Viðtalið: Menningarlegt þrekvirki

5. júlí 2022

Viðtalið: Menningarlegt þrekvirki

Sveinbjörn Blöndal í góðum félagsskap herra Guðbrands Þorlákssonar og fleiri andans kappa- mynd: hsh

Sveinbjörn Blöndal er hagfræðingur og hefur búið í París í 35 ár. Unnið þar sem sérfræðingur hjá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD. Hann er líka menntaður í sagnfræði.

Hann á fullskipað safn af íslenskum biblíum allt frá Guðbrandsbiblíu 1584 og til þessa dags.

Sveinbjörn er bókasafnari af lífi og sál. Bókasöfnun er áhugamál hans. Hann segist hafa heillast af Guðbrandsbiblíu sem ungur maður. Brennandi bókaáhugi leiði menn alltaf á endanum til Guðbrandsbiblíunnar.

„Yfirleitt hef ég reynt að halda mér við gömlu prentstaðina en fer svo eitthvað út fyrir það,“ segir Sveinbjörn þegar kirkjan.is ræðir við hann um Guðbrandsbiblíuna sem hann er mjög fróður um.

Samkvæmt Minnis- og reikninga-bók Guðbrands biskups var Guðbrandsbiblía prentuð í 500 eintökum.

„Ég þekkti sr. Ragnar Fjalar Lárusson mjög vel og vorum við miklir mátar í bókasöfnun,“ segir Sveinbjörn, „hann byrjaði á því að taka saman skrá yfir eintök af Guðbrandsbiblíunni sem varðveitt voru á Íslandi.“ Sveinbjörn segist hafa ákveðið að halda áfram þessari skráningu og kanna meðal annars hve mörg eintök af Guðbrandsbiblíu væru til í útlöndum.

Í skrá sr. Ragnars Fjalars frá um 1995 kemur fram að hann hafi fundið um 30 eintök hér á landi. Síðan hafi reyndar fleiri komið í ljós og séu til 39 eintök, heil eða heilleg.

En fjöldi eintaka í útlöndum?

„Ég hef fundið rúmlega 60 eintök í útlöndum,“ svarar Sveinbjörn, „þetta eru heilleg eintök, nokkurn veginn heil og það vantar kannski nokkrar blaðsíður og vantar auðu blöðin svokölluð í nokkrar þeirra.“ Hann nefndir líka mjög vanheil eintök af biblíunni eða biblíuhluta eins og til dæmis bara Nýja testamentið eða Spámannabækurnar – og einnig Gamla testamentið.

„Þessi hlutar hafa slitnað frá eða verið bundnir sér inn frá upphafi,“ segir hann og munu vera tíu brot af þessu tagi að sögn hans og bætir við að í upphafi hafi mörg eintök af Guðbrandsbiblíu verið bundin inn í tvö bindi: „Það er eitt af því sem stendur í Minnis- og reikninga-bók Guðbrands.“

Sveinbjörn segir að þessi 60 eintök í útlöndum séu í eigu bókasafna.

Góð eintök eru í eigu háskólanna í Cambridge og Oxford. Harvard háskóli á eitt eintak en hann keypti hið veglega bókasafn Kristjáns Kristjánssonar, fornbókasala, á sínum tíma. Eintak Harvard er stundum kallað Tjarnarbiblían vegna þess að á sínum tíma vildi kirkjan á Tjörn í Svarfaðardal koma sínu eintaki af Guðbrandsbiblíu í verð.

Þá er Guðbrandsbiblía til í Manitobaháskóla í Kanada og er hún í safni Einars Sturlaugssonar sem gefið var til háskólans.

Sveinbjörn telur að tíu heil eða heilleg eintök af Guðbrandsbiblíu séu í Bandaríkjunum og einhverjar þeirra kunni að hafa komið frá Vesturheimi.

„Nokkrar Guðbrandsbiblíur í Vesturheimi, í byggðum Íslendinga, komu til Íslands,“ segir Sveinbjörn, „þegar sr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, var á ferð í Íslendingabyggðum í Vesturheimi fékk hann afhent eintak til að fara með heim og í Landsbókasafninu er eintak sem var í Winnipeg“. Eintakið sem sr. Sigurbjörn fékk fór til Biblíufélagsins.

Sveinbjörn segir að eintök hafi horfið úr landi með Vesturförunum. Það hafi komið fram hjá breskum fornbóksala á tíma vesturferðanna að nú væri mikið framboð af Guðbrandsbiblíu vegna þess að fólk væri að fjármagna ferðina vestur og bauð hana til kaups. Hún var söluvara og það var dýrt að fara til Vesturheims. Þá segir Sveinbjörn að á 19. öld hafi ekkert biblíusafn sem enskir aðalsmenn voru að koma sér upp að hætti síns tíma þótt almennilegt nema það ætti Guðbrandsbiblíu. Það sé kannski ein af ástæðunum fyrir því að ekki færri en 22 Guðbrandsbiblíur eru til í Bretlandi.

Einhverjar kirkjur seldu sínar Guðbrandsbiblíur vegna fjárskorts á 19. öld. Sumar voru ef til vill orðnar hrörlegar og það vantaði kannski ljósahjálm í kirkjuna. Þá var litið til Guðbrands og kannað hvort hann gæti staðið undir slíkum fjárfestingum.

Hvernig er ástand eintakanna sem eru í útlöndum?

„Það er misjafnt eins og hér,“ svarar Sveinbjörn. „Það eru til alveg einstaklega falleg eintök af Guðbrandsbiblíum í upprunalegu standi, skornar einu sinni þegar þær voru bundnar inn, öll blöð, og allt eins gott og það getur verið“, segir hann og telur að það séu rúmlega tíu eintök sem hafi varðveist í upphaflegu bandi.

Sveinbjörn segir það vera markmið hjá mörgum bókasöfnurum að komast yfir eintak af Guðbrandsbiblíu enda sé hún áhrifamesta bók sem komið hafi út á Íslandi. Og sé hún í góðu standi þá er hún líka fallegasta bók sem komið hefur út hér á landi. Nítján eru Guðbrandsbiblíurnar sem eru í einkaeigu íslenskra bókasafnara.

„Þetta var menningarlegt þrekvirki á sínum tíma,“ segir Sveinbjörn, „framkvæmdin svo stórkostleg; eiginlega yfirnáttúrlegt að tekist hafi að koma út biblíu á Íslandi í stóru broti á þessum tíma.“

Hann segir að prentun biblíu í stóru broti hafa verið eitthvað það stærsta og vandasamasta verk sem hver prentsmiðja gat fengið á þessum tíma.

„Þegar Svíar prentuðu sína fyrstu biblíu treystu þeir ekki sænskum prenturum til verksins heldur fengu þýska í það og þegar Danir prentuðu sína fyrstu biblíu í Kaupmannahöfn fengu þeir þýska prentara því að þetta var talið vera svo mikið vandaverk. Aðeins reyndum prenturum var trúað fyrir þessu prentverki,“ segir Sveinbjörn.

Þegar Guðbrandur biskup fór að huga að prentun biblíu hér þá var í landinu einn prentari sem hét Jón Jónsson, sonur Jóns sænska prentara. Hann hafði prentað fáeinar smábækur. Guðbrandur sendi hann utan í starfsþjálfun ef svo má segja í prentsmiðju í Kaupmannahöfn í níu mánuði. „Á þessum tíma var talið nauðsynlegt að sveinar sem væru að læra prentiðn væru í náminu fjögur til sjö ár,“ segir Sveinbjörn.

Þá hafi engin hefð verið fyrir prentun á á Íslandi og enginn vanur að setja bækur. „Það vantaði allt til alls!“ segir hann. „Guðbrandi tókst með stórhug sínum og sínu fólki, sem vann verkið og hjálpaði prentaranum, að prenta glæsilegustu biblíu á Norðurlöndum. Það er óskiljanlegt.“

Útgáfa Guðbrandsbiblíu er að áliti Sveinbjörns menningarlegt afrek bæði fyrir íslenska tungu, kirkjulíf, fyrir ímynd Íslands í útlöndum á þessum tíma. „Þetta var sönnun fyrir því að hér byggi fólk sem ætti góða trú og tilheyrði hinum vestræna heimi,“ segir Sveinbjörn í lokin.

hsh


  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Söfnun

  • Biblían

Sr. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir

Sr. Þuríður Björg ráðin

04. sep. 2024
...í Hafnarfjarðarprestakall
Auglýsing- Guðný.png - mynd

Hausttónleikaröð tekur við af sumartónleikaröð

04. sep. 2024
...opnun á sýningunni Hallgrímshorfur
Haukur Guðlaugsson

Andlát

04. sep. 2024
...Haukur Guðlaugsson látinn