Viðtalið: Eitt ár að baki

1. júlí 2022

Viðtalið: Eitt ár að baki

Guðmundur Þór Guðmundsson, lögfræðingur kirkjuþings - mynd: hsh

Eitt ár er nú liðið frá gildistöku nýrra þjóðkirkjulaga nú hinn 1. júlí 2022. Var þar rekið smiðshöggið á breytingaferli sem hófst upphaflega árið 2007. Grundvöllur laganna er meðal annars viðbótarsamningur ríkis og kirkju frá 6. september 2019, til 15 ára, við kirkjujarðasamkomulag ríkis og kirkju frá 1997.

Þjóðkirkjan hefur búið við nánast algert sjálfstæði frá gildistöku laganna og getur að mestu leyti ákveðið skipulag sitt, verkefni og forgangsröðun þeirra og hefur fulla stjórn á fjármálum sínum.

„Þjóðkirkjan er ekki lengur hluti af opinberri stjórnsýslu ríkisins heldur er sjálfstætt trúfélag sem er á almennum vinnumarkaði og þarf að tryggja sjálfbæran rekstur sinn til framtíðar,“ segir Guðmundur Þór Guðmundsson, lögfræðingur kirkjuþings, þegar kirkjan.is spyr hann út í stöðuna á ársafmæli laganna. „Kirkjuþing þjóðkirkjunnar ber þar höfuðábyrgð með því að hafa að mestu leyti æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar með talið fjárstjórnarvald samanber hin nýju lög,“ segir hann. Ekki megi gleyma því að umtalsverður hluti útgjalda kirkjunnar, einkum vegna launa vígðra þjóna, sé bundinn við skipunartíma hinna vígðu. Sá skipunartími geti verið allt að fimm ár frá gildistöku þeirrar breytingar 1. janúar 2020 að starfsmenn kirkjunnar voru ekki skilgreindir lengur sem starfsmenn ríkisins.

Guðmundur Þór segir að einnig séu margvíslegar skuldbindingar tengdar fasteignarekstri kirkjunnar. Þessar skuldbindingar séu þess eðlis að það taki tíma að breyta þeim. Þær takmarki nokkuð möguleika kirkjuþings til að beita nýfengnu fjárstjórnarvaldi sínu þegar í stað.

„Kirkjuþing hefur þrátt fyrir það sannarlega axlað ábyrgð sína eins og kostur er með mótun nýs skipulags kirkjustjórnarinnar, nýrrar stefnu fyrir þjóðkirkjuna, margvíslegri endurskoðun starfsreglna og setningu nýrra,“ segir hann.

Þá hafi yfirstjórn þjóðkirkjunnar að hans sögn tekið miklum breytingum með nýrri skilgreiningu verkaskipta kirkjuþings og biskups Íslands.

„Kirkjuþing ber mesta ábyrgð á starfsemi kirkjunnar, ekki hvað síst veraldarvafstri hennar,“ segir hann. „Hlutverk biskupsembættisins er nú einkum að sinna grundvallarskyldum kirkjunnar hvað varðar kristnihald, kenningu kirkjunnar og þjónustu, en ekki að sinna fjármálum eins og áður var. Framkvæmdanefnd kirkjuþings fylgir því eftir að ákvörðunum og samþykktum kirkjuþings sé fylgt eftir og stofnsett hefur verið ný rekstrarstofa kirkjunnar.“

Þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar er nýtt heiti á sameiginlegri skrifstofu og starfsaðstöðu kirkjuþings, rekstrarstofu og biskupsstofu og undirstrikar það nokkuð nýja hugsun um stöðu og hlutverk yfirstjórnar kirkjunnar.

Þjóðkirkjan er enn í miðjum klíðum að aðlaga sig að breyttum veruleika. Nýkjörins kirkjuþings, sem mun starfa á kjörtímabilinu 2022 – 2026, bíða margvíslegar áskoranir og tækifæri til að sækja fram og tryggja eins og kostur er árangursríkt starf þjóðkirkjunnar. Guðmundur Þór segir að nauðsynlegri endurskoðun starfsreglna og stefnumála sé hvergi nærri lokið. Halli hefur verið á rekstri Þjóðkirkjunnar undanfarin ár en allt bendi til þess að jafnvægi náist í rekstri á allra næstu árum.

Þá er mikilvægt að áliti Guðmundar Þórs að sóknargjöld, sem hafa árum saman verið skert um hartnær helming frá því sem boðið er í lögum um sóknargjald, fáist leiðrétt sem allra fyrst. Segir hann að kirkjuþingið verði að gera það sem unnt er til að tryggja leiðréttingu gjaldanna. „Margir söfnuðir glíma við alvarlegan fjárhagsvanda og stefnir í algert óefni hjá mörgum þeirra að óbreyttu,“ segir Guðmundur Þór og bætir við í lokin að tímabært sé að kirkjan fari fyrr en síðar að undirbúa það fyrir sitt leyti hvaða samningsmarkið skuli setja þegar gildistími framangreinds viðbótarsamnings lýkur.

Eftir eitt ár af starfsemi þjóðkirkjunnar í nýju umhverfi er ljóst að mikið svigrúm og mörg tækifæri eru til staðar til að sækja fram á fjölmörgum sviðum.

hsh


Þjóðkirkjulögin samþykkt á Alþingi - Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis stýrir atkvæðagreiðslu


  • Kirkjuþing

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Þjóðkirkjan

  • Frétt

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta