Laust prestsstarf

25. júní 2022

Laust prestsstarf

Glerárkirkja - mynd: Sigurður Ægisson

Biskup Íslands óskar eftir presti til þjónustu í Glerárprestakalli, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi. Miðað er við að viðkomandi getið hafið störf 1. september 2022.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 4/2021 og starfsreglna um presta nr. 1011/2011.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 17. júlí 2022

Glerárprestakall
Prestakallið er í sveitarfélaginu Akureyrarkaupstað. Í því er ein sókn, Lögmannshlíðarsókn. Sóknin er á samstarfssvæði með Akureyrarsókn, sem myndar Akureyrar- og Laugalandsprestakall.

Í Glerárprestakalli eru tvær kirkjur, Glerárkirkja og Lögmannshlíðarkirkja. Skrifstofuaðstaða sóknarprests og prests er í Glerárkirkju.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8 gr. starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Jón Ármann Gíslason, prófastur við ráðningarferli þetta, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 866 2253 eða á netfangið jon.armann.gislason@kirkjan.is

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni - Biskupsstofu, s. 528 4000, eða á netfangið jona@kirkjan.is eða ragnhilduras@kirkjan.is.

Sækja ber rafrænt um starfið hér á kirkjan.is  og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti. Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar. Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.

Þarfagreining vegna ráðningar prests í Glerárprestakall
Þarfagreining Lögmannshlíðarsóknar
Lögmannshlíðarsókn er önnur tveggja sókna á Akureyri. Íbúar voru um 7079 í sókninni 1. desember 2021. Sóknin tilheyrir Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og er á Akureyri ásamt Akureyrarsókn. Í Lögmannshlíðarsókn eru fimm leikskólar, þrír grunnskólar, sambýli og eitt öldrunarheimili. Fyrirhuguð er mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis innan sóknarmarka og má búast við um 1000 nýjum íbúðum á komandi árum. Fjárhagsstaða safnaðarins er ágæt og engar langtímaskuldir íþyngja honum. Söfnuðurinn hefur eina starfsstöð, Glerárkirkju. Söfnuðurinn á einnig gamla trékirkju, Lögmannshlíðarkirkju sem stendur við Lögmannshlíðarkirkjugarð. Í húsnæði Glerárkirkju er starfræktur leikskóli á vegum Akureyrarbæjar.

Almennt um kirkjustarfið
Íbúar í póstnúmeri 603 eru eins og fyrr segir 7079 og skiptast þannig, að rúm 20% eru undir 16 ára aldri og tæp 14% eldri en 65 ára. Styrkleikar safnaðarins felast í góðum tengslum kirkjunnar við fólkið í hverfinu, samfélaginu sem og í góðu starfsfólki og sjálfboðaliðum.

Söfnuðinum þjóna sóknarprestur og prestur í fullu starfi. Einnig eru verkefnastjóri fjölskyldu- og fræðslumála, organisti og umsjónarmaður í fullu starfi og kirkjuvörður í 80% starfi. Þá eru nokkrir starfsmenn í hlutastörfum við tónlistarstarf kirkjunnar, barna- og æskulýðsstarf.

Auk þessa koma margir sjálfboðaliðar að starfi kirkjunnar. Í Glerárkirkju er messa og sunnudagaskóli alla sunnudaga yfir vetrarmánuðina en yfir sumartímann eru kvöldmessur. Þar fer einnig fram allt hópa- og fræðslustarf safnaðarins. Glerárkirkja er vel búin til þess að þjóna fjölbreyttum hópum og eru aðgengismál í góðum farvegi. Í kirkjunni er ágætis starfsaðstaða fyrir starfsfólk safnaðarins.

Auk helgihalds fer því fram margvíslegt barna-, unglinga- og eldri borgarastarf. Má þar nefna sunnudagaskóla, foreldramorgna, tónlistastarf fyrir börn í 1.-10. bekk, Glerungar fyrir 1. – 3. bekk, TTT fyrir 5.-7. bekk og unglingastarf fyrir 8.-10. bekk. Þá koma nokkrir hópar AA samtakanna saman í kirkjunni. Unglingastarf kirkjunnar er í samstarfi við KFUM og KFUK á Akureyri og fer alla jafna fram í félagshúsi KFUM og KFUK í Sunnuhlíð. Í kirkjunni er auk þessa boðið upp á fjölbreytt námskeið, fræðslustundir og sorgarhópastarf. Þá hafa prestar safnaðarins sinnt samverum og guðsþjónustum á öldrunarheimilum Akureyrarbæjar í samstarfi við prestaAkureyrarkirkju.

Í hverfinu starfa öflug íþróttafélög ásamt fjölda annarra félagasamtaka. Einnig hefur Kvenfélagið Baldursbrá haft fundaraðstöðu í Glerárkirkju og hefur stutt myndarlega við kirkjustarfið í sókninni til langs tíma.

Væntingar safnaðarins
Sóknarnefnd Glerárkirkju vill að kirkjan sé hluti af lífi samfélagsins í hverfinu og leggur áherslu á uppbyggjandi og nærandi fræðslustarf og að til staðar sé öflugt barna- og æskulýðsstarf á vegum safnaðarins. Því er æskilegt að prestar safnaðarins hafi þekkingu, reynslu og áhuga á starfi með ungmennum og fjölskyldum þeirra. Söfnuðurinn leggur áherslu á mikilvægi tónlistarlífs kirkjunnar og er það kostur ef prestar nýta það við helgihald og fræðslu. Glerárkirkja er byggð inn í íbúðahverfi og hefur söfnuðurinn áhuga á að starfið í kirkjunni endurspegli það, að hún sé hverfiskirkja. Prestar kirkjunnar þurfa að vera meðvitaðir um þetta samhengi safnaðarstarfsins og hafa áhuga á að láta sig það varða með uppbyggilegum hætti.

Í sókninni er vilji og löngun til að ná til ungs fólks með þjónustu kirkjunnar með áherslu á starf fyrir börn og unglinga, foreldramorgna og eldriborgarastarf. Megin áhersla sóknarnefndar Lögmannshlíðarsóknar næstu ár er að efla starf kirkjunnar með öllu fólki í sókninni, þannig að allt sóknarfólk geti fundið sér stað í kirkjustarfinu. Að þetta verði gert m.a. með ríkari áherslu á stefnumótun safnaðarins og fjölbreytni í safnaðarstarfi og helgihaldi.

Sóknin leitar eftir presti sem er reiðubúinn að taka þátt í teymisvinnu og samstarfi við sóknarprest og annað starfsfólk kirkjunnar um uppbyggingu safnaðarstarfs. Glerárkirkja vill styðja við framsækið starf í kirkjunni sem skapar sér sérstöðu og laðar að bæði þátttakendur og sjálfboðaliða.

Þá er bent á vef Glerárkirkju.

 

hsh

 


  • Frétt

  • Kirkjustarf

  • Samfélag

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Umsókn

  • Biskup

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra