Lokadagur jól í skókassa á laugardaginn

10. nóvember 2022

Lokadagur jól í skókassa á laugardaginn

Jól í skókassa

Jól í skókassa er afar áhugavert alþjóðlegt verkefni sem felst í því að börn í erfiðum aðstæðum fá jólagjöf í skókassa.

Í skókassanum eru litlir hlutir sem gleðja barnshjartað.

Fréttritari kirkjan.is lagði leið sína inn á Holtaveg í höfuðstöðvar KFUM og KFUK á Íslandi

Þar er tekið við skókössunum og þeim komið á áfangastað.

Það var ótrúlega sjón sem blasti við, sjón sem minnti helst á jólagjafaverksmiðju jólasveinsins eins og hún hefur birst í mörgum bíómyndum.

Há fjöll af skókössum í jólapappír blöstu við.

Fullir kassar stóðu á miðju gólfi, sem voru tilbúnir til flutnings og ötular hendur sjálfboðaliða flokkuðu, pökkuðu og fóru yfir.

Sú fyrsta sem varð á vegi mínum var Helena Árnadóttir og hún var að yfirfara ungbarnakassana.

Helena sagði:

„Við erum að yfirfara kassana og athuga hvort það er eitthvað sem vantar.

Í ungbarnakössunum reynum við að hafa svolítið mikið af fötum, þvottastykki, tannkrem og tannbursta og stundum eitthvað svona hollt nammi eða rúsínupakka.

Svo eru smá leikföng og vel af fötum."


Hvað er þetta fyrir gamla?

„Þetta er fyrir eins árs börn.“

Og hvaðan fáið þið þetta?

„Fólk sendir þetta inn.“

Kemur þetta frá verslunum eða fyrirtækjum eða einstaklingum?

„Stundum taka fyrirtæki sig saman og safna eins og Reykjalundur og fleiri.

Þá er það starfsfólk sem tekur sig saman.“

En er ekkert af þessu notað?

„Jú sumt af þessu er notað.

Þannig að fólk getur komið með notað líka ef það lítur vel út og er heillegt.

Þetta er kassi fyrir 15-18 ára. Hvað er í honum?

„Í þessum kössum reynum við að hafa svolítið af skóladóti, skriffæri vasareikni og stílabækur og svo snyrtivörur, en það má ekki vera neitt fljótandi.

Ef það springur í kassanum þá er allt ónýtt.

Og það sem við tökum svoleiðis úr kössunum fer í Kvennaathvarfið."

Hvert er þetta svo sent?

„Þetta fer allt til Úkraínu.

Við höfum alltaf sent til Úkraínu, löngu áður en stríðið braust út, en nú er svo sannarlega mikil þörf.“

Hvar verður þetta afhent?

"Þetta fer á munaðarleysingjahæli og spítala og svo er þetta afhent félagi kvenna sem eru með fötluð börn."

Svo eru fangakassar! Hvað er í þeim?

„Þar gilda strangari reglur“ segi Helena Árnadóttir og bendir á samstarfskonu sína.

Til að segja okkur frá því kom Mjöll Þórarinsdótitir.

Mjöll segir:

„Engir kassar til fanga eru komnir af því við útbúum þá sjálf.

Þetta er svona hliðarverkefni hjá okkur.

Við höfum alltaf sent svona tíu kassa sem eru fyrir svona 40 fanga.

Við setjum hreinlætisvörur í þá, hlýjar flíkur og smásælgæti, penna og stílabók.

Þetta er bara smákærleikur til þeirra í fangelsið frá okkur.

Þetta er fyrir karlmenn og þau sem sækja kapellu sem er þarna og vinna á smíðaverkstæði.

Þeir fá þessa kassa frá okkur.“


Við hittum Ingu Ingimundardóttur og spyrjum hvað hún sé að gera.

Inga segir:

„Ég þvæ og strauja, festi tölur og geri við það sem kemur inn.

Í það fara alltaf tveir mánuðir á ári.“


Mjöll heldur áfram og leggur áherslu á orð sín:

„Núna er lokavikan okkar.

Það er allt komið utan af landi.

Við erum búin að fá allt utan af landi, en það eru stöðvar um allt land.

Ýmis félagasamtök um landið taka að sér að taka á móti þessu.

Tengist þetta allt kirkjunum á stöðunum?

„Á flestum stöðum er þetta í kirkjunum.

Þar er móttakan.

Okkur þykir mjög vænt um að þetta tengist kirkjuni.“

Þetta er alþjóðlegt verkefni! Er það á vegum kirkjunnar í öllum löndum?

„Nei, ekki alls staðar, ýmis félagasamtök hafa tekið þetta að sér eins og Rotary og Ladies circle.“

 

Fréttaritari kirkjan.is fann kærleika streyma úr hverju horni á Holtaveginum og bros var á hverju andliti, sem var að vinna að þessu fallega verkefni......og gott ef jólaandinn leyfði sér ekki að streyma inn.

 

slgMyndir með frétt

 • Barnastarf

 • Hjálparstarf

 • Kærleiksþjónusta

 • Kirkjustarf

 • Leikmenn

 • Samfélag

 • Samstarf

 • Sjálfboðaliðar

 • Söfnun

 • Úkraína

 • Alþjóðastarf

Jóladagatalið Gefum gæðastund í skóinn.jpg - mynd

Samverustundir í skóinn

09. des. 2022
.........“sjáðu mig!“
Svalbarðskirkja flutt fyrir 50 árum -mynd akureyri.net

Kirkjur á ferð og flugi

08. des. 2022
..........50 ár frá flutningi Svalbarðskirkju
Sr. Ragnheiður, Margrét og sr. Gísli -mynd Þuríður Kristjana Þorbergsdóttir

Mikilvægt að kirkjan þjóni Íslendingum erlendis

06. des. 2022
.......sr. Gísli Gunnarsson heimsækir söfnuðinn á Spáni