verður helst til umræðu?
„Við viljum leggja áherslu á umhverfismál, lýðræðið og á síðustu metrunum kom stríðsástandið í Evrópu líka inn í myndina,“ segir sr. Solveig Lára. „Yfirskrift fundarins er The Church in a changed World (Kirkjan í breyttum heimi – fundurinn fer fram á ensku). Við munum skoða vel stöðu kirknanna á Norðurlöndum og hver framtíðarsýn okkar er.“

Dagskrá fundarins er vönduð og spennandi. Kunnir fyrirlesarar munu flytja erindi:
Bogi Ágústsson, Kristrún Heimisdóttir, Andri Snær Magnason og dr. Sigríður Guðmarsdóttir.

Norræni biskupafundurinn hefst með guðsþjónustu í Akureyrarkirkju þar sem vígslubiskupinn á Hólum, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, prédikar. Í lok guðsþjónustunnar setur biskups Ísland, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, fundinn.

Norræna biskupafundinum lýkur með guðsþjónustu í Glerárkirkju 1. júlí. Þar prédikar Færeyjarbiskup, sr. Jógvan Fríðriksson.

Mun þessi fundur álykta um einhver mál?

„Það mun koma í ljós,“ segir sr. Solveig Lára, „það er svo margt að gerast í heiminum í dag bæði í umhverfismálum, lýðræðismálum og friðarmálum auk flóttafólksstraumsins að það kæmi mér ekki á óvart að einhver ályktun kæmi, en það hefur ekki alltaf verið svo.“

En norrænu biskuparnir munu ekki aðeins sitja á fundum heldur verður einnig Hólastaður kynntur fyrir þeim, svokallaður Demantshringur þræddur og komið við í sjóböðunum við Húsavík.

Í undirbúningsnefndinni fyrir fundinn sátu: Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskups Íslands, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, Pétur Markan, biskupsritari, sr. Gunnar Einar Steingrímsson, sóknarprestur í Laufási, Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Guðrún Finnbjarnardóttir, fulltrúi, Magnea Sverrisdóttir, verkefnisstjóri og djákni, og Hermann Björn Erlingsson, verkefnisstjóri upplýsingatæknimála á Biskupsstofu.

Starfsmaður fundarins er sr. Gunnar Einar Steingrímsson, sóknarprestur í Laufási.

Næsti norræni biskupafundurinn verður haldinn í Færeyjum eftir þrjú ár. 

Kirkjan.is mun greina nánar frá störfum fundarins eftir því sem tilefni gefa til.

Dagskrá helgihalds á norræna biskupafundinum.pdf

hsh





  • Frétt

  • Fundur

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Viðburður

  • Vígslubiskup

  • Biskup

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta