„Kirkjan var vopnuð ljótum orðum...“

30. júní 2022

„Kirkjan var vopnuð ljótum orðum...“

Lok guðsþjónustunnar í Skálholti - Ein saga - eitt skref - mynd: hsh

Um síðustu helgi var messa í Skálholti þar sem framkvæmdastjóri Samtakanna ´78, Daníel E. Arnarsson, prédikaði. Hinsegin kórinn sá um allan tónlistarflutning í kirkjunni undir stjórn Helgu Margrétar Marzellíusardóttur við undirleik Halldórs Smárasonar.

Eftir messuna var málþing um samvinnuverkefni Samtakanna ´78 og þjóðkirkjunnar, Ein saga – eitt skref, og opnun heimasíðu þess.

Samvinnuverkefnið fólst í því að gera upp og læra af sögu misréttis gagnvart hinsegin fólki innan kirkjunnar. Safnað var persónulegum reynslusögum af fordómum og andstöðu þjóðkirkjunnar við réttindi hinsegin fólks í gegnum árin. Nú má hlýða á níu þeirra á heimasíðunni sem opnuð var í Skálholti.

Frásagnirnar eru af ýmsum toga en eiga það sameiginlegt að vera vitnisburður um þá ómenningu fordóma og misrétti sem viðgengust of lengi innan kirkjunnar. Með því að draga persónulega reynslu hinsegin fólks fram í dagsljósið stígum við eitt skref í átt til sátta.

Þrjú ávörp voru flutt í upphafi málþingsins. Fyrst var það Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna ´78. Síðan ávarpaði sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, málþingið. Að því loknu var heimasíðan opnuð og hlustað á eina sögu.

Ragnhildur Sverrisdóttir, sr. Hildur Björk Hörpudóttir og Guðlaugur Kristmundsson, fluttu erindi. Umræður voru svo í lokin.

Fundarstjóri var sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti. 

Ávörpin

Í ávarpi sínu sagði Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna ´78, að það væri stórmál að stofnun eins og kirkjan væri tilbúin til að líta í eigin barm og styðja verkefni eins og þetta, Ein saga, eitt skref, af fullum heilindum. Hann lýsti ánægju sinni með að hinsegin fólki og Samtökunum ´78 hefði verið trúað fyrir verkefninu – enda væri það unnið fyrir þau. Það fjallar um þau og sár þeirra – gömul sár gróa hægt. Eðlilegt væri að verkefnið tæki langan tíma, sögurnar væru fjölbreytilegar, snertu þau djúpt og þær væru persónulegar. Það þyrfti líka kjark til að segja þær. Gott væri að vita að sögurnar væru komnar fram því að þær hvíldu þá ekki lengur í huga einnar manneskju. Hann þakkaði öllum það traust sem Samtökunum ´78 væri sýnt með því að treysta þeim fyrir sögunum. Nú væru níu sögur birtar en áfram yrði haldið að safna sögum. Þetta væri bara byrjunin.

Í máli sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, kom fram að mikilvægt væri að sofna ekki á verðinum í baráttu fyrir réttindum fólks. Hinsegin fólk hefði barist fyrir réttindum sínum og sagðist hún vona að þau sem yngri væru þyrftu ekki að berjast eins mikið og þau sem rutt hefðu veginn. Hún vék að orðfæri kirkjunnar sem væri gamalt og bundið hefðum. Í messunni í kirkjunni hefði verið brugðið sums staðar út af þessu hefðbundna orðfæri. Fram hefði komið að sumir hefðu ekki verið sáttir við óbreytt orðfæri kirkjunnar í athöfnum hennar eins og hjónavígslu. Lýsti hún ánægju sinni með að málfar beggja kynja hefði komist inn í Biblíuna 2007 en nú þyrfti að koma því líka inn í öll form, hefðir og texta kirkjunnar. Áhersla í sálgæslu kirkjunnar væri sú að mæta einstaklingnum á þeim stað þar sem hann er á lífsins leið. Þá væri mikilvægt að læra af öllum þeim sögum sem verkefnið Ein saga - eitt skref, geymdi – enda hefði kirkjan reynslu af því að túlka sögur úr Biblíunni. Þakkaði hún þeim sem hefðu staðið að verkefninu, Ein saga – eitt skref, og unnið að því sem og þeim er treystu öðrum fyrir sögum sínum.
Innleggin

Síðan flutti Ragnhildur Sverrisdóttir mjög persónulegt innlegg sem hreif fundarmenn. Sagði hún frá lífi sínu og hvernig hún hefði gengið sinn veg sem samkynhneigð manneskja. Jafnframt tengdi hún frásögn sína baráttusögu samkynhneigðra.

Sr. Hildur Björk Hörpudóttir ræddi verkefnið og um kirkjuskilning. Kirkjan hafi farið afvega í málefnum samkynhneigðra á sínum tíma. Þess vegna leitar kirkjan núna að sátt og samtali – verkefnið Ein saga – eitt skref, væri áfangi á þeirri leið. Þetta væri bara upphafið.

Guðlaugur Kristmundsson flutti einnig afar persónulegt ávarp. Hann sagðist vera heppinn að hafa komist á fullorðinsárin með það að vera mætt þar sem hann var. Síðan var farið að ráðast á hann – af kirkjunnar mönnum – fyrir það að vera hommi. Að vera hann sjálfur. Það var tekið frá honum að tilheyra samfélagi sínu. Hann treysti ekki kirkjunni: „Kirkjan var vopnuð ljótum orðum og hún meiddi.“ Það þyrfti að viðurkenna. En hann væri ánægður og þakklátur með þessa vegferð verkefnisins Ein saga – eitt skref.

Öll voru þess innlegg áhrifarík og upplýsandi.

Sögurnar níu

Það er eins og að setjast á skólabekk að hlusta á sögurnar.

Lifandi frásagnir og sagðar af djúpri einlægni. Engum hlíft vegna þess að viðmælendur horfðust í augu við niðurlægingu og voru beittir ofbeldi. Þó er enginn hefndarhugur á ferð heldur aðeins skrásetning sögu sem þarf að varðveitast. Áhrifaríkar frásagnir - átakanlegar. Sár saga.

Eftirfarandi glósur tók kirkjan.is þegar hún hlustaði á frásagnirnar níu:

Trúað fólk í kringum mörg þeirra. Sum sjálf trúuð eða andlega þenkjandi, jafnvel í kór. Góðar tilfinningar gagnvart kirkjunni í bernsku. Trúarhópur samkynhneigðra laðaði suma að sér. Mæta kirkjunni sem er full af tvískinnungi. Sum þeirra tóku þátt í kirkjulegu starfi sem börn og ungmenni. Mörg hver bera þungan hug til kirkjunnar. Ein alin upp á kirkjustað sem hafði áhrif. Þá bað drengur til Guðs um að láta sig ekki vera homma. Dauðahræðsla greip einn vegna helvítishótana afleysingaprestsins. Upplifa höfnun kirkjunnar en geta þess þó að fjöldi presta hafi verið jákvæðir gagnvart samkynhneigðum. Úrsögn úr kirkjunni kom fljótt upp hjá þeim. Sum vilja ekkert vita af kirkjunni í ljósi þessarar sögu. Kirkjan hafi beitt samkynhneigða ofbeldi. En svo magnaðir einstaklingar í hópi presta sem tóku vel á málum sem manneskjur og sem prestar. Gott að kirkjan hefur tekið skýra afstöðu með samkynhneigðum hin síðustu ár – en það mun taka tíma, kannski tugi ára. Sum eru harðorð í garð kirkjunnar – sérstaklega gagnvart ákveðnum orðum sem féllu í umræðunni. Sækja athafnir á vegum kirkjunnar vegna hefðarinnar eins og útfarir og brúðkaup. Kirkjan er partur af menningarvefnaði samfélagsins. Kirkjan var á móti mannréttindum samkynhneigðra - samfélagshöfnun. „Ég er ekki hrifin af kirkjunni,“ – gott að vita af hefðum en það hefur ekki neitt með trú að gera. Liggur gott orð til hennar fyrir viðtökur á flóttamönnum þar sem ekki er spurt um trú. Og margt fleira. Þarf að segja frá því. Skýrar frásagnir og einlægar – fólk sem varð fyrir vonbrigðum. Minnast kjarkleysis kirkjunnar, hiki, tuði og tafsi. Fordómarnir skelfilegir. Hinsegin fólk þurft að færa rök fyrir tilvist sinni. Spurt hvað næst? Einhver vill giftast hundinum sínum? Sótt til einhvers viðbjóðslegs dæmis – kirkjan þvælist fyrir sumum þeirra í daglega lífinu. Uppgötva hver þau er. Ákveðinn þegnskaparréttur tekinn frá þeim. Fleygt út úr íbúð þegar leigusali komst að samkynhneigðinni, gott og vel þeir höfðu aldrei lofað að auðsýna kærleika eða sagt að sannleikurinn myndi gera einhvern frjálsan. En kirkjan gerði það. Farið hefur fé betra – stofnun kærleikans – skráði sig úr kirkjunni um leið og viðkomandi skráði sig í sambúð með konu. Persónulegt áfall þegar kirkjan hafnaði fólki. Særði vegna loforðanna sem kirkjan hafði gefið – og sveik nú. Þeir hjuggu sem helst áttu að hlífa. Nokkrir prestar sem stóðu með hommum og lesbíum voru hrópendur í eyðimörkinni. Hommar í kórum, hversu marga homma þolir einn kirkjukór? Kórstjórinn samkynhneigður. Fjöldi presta sem lét engan bilbug á sér finna. Að þjóðkirkjan standi það sterkt á sínum fótum að henni verði ekki þrýst aftur inn í svarthol. Er málefni allra, að standa vörð um réttindi, sem eiga nú meira að segja undir högg að sækja víða – til dæmis í Póllandi og Ungverjalandi.

hsh

 


Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna ´78


Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands


Ragnhildur Sverrisdóttir


Sr. Hildur Björk Hörpudóttir


Guðlaugur Kristmundsson


Málþingið var vel sótt


Framkvæmdastjóri Samtakanna ´78, Daníel E. Arnarsson, prédikaði


Hinsegin kórinn sá um allan tónlistarflutning í kirkjunni undir stjórn Helgu Margrétar Marzellíusardóttur við undirleik Halldórs Smárasonar

  • Frétt

  • Menning

  • Ráðstefna

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Þjóðkirkjan

  • Fræðsla

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut